Ljóst er af nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar til og með 2. fjórðungs þessa árs að aðlögun hagkerfisins eftir þensluskeið hefur verið allmikil það sem af er ári. Hagstofan áætlar að verg landsframleiðsla (VLF) hafi skroppið saman um 0,3% að raungildi frá sama tíma í fyrra. Skýrist samdrátturinn bæði af umskiptum í utanríkisviðskiptum sem og samdrætti í einkaneyslu. Samdrátturinn kemur í kjölfar 3,5% samdráttar á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar.
Samdráttur í hagkerfinu á fyrri árshelmingi
Hagkerfið skrapp saman um tæp 2% að raungildi á fyrri helmingi þessa árs. Óhagstæð þróun utanríkisviðskipta og samdráttur í einkaneyslu vógu þar þyngra en vöxtur fjárfestingar og samneyslu. Horfur eru á að hagvöxtur í ár verði lítill sem enginn og árið 2024 reynist aðlögunarár í íslenskum efnahag eftir þensluskeið.
Gefur á útflutningsbátinn
Utanríkisviðskipti hafa verið leiðandi í hagsveiflu síðustu fimmtán ára eða svo, einkum og sér í lagi vegna tilkomu ferðaþjónustunnar sem meginstoðar undir útflutningstekjur þjóðarbúsins. Eins og myndin sýnir hefur slegið talsvert í bakseglin á útflutningshliðinni eftir myndarlegan vöxt síðustu ár í kjölfar þess að faraldurinn fór að slaka á klónni. Þannig skrapp þjónustuinnflutningur saman um ríflega 10% á öðrum fjórðungi ársins. Er það í fyrsta sinn frá því snemma í faraldrinum sem samdráttur mælist milli ára í slíkum útflutningi. Við fjölluðum nýlega um þróun þjónustujafnaðar og ríma tölurnar nú allvel við samdrátt í tekjum ferðaþjónustunnar á öðrum fjórðungi, 6% fækkun brottfara um Keflavíkurflugvöll og nærri 10% fækkun skráðra gistinátta á tímabilinu.
Auk heldur jókst vöruskiptahalli á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra. Var vöru- og þjónustujöfnuður neikvæður um rúmlega 22 ma.kr. á öðrum fjórðungi ársins en jöfnuðurinn hafði verið jákvæður á sama tíma í fyrra. Áhrif utanríkisviðskipta á VLF voru því neikvæð um 3% á fjórðungnum.
Seigla í fjármunamyndun
Seigla hefur verið í fjármunamyndun síðustu misserin þrátt fyrir hækkandi vexti og þar varð engin breyting á í þessum nýju tölum Hagstofunnar. Á öðrum fjórðungi jókst fjármunamyndun um 4,6% á heildina litið þar sem ríflega 7% vöxtur fjárfestingar atvinnuvega og rúmlega 3% vöxtur í íbúðafjárfestingu vó upp ríflega 4% samdrátt í fjárfestingu opinberra aðila.
Miklar sveiflur geta verið milli fjórðunga í fjárfestingartölum Hagstofunnar og því er gagnlegra að líta þar á fyrri helming ársins í heild. Á þann kvarða jókst fjármunamyndun um 4% frá fyrri helmingi síðasta árs. Ríflega 5% aukning í fjárfestingu atvinnuvega var þar þung á metum sem og nærri 7% vöxtur í íbúðafjárfestingu. Á móti skrapp fjárfesting ríkis og sveitarfélaga saman um tæplega 5%.
Auk þess er vert að halda því til haga að tölur Hagstofunnar um fjármunamyndun eru oft endurskoðaðar nokkuð hressilega, oftast til hækkunar, þegar frá líður. Til að mynda telurtil stofnunin nú að fjármunamyndun hafi vaxið um 1,6% í fyrra en fyrri tölur hljóðuðu upp á 0,6% samdrátt árið 2023.
Neytendur rifa seglin
Vísbendingar um þróun einkaneyslu hafa verið nokkuð sitt á hvað undanfarna mánuði. Krappur samdráttur í kaupum heimila á nýjum bílum, fækkun brottfara Íslendinga um Keflavíkurflugvöll og aukin svartsýni samkvæmt væntingavísitölu Gallup leggjast þar á vogarskál samdráttar á meðan kortavelta íslenskra heimila bendir til seiglu í neyslunni og hægt vaxandi kaupmáttur launa ætti að halda nokkrum þrótti í neyslutaktinum.
Samkvæmt hinum nýbirtu tölum skrapp einkaneysla saman um 0,9% á 2. ársfjórðungi. Hagstofan bendir á að mikill samdráttur í bifreiðakaupum og annarri neyslu á varanlegum neysluvörum vegi þar þyngst en auk þess hafi dregið úr kaupum heimilanna á þjónustu. Þá dróst einkaneysla landsmanna á erlendri grundu saman um 3% að raungildi á meðan innlend neysla að framangreindum liðum frátöldum jókst. Þessi sundurliðun Hagstofunnar virðist því skýra nokkuð vel þann mismunandi takt sem við höfum undanfarið séð í neyslutengdum hagvísum.
Aðlögunarárið 2024
Sem fyrr segir var samdráttur í landsframleiðslu fyrri helming ársins. Samdrátturinn nam samtals 1,9% á tímabilinu og skýrist hann alfarið af neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta þar sem þjóðarútgjöld, sem endurspegla neyslu og fjárfestingu að teknu tilliti til birgðabreytinga, stóðu í stað á tímabilinu.
Þess má geta að landsframleiðslutölurnar nú eru talsvert undir þeim vexti sem Seðlabankinn taldi í kortunum fyrir annan fjórðung í nýlega birtum Peningamálum, en þar spáði bankinn 2% hagvexti á fjórðungnum. Má því segja að peningastefnunefnd bankans hafi farið með heldur bjartara mat á stöðu hagkerfisins inn í vaxtaákvörðun síðustu viku en nýjar tölur Hagstofu gefa til kynna.
Í Peningamálum var því spáð að hagvöxtur í ár yrði 0,5% og var spáin lækkuð um 0,6% frá fyrri spá sem birtist í maí. Í maí birtum við einnig þjóðhagsspá þar sem gert var ráð fyrir 0,9% hagvexti í ár. Að því gefnu að tölur fyrri árshelmings verði ekki endurskoðaðar töluvert upp á við (sem er alls ekki útilokað) lítur út fyrir að bæði við og Seðlabankinn höfum verið of bjartsýn á vordögum og að hagvöxtur ársins verði lítill sem enginn. Þar má einnig nefna að nýjustu hagvísar og framsýnar vísbendingar á borð við leiðandi hagvísi Analytica og væntingakannanir benda til þess að áfram verði pakkað í vörn frekar en blásið til sóknar hvað varðar neyslu- og fjárfestingu heimila og fyrirtækja á sama tíma og ekki lítur út fyrir umtalsverðan vöxt hjá ferðaþjónustunni né heldur í helstu vöruútflutningsgreinum þetta árið.