Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samkomulag um fjármögnun Grænvangs

Á dögunum var undirritað samkomulag um starfsemi og fjármögnun Grænvangs til ársins 2026. Íslandsbanki er einn bakhjarla Grænvangs.


Á föstudaginn var undirritað samkomulag um starfsemi og fjármögnun Grænvangs til ársins 2026. Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir og var stofnaður fyrir tveimur árum. Við sama tækifæri var tilkynnt um fimm nýja bakhjarla vettvangsins, þ.e. Brim, Icelandair Group, Íslandsbanka, KPMG og Kviku.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði við þetta tilefni fyrsta áfanga nýrrar margmiðlunarsýningar sem ber heitið Græn framtíð. Sýningin verður fullbúin í október en hún er tileinkuð framlagi Íslands í loftslagsmálum. Græn framtíð er staðsett á fjórðu hæð í Grósku – hugmyndahúsi innan veggja nýrrar skrifstofu Íslandsstofu og Grænvangs. Sýningin varpar ljósi á árangur og sögu Íslands við hagnýtingu grænna orkugjafa, segir frá framtíðarmarkmiðum Íslands í loftslagsmálum, og dregur fram þær fjölmörgu lausnir sem íslenskir frumkvöðlar hafa fram að færa á erlendum mörkuðum.

Sýningin er starfrækt af Grænvangi og Íslandsstofu og byggir á hugmyndavinnu sem unnin var með aðstoð fjölmargra. Við mótun sýningarinnar naut Grænvangur meðal annars liðsinnis sagnfræðingsins Stefáns Pálssonar og jarðfræðingsins Sævars Helga Bragasonar. Gagarín sá um hönnun og gerð sýningaratriða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Við Íslendingar eigum að vera í forystu í loftslagsmálum, ganga á undan með góðu fordæmi og ráðast í enn metnaðarfyllri aðgerðir til þess að ná nauðsynlegum markmiðum um samdrátt í losun og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Til þess höfum við alla burði. Við höfum náð góðum árangri í nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum  með íslensku hugviti. Við þurfum áfram að byggja á því og efla nýsköpun til að tryggja árangur á öllum sviðum samfélagsins.“

Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs: „Samstarf atvinnulífsins og hins opinbera á vettvangi Grænvangs er mikilvægt og varðar leiðina að metnaðarfullu markmiði um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Líta þarf til þeirrar reynslu og þekkingar sem hefur skapað fjölmargar grænar lausnir hér á landi. Sýningin er liður í að varpa ljósi á þá merkilegu sögu og á það sem við höfum fram að færa við lausn loftslagsvandans á alþjóðlega vísu.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu: „Við bindum miklar vonir við að þessi sýning geti greitt íslenskum fyrirtækjum leið út í heim. Hér á landi hafa verið þróaðar margvíslegar hátæknilausnir, til dæmis tengdar grænni orku og við föngun og förgun gróðurhúsalofttegunda, svo eitthvað sé nefnt. Það er ástæða til að ætla að græni geirinn geti aukið útflutningstekjur þjóðarinnar svo um munar.“

Um Grænvang:

Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld til að vinna að sameiginlegu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland 2040. Auk þess kynnir Grænvangur íslenskar grænar lausnir erlendis í samstarfi við Íslandsstofu undir merkjum Green by Iceland.

Bakhjarlar Grænvangs eru forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka, Viðskiptaráð Íslands, Íslandsstofa, Orkuklasinn, Landsvirkjun, Landsnet, Rarik, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar, Veitur, HS Orka, Elkem Ísland, Rio Tinto á Íslandi, Norðurál, Alcoa Fjarðaál, Efla, Verkís, Mannvit, Arion banki, Kvika, Brim, Icelandair Group, Íslandsbanki, KPMG, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Skógræktin, Landgræðslan, Rannís, Auðna og Festa.