Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Seðlabankinn bregst af krafti við COVID-19 faraldri

Lækkun stýrivaxta Seðlabankans um hálfa prósentu og lækkun bindiskyldu á banka eru jákvæð og mikilvæg skref í þeirri viðleitni að mýkja efnahagshöggið af COVID-19 faraldrinum. Miklu skiptir að aðrir hagstjórnaraðilar leggist með á sömu árar sem fyrst og myndin af heildarviðbrögðum skýrist áður en efnahagsáhrif faraldursins komi fram af fullum þunga.


Seðlabankinn lækkaði í morgun stýrivexti um 0,50 prósentur og eru meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innstæðum, nú 2,25%. Vextir bankans hafa aldrei verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp sem peningastefna í mars 2001. Að auki tilkynnti nefndin að ákveðið hefði verið að meðaltalsbindiskylda innlánsstofnana yrði lækkuð úr 1% í 0% og meðferð föstu bindiskyldu innlánsstofnananna yrði breytt á þann veg að bankar geta nú talið hana til lausafjárforða. Heildaráhrif af þessu eru metin jafngildi 40 ma.kr. rýmkunar á lausafjárstöðu viðskiptabankanna.

Með þessum ákvörðunum er slakað á taumhaldi peningastefnunefndarinnar í ljósi versnandi efnahagshorfa. Þá segir einnig í yfirlýsingu peningastefnunefndar að fylgst verði grannt með framvindu efnahagsmála á næstunni og þau tæki verði notuð sem nefndin hefur til ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn.

Almennt hafði verið búist við lækkun vaxta í morgun eftir að í ljós kom í gær að vaxtaákvörðunardeginum hafði verið flýtt um viku. Einnig mátti eiga von á fleiri aðgerðum af hálfu Seðlabankans eins og kom á daginn. Er það í takti við viðbrögð Seðlabanka víða um heim þessa dagana. Með framangreindri lækkun á bindiskyldu og væntu flæði lausafjár ÍLS til fjármálastofnana má gera ráð fyrir að lausafjárstaða viðskiptabankanna rýmkist um allt að 70 mö.kr. á komandi vikum. Er það mikilvæg aðgerð í þá veru að tryggja greiðan aðgang að lausafé í fjármálakerfinu öllu á næstunni.

Efnahagshorfur talsvert dekkri en stoðir sterkar

Á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að peningastefnunefndin væri undir það búin að boða aukafundi eftir þörfum næsta kastið. Ljóst væri að hagspá bankans frá febrúar síðastliðnum væri úrelt og efnahagshorfur væru talsvert dekkri til skemmri tíma litið. Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri nefndi að verið væri að vinna efnahagssviðsmyndir sem nýttar væru innan bankans og af stjórnvöldum. Hins vegar yrði formleg spá næst gefin út í maí líkt og áætlað hefði verið enda óvissa enn mikil og forsendur tækju stöðugum breytingum.

Seðlabankastjóri benti á að Ísland væri að takast á við efnahagsáfallið nú með styrkari stoðir en nokkru sinni fyrr. Bankar væru mun betur fjármagnaðir en áður, hið opinbera minna skuldsett og gjaldeyrisforði Seðlabankans myndarlegur. Þá hefði viðskiptaafgangur verið umtalsverður og erlend staða þjóðarbúsins væri jákvæð. Stöðugleiki væri meiri en áður hefði verið. Það væri því hægt að slaka á peningastefnunni án þess að hafa áhyggjur af verðbólgu.

Aðspurður sagði seðlabankastjóri að peningastefnunefndin hefði eftir sem áður trú á getu vaxtatækisins til að hafa áhrif út í hagkerfið. Benti hann á að stór hluti skulda íslenskra fyrirtækja væri á breytilegum vöxtum og auk þess yrði lausafjárfyrirgreiðsla fyrir þau fyrirtæki sem á þyrftu að halda einnig á breytilegum vöxtum. Peningastefnan væri hvað þetta varðar orðin mun öflugri en hún var á árum áður. Hins vegar tæki lengri tíma fyrir lægri vexti að hafa áhrif eftir öðrum leiðum og til að mynda væri ólíklegt að ný fjárfestingaverkefni spryttu upp næsta kastið þótt fjármögnun væri ódýrari.

Allir saman nú!

Aðgerðir Seðlabankans nú í dag koma í kjölfar aðgerðapakka sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Það verður þó að segjast að bæði aðgerðir bankans sjálfar sem og kynning þeirra var talsvert betur útfært en pakki ríkisstjórnarinnar í gær. Væntanlega hefur það róað ýmsa að heyra þann tón sem sleginn var í morgun um að Seðlabankafólk fylgdist grannt með þróun mála og væri tilbúið að bregðast hratt við breyttum horfum með þeim meðulum sem bankinn hefur yfir að ráða. Vonandi varpar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem væntanleg er fyrir marslok, skýrara ljósi á hennar mótvægisaðgerðir á komandi fjórðungum. Það er líka brýnt að álögum á ferðaþjónustuna, og í raun atvinnulífið í landinu almennt, verði tímabundið slakað til meðan horfur eru að skýrast og versta áfallið að dynja yfir. Þar hlýtur lækkun tryggingagjalds að vera nærtæk leið.

Þau púsl sem enn vantar í spilið varðandi heildar efnahagsviðbrögð við COVID-19 faraldrinum snúa nú ekki síst að sveitarfélögum og beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Mikilvægt er að sveitarfélögin stigi fram með svipuðum hætti og ríkisstjórnin hefur þegar gert, uppfæri fjárfestingaráætlanir sínar og liðki tímabundið fyrir hvað varðar opinberar álögur og slíkt. Þá hlýtur að vera til skoðunar að draga úr kvöðum á fjármálastofnanir hvað varðar eigið fé og skattheimtu. Lækkun sveiflujöfnunarauka er þar nærtæk ásamt lækkun bankaskattsins, en hvort tveggja væri til þess fallið að auka burði bankakerfisins til þess að veita fyrirtækjum landsins lánafyrirgreiðslu á hagfelldum kjörum. Mikilvægt er að mati okkar að heildarmyndin af viðbrögðum hagstjórnaraðila skýrist áður en áhrif COVID-19 faraldursins á fyrirtæki og heimili taka að koma fram af fullum þunga. Slíkt myndi draga verulega úr óvissu og minnka hættu á vítahring lágra væntinga, minnkandi eftirspurnar og verri fjárhagsstöðu fyrirtækja og heimila.

Jákvæð viðbrögð á markaði

Markaðir virðast hafa tekið tíðindum dagsins vel. Þegar þetta er ritað (kl.12:30) hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkað um 11 – 21 punkta (hundraðshluta úr prósentu) frá opnun markaða og krafa verðtryggðra bréfa hefur lækkað um 4 – 10 punkta. Óverðtryggðir langtíma grunnvextir eru nú 2,5% miðað við feril ríkisbréfa og verðtryggðir langtíma grunnvextir 0,2%. Hafa fyrrnefndu vextirnir aldrei verið lægri eftir því sem við komumst næst. Þá hefur hlutabréfaverð almennt hækkað og er OMXI10 vísitalan nú 4,7% hærri en við dagslok í gær.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband