Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samspil launa og verðbólgu

Þó verðbólga hafi hjaðnað hratt síðustu mánuði er langt í að hún verði við markmið Seðlabankans. Einn stærsti óvissuþáttur varðandi verðbólguhorfur til lengri tíma eru hvernig kjarasamningar þróast. Hér er farið yfir þróun verðbólgunnar næstu árin ef launaliðurinn þróast til betri eða verri vegar en Greining Íslandsbanka spáir. Það er ljóst að það er hagur allra, heimila og fyrirtækja, að ná niður verðbólgu og þar með vaxtastiginu í landinu.


Jákvæðar verðbólgutölur birtust í janúar þegar vísitala neysluverðs lækkaði á milli mánaða og ársverðbólga hjaðnaði um heilt prósentustig, úr 7,7% í 6,7%. Útlit er fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna nokkuð hratt á næstu mánuðum. Stórir hækkunarmánuðir frá fyrri helmingi síðasta árs eru að detta út úr ársmælingunni og útlit fyrir að hækkanir næstu mánuði verði talsvert minni og þar með hjaðnar ársverðbólga. Til að setja þetta í samhengi hækkaði vísitala neysluverðs um nærri 1% í hverjum mánuði fyrstu 6 mánuðina í fyrra. Við spáum því að á fyrstu sex mánuðum þessa árs muni vísitala neysluverðs hækka að jafnaði um 0,4% í hverjum mánuði. Ef sú spá reynist rétt gæti verðbólga verið um 5% um mitt þetta ár.

Er verðbólga niður í markmið fjarlægur draumur?

Þrátt fyrir að verðbólga geti hjaðnað nokkuð hratt næstu mánuði er enn langt í markmið Seðlabankans. Við í Greiningu Íslandsbanka gáfum út þjóðhagsspá í lok janúar þar sem birtist ný verðbólguspá. Í þeirri spá gerum við ekki ráð fyrir því að verðbólga nái 2,5% markmiðinu á spátímanum sem nær út árið 2026. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 5,2% árið 2024, 3,2% árið 2025 og 3,0% árið 2026. Verðbólgan verður þó ansi nálægt markmiðinu á lokaári spátímans.

Einn stærsti óvissuþátturinn til lengri tíma eru kjarasamningar. Ef launahækkanir verða fram úr öllu hófi er mikil hætta á víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Að meðaltali hafa laun hækkað talsvert undanfarin ár, eða að meðaltali um 7% á hverju ári frá árinu 2010. Minnst hefur hækkunin verið um 5% en mest um 11%.

Í fyrra hækkuðu laun um 9,8% og þrátt fyrir mikla verðbólgu jókst kaupmáttur launa um 1%. Ástæða fyrir hækkuninni voru nýir samningar sem undirritaðir voru fyrir allan vinnumarkaðinn. Samningarnir voru einungis til eins árs og er því önnur lota kjaraviðræðna nú þegar hafin. Óvissan er vissulega mikil en við spáum því að laun hækki um 6,5% á þessu ári, 5,5% árið 2025 og 4,5% árið 2026.

Víxlverkun launa og verðlags

Vegna þess hve stór óvissuþáttur launaliðurinn er í verðbólguspá okkar birtum við dæmi um hvernig verðbólguhorfur geta breyst ef laun hækka meira eða minna en við spáum á meðan öðrum þáttum í verðbólguspánni er haldið föstum. Þetta eru vissulega mjög einfaldar sviðsmyndir og ýmsir aðrir þættir sem ráða miklu um verðbólguþróun næstu árin, til að mynda gengi krónunnar og verðþróun á fasteignamarkaði. Í þessum sviðsmyndum er þó einungis einblínt á launaliðinn og er um að ræða bjarta sviðsmynd annars vegar og svarta sviðsmynd hins vegar.

Í björtu sviðsmyndinni hækka laun minna en við spáum. Þau hækka um 5% á þessu ári, 3,6% á næsta ári og 3,1% árið 2026. Bjarta sviðsmyndin ber því nafn með rentu hvað innlendan kostnaðarþrýsting varðar, enda talsvert undir launahækkunum síðustu ára. Í svörtu sviðsmyndinni hækka laun í ár um svipað mikið og í fyrra eða um 9,5%, 9% á næsta ári og 5,1% árið 2026. Að okkar mati er þetta ansi svartsýn sviðsmynd þar sem miklar launahækkanir ná yfir tveggja ára tímabil, og gerum við ráð fyrir kjarasamningum sem leiða af sér launaskrið á vinnumarkaðinum.

Eins og sést á myndinni hér að neðan hjaðnar verðbólga talsvert hægar á tímabilinu ef laun hækka meira en minna. Til að mynda mun verðlag hækka um 12% á næstu þremur árum samkvæmt svartsýnu spánni en 8% samkvæmt þeirra bjartsýnu. Samkvæmt þjóðhagsspá okkar mun verðlag hins vegar vegar hækka um 10% á tímabilinu. Samkvæmt bjartsýnu spánni mun verðbólga því vera við markmið Seðlabankans um mitt ár 2026.

Vaxtalækkunarferlið veltur á verðbólgunni

Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í síðustu viku og var tónn Peningastefnunefndar mun mildari en við síðustu ákvörðun í nóvember. Við teljum því mestar líkur á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið og að stýrivextir verði óbreyttir fram á vor ef verðbólga heldur áfram að þróast í takti við spár. Það er þó ekki útilokað að vextir geti lækkað í næstu ákvörðun í mars. Vaxtalækkunarferlið verður hægfara fyrst í stað og stýrivextir áfram háir á komandi fjórðungum. Við spáum því að stýrivextir verði komnir í 8,0% í árslok 2024, í 6% að tveimur árum liðnum og í 5% undir lok spátímans.

Ekki má þó mikið út af bregða svo enn frekari bið verði ekki á vaxtalækkun og ekki er hægt að útiloka frekari vaxtahækkun á næstu fjórðungum. Gangi svartsýna sviðsmyndin hér að framan til að mynda eftir gætu stýrivextir orðið ríflega 1 prósentu hærri að jafnaði á spátímanum. Að sama skapi myndu lægri vextir fylgja bjartsýnu sviðsmyndinni og gæti þeir orðið ríflega prósentu lægri að jafnaði á spátímanum en í grunnspánni. Það er ljóst að það er til mikils að vinna fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu að ná verðbólgunni niður og þar með vaxtastiginu.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband