Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sátt Íslandsbanka við Seðlabanka Íslands

Í kjölfar vettvangsathugunar fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á tilhögun og framkvæmd varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá sem fram fór í október og nóvember árið 2022, hefur Íslandsbanki unnið að úrbótum í samræmi við athugasemdir sem frá eftirlitinu komu.


Bankinn harmar mjög að brotalamir hafi komið í ljós en áréttar að ekki leikur grunur á að eiginlegt peningaþvætti hafi farið fram í gegnum kerfi Íslandsbanka. Gerðar voru athugasemdir í alls 12 liðum, við umgjörð, framkvæmd og eftirlit með vörnum bankans gegn peningaþvætti.  Bankinn féllst á athugasemdir eftirlitsins og óskaði eftir að ljúka málinu með sátt sem birt verður á heimasíðu fjármálaeftirlitsins.

Síðustu ár hafa reglur sem snúa að vörnum gegn peningaþvætti verið hertar reglulega, líkt og viðskiptavinir hafa fundið fyrir, svo sem vegna ítarlegra áhættumats og aukinnar kröfu um auðkenningu vegna kaupa á gjaldeyri. Úrbætur í kjölfar athugasemda fjármálaeftirlitsins eru langt komnar og standa vonir bankans til þess að þeirri vinnu verði að fullu lokið fyrir lok júní mánaðar, en útaf standa einungis örfá tæknileg atriði.

Fjármálaeftirlitið fann alls 12 annmarka á framkvæmd bankans, sem voru allt frá því að vera að nokkru ábótavant og upp í að vera verulega ábótavant. Annmarkar skiptast í fjóra meginþætti eins og að neðan greinir.

Úrbótakröfur Fjármálaeftirlitsins

Starfsfólk Íslandsbanka hefur unnið sleitulítið að úrbótum frá því að bankanum bárust fyrstu athugasemdir eftirlitsins í kjölfar vettvangsskoðunarinnar. Íslandsbanki telur sig hafa innleitt og unnið úr öllum úrbótakröfum eftirlitsins, en eingöngu standa útaf örfá tæknileg atriði sem unnið er úr þessa dagana.

Það er ófrávíkjanlegur hluti af sátt bankans við Fjármálaeftirlitið að bankinn bregðist við og vinni úr ofangreindum úrbótakröfum sem eftirlitið hefur lagt fram. Íslandsbanki mun því þegar yfirfara þær úrbætur sem þegar hefur verið ráðist í og bera þær við kröfur Fjármálaeftirlitsins til þess að tryggja fullna fylgni við kröfur eftirlitsins. Bankinn ætlar að ljúka öllum úrbótakröfum fjármálaeftirlitsins, hafi þær ekki þegar verið innleiddar, fyrir 6. september næstkomandi. Í kjölfarið mun innri endurskoðandi bankans yfirfara úrbætur og skila skýrslu þar um til Fjármálaeftirlitsins.