Jákvæðar verðbólgutölur birtust í janúar þegar vísitala neysluverðs lækkaði á milli mánaða og ársverðbólga hjaðnaði um heilt prósentustig, úr 7,7% í 6,7%. Útlit er fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna nokkuð hratt á næstu mánuðum. Stórir hækkunarmánuðir frá fyrri helmingi síðasta árs eru að detta út úr ársmælingunni og útlit fyrir að hækkanir næstu mánuði verði talsvert minni og þar með hjaðnar ársverðbólga. Til að setja þetta í samhengi hækkaði vísitala neysluverðs um nærri 1% í hverjum mánuði fyrstu 6 mánuðina í fyrra. Við spáum því að á fyrstu sex mánuðum þessa árs muni vísitala neysluverðs hækka að jafnaði um 0,4% í hverjum mánuði. Ef sú spá reynist rétt gæti verðbólga verið um 5% um mitt þetta ár.
Er verðbólga niður í markmið fjarlægur draumur?
Þrátt fyrir að verðbólga geti hjaðnað nokkuð hratt næstu mánuði er enn langt í markmið Seðlabankans. Við í Greiningu Íslandsbanka gáfum út þjóðhagsspá í lok janúar þar sem birtist ný verðbólguspá. Í þeirri spá gerum við ekki ráð fyrir því að verðbólga nái 2,5% markmiðinu á spátímanum sem nær út árið 2026. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 5,2% árið 2024, 3,2% árið 2025 og 3,0% árið 2026. Verðbólgan verður þó ansi nálægt markmiðinu á lokaári spátímans.
Einn stærsti óvissuþátturinn til lengri tíma eru kjarasamningar. Ef launahækkanir verða fram úr öllu hófi er mikil hætta á víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Að meðaltali hafa laun hækkað talsvert undanfarin ár, eða að meðaltali um 7% á hverju ári frá árinu 2010. Minnst hefur hækkunin verið um 5% en mest um 11%.
Í fyrra hækkuðu laun um 9,8% og þrátt fyrir mikla verðbólgu jókst kaupmáttur launa um 1%. Ástæða fyrir hækkuninni voru nýir samningar sem undirritaðir voru fyrir allan vinnumarkaðinn. Samningarnir voru einungis til eins árs og er því önnur lota kjaraviðræðna nú þegar hafin. Óvissan er vissulega mikil en við spáum því að laun hækki um 6,5% á þessu ári, 5,5% árið 2025 og 4,5% árið 2026.