Bankinn harmar mjög að brotalamir hafi komið í ljós en áréttar að ekki leikur grunur á að eiginlegt peningaþvætti hafi farið fram í gegnum kerfi Íslandsbanka. Gerðar voru athugasemdir í alls 12 liðum, við umgjörð, framkvæmd og eftirlit með vörnum bankans gegn peningaþvætti. Bankinn féllst á athugasemdir eftirlitsins og óskaði eftir að ljúka málinu með sátt sem birt verður á heimasíðu fjármálaeftirlitsins.
Síðustu ár hafa reglur sem snúa að vörnum gegn peningaþvætti verið hertar reglulega, líkt og viðskiptavinir hafa fundið fyrir, svo sem vegna ítarlegra áhættumats og aukinnar kröfu um auðkenningu vegna kaupa á gjaldeyri. Úrbætur í kjölfar athugasemda fjármálaeftirlitsins eru langt komnar og standa vonir bankans til þess að þeirri vinnu verði að fullu lokið fyrir lok júní mánaðar, en útaf standa einungis örfá tæknileg atriði.
Fjármálaeftirlitið fann alls 12 annmarka á framkvæmd bankans, sem voru allt frá því að vera að nokkru ábótavant og upp í að vera verulega ábótavant. Annmarkar skiptast í fjóra meginþætti eins og að neðan greinir.