Á föstudaginn var undirritað samkomulag um starfsemi og fjármögnun Grænvangs til ársins 2026. Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir og var stofnaður fyrir tveimur árum. Við sama tækifæri var tilkynnt um fimm nýja bakhjarla vettvangsins, þ.e. Brim, Icelandair Group, Íslandsbanka, KPMG og Kviku.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði við þetta tilefni fyrsta áfanga nýrrar margmiðlunarsýningar sem ber heitið Græn framtíð. Sýningin verður fullbúin í október en hún er tileinkuð framlagi Íslands í loftslagsmálum. Græn framtíð er staðsett á fjórðu hæð í Grósku – hugmyndahúsi innan veggja nýrrar skrifstofu Íslandsstofu og Grænvangs. Sýningin varpar ljósi á árangur og sögu Íslands við hagnýtingu grænna orkugjafa, segir frá framtíðarmarkmiðum Íslands í loftslagsmálum, og dregur fram þær fjölmörgu lausnir sem íslenskir frumkvöðlar hafa fram að færa á erlendum mörkuðum.
Sýningin er starfrækt af Grænvangi og Íslandsstofu og byggir á hugmyndavinnu sem unnin var með aðstoð fjölmargra. Við mótun sýningarinnar naut Grænvangur meðal annars liðsinnis sagnfræðingsins Stefáns Pálssonar og jarðfræðingsins Sævars Helga Bragasonar. Gagarín sá um hönnun og gerð sýningaratriða.