Sjálfbærar og umhverfisvænar fjárfestingar eru ekki bara einhver tískubylgja að sögn tveggja yfirmanna hjá norska eignastýringafélaginu Storebrand. Ekki aðeins séu þær ábatasamar og skili fjárfestum góðri ávöxtun heldur er regluverk heimsins jafnframt að þróast sífellt hraðar í þá átt. Núna sé því rétti tíminn til að huga að sjálfbærum fjárfestingakostum og vera þannig á undan þróuninni.
Íslandsbanki og Storebrand boðuðu til málstofu um fjárfestingar á Hilton Nordica á fimmtudag. Málstofan var vel sótt af fjölbreyttum hópi fjárfesta, enda er Storebrand stærsta eignastýringafélag Noregs að frátöldum sjálfum norska olíusjóðnum. Storebrand hefur lagt áherslu á samfélagslega ábyrgar fjárfestingar (e. ESG- Environmental, Social, Governance) frá miðjum tíunda áratugnum, áhersla sem þeir Olav Chen og Spiros Alan Stathacopolous segja að hafi verið framúrstefnuleg á sínum tíma en sé nú að bera ríkan ávöxt.
Blikur á lofti
Á málstofunni var framtíðin fyrirferðamikil, hvernig efnahagskerfi heimsins muni koma til að þróast á næstu misserum og hvernig fjárfestar geta ávaxtað pund sitt við þessar aðstæður sem uppi eru. Olav Chen, fékk það vandasama verk á málstofunni að greina horfurnar, segir að næstu mánuðir muni áfram einkennast af óvissu.
Ekki aðeins þegar kemur að framvindu stríðsins í Úkraínu heldur einnig hvernig seðlabönkum og ríkisstjórnum heimsins muni takast að ráða niðurlögum verðbólgunnar sem þjaka mörg hagkerfi, eins og það íslenska. Opnun kínverska hagkerfisins eftir harðar veirutakmarkanir sé jafnframt líkleg til að setja þrýsting á eftirspurnarhliðina, sem kunni m.a. að birtast í auknum fjölda kínverskra ferðamanna á Íslandi. Ekki bæti úr skák að alþjóðavæðingin sé víða á undanhaldi, með ríkari kröfu um að framleiðsla sé flutt „aftur heim.“ Þessu muni fylgja minni sérhæfing einstakra hagkerfa sem kunni að leiða til kostnaðarauka og um leið aukinnar verðbólgu.