Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Rekstur Íslandsbanka áfram kolefnishlutlaus

Mikilvægum áfanga náð í því markmiði að styðja við loftslagsaðgerðir og vera hreyfiafl til góðra verka.


Íslandsbanki hefur náð því markmiði að rekstur bankans er nú kolefnishlutlaus þriðja árið í röð. Á liðnum árum hafa stjórnendur og starfsmenn bankans lagt áherslu á að ganga fram með góðu fordæmi í samræmi við stefnu bankans um að vera hreyfiafl til góðra verka. Þannig hefur bankinn sett sér metnaðarfull markmið um mælingu útblásturs, minnkun á kolefnisspori og aðrar mótvægisaðgerðir. Með þeim markmiðum leggur bankinn sitt af mörkum hvað varðar þá hugarfarsbreytingu sem nauðsynleg er til þess að styðja við loftlagsaðgerðir.

Eins og gefur að skilja er bankarekstur, þ.e. rekstur á skrifstofum og útibúum, í sjálfu sér ekki orkufrekur iðnaður. Íslandsbanki er þó stór vinnustaður og með starfsemi víða um land og það eru ýmsir þættir í starfsemi bankans sem huga þarf að í þeim tilgangi að gera rekstur hans kolefnishlutlausan með öllu.

Kolefnisspor af rekstri Íslandsbanka hefur verið metið og birt frá árinu 2017 samkvæmt aðferðarfræði Greenhouse Gas Protocol. Frá þeim tíma hefur bankinn með meðvituðum hætti gripið til ýmissa ráða til að minnka kolefnisspor af rekstri varanlega. Þannig má sem dæmi nefna endurnýjun á bílaflota bankans með auknu hlutfalli rafmagnsbifreiða sem hefur minnkað eldsneytiskaup bankans um rúmlega 30%. Þá nýta starfsmenn í auknari mæli umhverfisvænni samgöngumáta og hafa val um starfa heima við hluta vikunnar, sem aftur leiðir til minni losunar vegna ferða til og frá vinnu, en auk þess hefur ferðalögum til og frá landinu fækkað og að miklu leyti varanlega. Endurvinnsluhlutfall hefur aukist úr 59% í 70% og samhliða því hefur losun á sorpi minnkað um tæplega 40%, pappírsnotkun hefur minnkað um 30%, mötuneyti bankans hefur hlotið Svansvottun og aðrir þættir í innkaupum, rafmagnsnotkun og öðrum sambærilegum þáttum hafa varanleg áhrif á minnkandi kolefnisspor bankans.

Íslandsbanki leggur áherslu á fjölbreytt verkefni til þess að jafna kolefnisfótspor starfseminnar að fullu og frá árinu 2019 hefur bankinn tryggt að starfsemi hans sé kolefnisjöfnuð með mótvægisaðgerðum sem jafna fyrir þann hluta sem ekki hefur verið unnt að minnka. Íslandsbanki kolefnisjafnaði rekstur bankans að fullu með kaupum á 750 vottuðum kolefnisjöfnunareiningum (Certified Emission Reduction units) í gegnum verkefni Sameinuðu þjóðanna, United Nations Carbon offset platform.

Því til viðbótar studdi Íslandsbanki tvö mikilvæg verkefni innanlands á árinu, Carbfix og Votlendissjóðinn. Carbfix hefur vakið athygli á heimsvísu fyrir einstaka náttúrulega aðferð til þess að fanga og breyta koltvísýringi í stein. Meginmarkmið Votlendissjóðsins er að endurheimta votlendi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, ásamt því að styðja við endurheimt lífríkis, fuglalíf og vatnsbúskap í veiðiám. Þar sem hvorugt þessara verkefna hafa hlotið alþjóðlega vottun eru framlög til þeirra ekki talin með sem formleg kolefnisjöfnun rekstrar bankans á árinu 2021.

Íslandsbanki stefnir að fullu kolefnishlutleysi árið 2040, þ.e. að bæði rekstur bankans, sem nú þegar er kolefnishlutlaus, sem og fjármagnaður útblástur í lána- og eignasafni bankans verði kolefnishlutlaus. Þær mælingar liggja fyrir eins og kynnt var nýlega sem gerir markmiðin skýrari sem og þau verkefni sem þeim fylgja.

Nánari upplýsingar má nálgast í árs- og sjálfbærni skýrslu bankans.