Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar ekki bara tískuorð

Yfirmenn hjá norska eignastýringafélaginu Storebrand segja ábyrgar fjárfestingar hafi reynst ábatasamar.


Sjálfbærar og umhverfisvænar fjárfestingar eru ekki bara einhver tískubylgja að sögn tveggja yfirmanna hjá norska eignastýringafélaginu Storebrand. Ekki aðeins séu þær ábatasamar og skili fjárfestum góðri ávöxtun heldur er regluverk heimsins jafnframt að þróast sífellt hraðar í þá átt. Núna sé því rétti tíminn til að huga að sjálfbærum fjárfestingakostum og vera þannig á undan þróuninni.

Íslandsbanki og Storebrand boðuðu til málstofu um fjárfestingar á Hilton Nordica á fimmtudag. Málstofan var vel sótt af fjölbreyttum hópi fjárfesta, enda er Storebrand stærsta eignastýringafélag Noregs að frátöldum sjálfum norska olíusjóðnum. Storebrand hefur lagt áherslu á samfélagslega ábyrgar fjárfestingar (e. ESG- Environmental, Social, Governance) frá miðjum tíunda áratugnum, áhersla sem þeir Olav Chen og Spiros Alan Stathacopolous segja að hafi verið framúrstefnuleg á sínum tíma en sé nú að bera ríkan ávöxt.

Blikur á lofti

Á málstofunni var framtíðin fyrirferðamikil, hvernig efnahagskerfi heimsins muni koma til að þróast á næstu misserum og hvernig fjárfestar geta ávaxtað pund sitt við þessar aðstæður sem uppi eru. Olav Chen, fékk það vandasama verk á málstofunni að greina horfurnar, segir að næstu mánuðir muni áfram einkennast af óvissu.

Ekki aðeins þegar kemur að framvindu stríðsins í Úkraínu heldur einnig hvernig seðlabönkum og ríkisstjórnum heimsins muni takast að ráða niðurlögum verðbólgunnar sem þjaka mörg hagkerfi, eins og það íslenska. Opnun kínverska hagkerfisins eftir harðar veirutakmarkanir sé jafnframt líkleg til að setja þrýsting á eftirspurnarhliðina, sem kunni m.a. að birtast í auknum fjölda kínverskra ferðamanna á Íslandi. Ekki bæti úr skák að alþjóðavæðingin sé víða á undanhaldi, með ríkari kröfu um að framleiðsla sé flutt „aftur heim.“ Þessu muni fylgja minni sérhæfing einstakra hagkerfa sem kunni að leiða til kostnaðarauka og um leið aukinnar verðbólgu.

Fjárfestar þurfa að vera vakandi fyrir þessari þróun

Olav segir ekki óvarlegt að áætla að mörg af hinum þróaðri hagkerfum heimsins, sem horfi mörg hver jafnframt upp á skort á vinnuafli, muni þurfi að kljást við kreppu í náinni framtíð, jafnvel í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Fjárfestar þurfi að vera vakandi fyrir þessari þróun og láta fjárfestingar sínar taka mið af henni. Í þessum efnum hafi samfélagslega ábyrgar fjárfestingar sannað gildi sitt.

Ábyrgar og sífellt arðbærari

Spiros Alan Stathacopolous, sem alltaf er kallaður Alan, segir að þegar Storebrand hafi gert samfélagslega ábyrgð að leiðarstefi í starfsemi sinni á tíunda áratugnum hafi áhuginn annarra verið lítill sem enginn. Þau hafi þurft að verja töluverðum kröftum í að sannfæra viðskiptavini sína um gildi og kosti sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Þau hjá Storebrand sjái hins vegar ekki eftir þessari stefnumörkun enda hafi hún markað þeim eftirtektarverðu samkeppnisforskot í dag, nú þegar öldin sé önnur.

Flestir stærstu stofnanafjárfestarnir og eignastýringafélögin segjast í dag vera, eða í það minnsta stefna að því að vera, samfélagslega ábyrg og sjálfbær. Það sé jákvæð þróun að sögn Alan, þetta séu ekki bara einhver tískuorð eða grænþvottur. Slíkar fjárfestingar hafi reynst ábatasamar til framtíðar og það sem meira er, teikn eru á lofti um að þær eigi eftir að verða enn arðbærari.

Ekki aðeins séu viðskiptavinir farnir að gera sífellt ríkari kröfur um að peningum þeirra sé varið í slík málefni, þróun sem Alan segir að hafi fyrst náð alvöru flugi eftir samþykkt Parísarsamkomulagsins árið 2015, heldur muni regluverk heimshagkerfisins þróast sífellt hraðar í ábyrgari og sjálfbærari átt. Sífellt fleiri stjórnvöld séu nú í óðaönn að innleiða hvers kyns hvata og hömlur til að þrýsta fjárfestingum á þessar brautir – og þar sé Evrópusambandið í fararbroddi. Olav segir að núna sé því hárrétti tíminn fyrir fjárfesta til að huga að alvöru að ábyrgum og sjálfbærum fjárfestingum, ellegar eiga á hættu að heltast úr lestinni og missa af ábatasömum tækifærum.

Aðspurður hvort þessi þróun sé ekki bara einhver tískubylgja sem ríði yfir, bóla sem eigi eftir að springa, segist Olav ekki telja svo vera. Storebrand hafi séð margar tískubylgjur ríða yfir á undanförnum áratugum en það sem gerir þessa „bylgju“ frábrugðna öðrum er að hún hvílir á stoðum opinbers regluverks, stoðum sem virðast bara ætla að styrkjast á komandi árum.

Það sé þannig óhætt að áætla að fjárfestingar í endurnýjanlegum orkugjöfum séu líklegri til árangurs en að veðja á kolaframleiðslu á þessum tímapunkti.