Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að hækka stýrivexti bankans um 0,25%. Meginvextir Seðlabankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 6,0%. Svo háir hafa vextirnir ekki verið síðan á 3. fjórðungi ársins 2010. Hækkunin var í efri kantinum á birtum spám. Við spáðum 0,25 prósenta hækkun en aðrir óbreyttum vöxtum.
Seðlabankinn kveður vaxtahækkunarár með 0,25 prósentu vaxtahækkun
Óhagstæð þróun verðbólgu á haustdögum, lífseigur eftirspurnarvöxtur og þrálátar háar verðbólguvæntingar eru helstu ástæður þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur á síðasta vaxtaákvörðunardegi þessa árs. Bankinn telur sem fyrr efnahagshorfur allgóðar og gerir ráð fyrir að verðbólga hjaðni jafnt og þétt á komandi misserum. Allgóðar líkur eru á að vaxtahækkunarferli bankans sé hér með á enda en ekki má þó mikið út af bregða svo vextir verði ekki hækkaðir eitthvað frekar á nýju ári.
Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 5,25 prósentur frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst í maí 2021.
Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:
- Verðbólga jókst lítillega á ný í október og mældist 9,4%.
- Verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur áfram aukist.
- Gengi krónunnar hefur lækkað frá októberfundi peningastefnunefndar.
- Þá hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma hækkað nokkuð.
- Vísbendingar eru um að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans hafi veikst og því gæti tekið lengri tíma en ella að ná verðbólgu í markmið.
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er orðrétt óbreytt frá októberyfirlýsingu peningastefnunefndar og tónninn tiltölulega hlutlaus.
Hún hljóðar svo:
Peningastefnunefnd mun áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.
Að okkar mati heldur nefndin með þessu öllum möguleikum opnum varðandi fyrstu vaxtaákvörðun á nýju ári. Miðað við okkar sýn á verðbólgu- og efnahagsþróun á komandi misserum eru þó góðar líkur á því að vaxtahækkunin nú marki lok vaxtahækkunarferils Seðlabankans.
Hagvöxtur færist á milli ára
Ný hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur verði örlítið minni í ár en spáð var í ágúst en spáin fer úr 5,9% í 5,6% vöxt. Ástæðan er hægari vöxtur á fyrri hluta ársins en horfur fyrir seinni hluta ársins haldast óbreyttar. Horfur fyrir næsta ár hafa hins vegar batnað að mati bankans og spáð er 2,8% hagvexti í stað 1,9% í ágúst. Skýrist það fyrst og fremst af horfum um hraðari vöxt innlendrar eftirspurnar þar sem ráðstöfunartekjur hafa verið að vaxa töluvert hraðar en gert var ráð fyrir. Árið 2024 er gert ráð fyrir 2,6% hagvexti sem er örlítið meiri vöxtur en í ágústspánni.
Hagvaxtarspá Seðlabankans er nokkuð svartsýnni fyrir þetta ár en þjóðhagsspá okkar frá því í september. Við spáum ríflega 7% hagvexti á þessu ári. Á móti spáir Seðlabankinn hraðari hagvexti á næsta ári. Helsti munurinn er sá að við gerum ráð fyrir hraðari vexti í einkaneyslu og fjárfestingu á þessu ári en Seðlabankinn áætlar að slíkur vöxtur færist yfir á það næsta.
Í Peningamálum segir að vísbendingar séu um að spenna á vinnumarkaði fari minnkandi. Bankinn spáir að skráð atvinnuleysi verði 3,8% í ár sem er óbreytt frá ágústspánni. Atvinnuleysi mun mælast 3,5% á næsta ári samkvæmt spá þeirra og þokast svo upp undir lok spátímans og vera 3,7% árið 2024.
Verðbólguhorfur batna talsvert
Verðbólguhorfur Seðlabankans hafa breyst talsvert frá ágústspánni enda reyndist sú spá ansi svartsýn. Bankinn gerir ráð fyrir að verðbólga standi í stað það sem eftir er af þessu ári og verði að meðaltali 9,4% á lokafjórðungi ársins. Á þessu ári mun verðbólga því mælast að jafnaði 8,3% að jafnaði. Spáin gerir svo ráð fyrir að verðbólga hjaðni nokkuð hratt á næsta ári og muni mælast að meðaltali 6%. Árið 2024 spá þau 3,6% verðbólgu að jafnaði og að á lokafjórðungi ársins mælist verðbólga 3,4%. Verðbólga þokast því í rétta átt en þó er töluvert langt í að verðbólga mælist við markmið Seðlabankans.
Í Peningamálum kemur fram að verðhækkanir eru á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga heldur áfram að aukast. Í ljósi þess að dregið hefur úr umsvifum á húsnæðismarkaði að undanförnu er líklegt að samsetning verðbólgu breytist á næstunni. Framlag húsnæðisliðarins
Vona það besta en viðbúin að hækka vexti frekar
Á kynningarfundi í Seðlabankanum ítrekuðu stjórnendur bankans þau skilaboð að þau vonuðust til að nóg væri að gert í auknu vaxtaaðhaldi með hækkuninni nú. Þau væru hins vegar tilbúin að bregðast við með frekari hækkun vaxta ef þróun verðbólgu og innlendrar eftirspurnar á komandi mánuðum yrði óhagfelld eða aðrir þeir sem áhrif gætu haft á verðbólguhorfur, s.s. aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld, myndu ekki leggjast á sveif með bankanum í því ætlunarverki að ná böndum á verðbólgu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri nefndi aðspurður að undirliggjandi eftirspurn á íbúðamarkaði virtist enn vera mikil og þar spilaði fjölgun innflutts starfsfólks og endurkoma ferðaþjónustunnar ekki síst inn í.
Þá væri ljóst að einkaneysla væri enn býsna lífleg, sem skýrðist mögulega af því að uppsafnaður sparnaður frá faraldurstímanum væri drýgri en áður var talið auk þess sem ráðstöfunartekjur hefðu aukist talsvert, a.m.k. fram á síðustu mánuði. Mikil innflutt einkaneysla, sem birtist til að mynda í tíðum utanlandsferðum, hefði svo haft áhrif á gengisþróun krónu undanfarna mánuði. Þótt bankinn hefði þá stefnu að mýkja skammtímagengishreyfingar stæði ekki til, svo notuð séu orð seðlabankastjóra sjálfs „..að fjármagna Tene-ferðir almennings með gjaldeyrisforðanum“. Aðalhagfræðingur bankans sagði aðspurður að gert væri ráð fyrir að talsvert hægði á vexti einkaneyslu milli ára allra næstu fjórðunga, ekki síst vegna grunnáhrifa af miklum neysluvexti undanfarna ársfjórðunga. Þó væri seigt í einkaneyslunni endar gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hún vaxi áfram ár frá ári á spátíma.
Endalok vaxtahækkunarferlis?
Nokkuð langt er í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, sem væntanlega verður í febrúarbyrjun ef fylgt verður sama takti og síðustu ár. Þegar þar er komið sögu verður mögulega farið að sjá til lands í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði, verðbólga líklega orðin heldur minni en nú og skýrari merki farin að birtast um minni þenslu í hagkerfinu og minnkandi spennu á vinnumarkaði.
Verði það raunin teljum við að vaxtahækkunarferlinu sé hér með lokið og að vextir munu verða óbreyttir í 6% fram á mitt næsta ár en taka að lækka að nýju á síðari helmingi ársins 2023. Það má þó ekki mikið út af bregða í þróun verðbólgu, verðbólguvæntinga og eftirspurnarvexti svo bankinn hækki ekki vexti eitthvað frekar.