Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Raunávöxtun lífeyrissjóða líklega rýr í ár

Eignir íslenskra lífeyrissjóða hafa vaxið um 4% frá áramótum og námu 166% af VLF í septemberlok. Sjóðirnir eru beinir eða óbeinir lánardrottnar 2/3 íbúðaskulda heimilanna og hafa verðtryggð íbúðalán þeirra sótt í sig veðrið upp á síðkastið. Útlit er fyrir neikvæða raunávöxtun sjóðanna annað árið í röð þótt væntanlega verði útkoman talsvert skárri en á síðasta ári.


Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða voru 6.886 ma.kr. í lok september samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans. Svarar það til 166% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins og standa aðeins Danir og Hollendingar okkur á sporði hvað varðar hlutfall heildareigna af VLF.  Frá áramótum jukust eignir sjóðanna um 256 ma.kr. en drjúgur hluti af þeirri aukningu skýrist af því að iðgjöld sjóðfélaga eru enn töluvert umfram lífeyrisgreiðslur og rekstrarkostnað sjóðanna.

Innlendar eignir námu 4.394 ma.kr. en erlendar eignir voru 2.492 ma.kr. í septemberlok. Síðarnefndi eignaflokkurinn var því ríflega 36% af heildareignum lífeyrissjóða og hefur það hlutfall aðeins einu sinni verið hærra svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná. Hækkandi hlutfall erlendu eignanna helst nokkuð í hendur við gjaldeyriskaup sjóðanna en á fyrstu 8 mánuðum ársins námu hrein gjaldeyriskaup þeirra 68 ma.kr. samkvæmt tölum Seðlabankans.

Lífeyrissjóðir leggja til 2/3 fjármögnunar á íbúðalánum

Íslenskir lífeyrissjóðir eru umsvifamiklir í fjármögnun á íbúðarhúsnæði landsmanna. Í septemberlok námu bein útlán sjóðanna til sjóðfélaga alls 609 ma.kr. og námu hrein ný útlán til sjóðfélaga tæpum 50 ma.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Ríflega 60% þessara lána voru verðtryggð en tæplega 40% óverðtryggð.

Eins og sést af myndinni hefur hlutfall óverðtryggðra lána til sjóðfélaga vaxið jafnt og þétt frá ársbyrjun 2016 þótt enn hafi verðtryggðu lánin vinninginn. Allra síðustu mánuði hefur hins vegar dregið úr lántökum heimila á óverðtryggðum kjörum hjá sjóðunum. Á þriðja fjórðungi ársins námu hrein ný óverðtryggð útlán þannig 5,5 ma.kr. en hrein verðtryggð útlán voru 12,4 ma.kr. á sama tíma. Er það mikill viðsnúningur frá síðasta ári þar sem uppgreiðslur verðtryggðra lána voru 18 ma.kr. meiri en sem nam nýjum verðtryggðum útlánum.

Lífeyrissjóðir fjármagna hins vegar íbúðakaup í enn meiri mæli með óbeinum hætti en með beinum lánveitingum. Sjóðirnir hafa löngum verið stærstu eigendur skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og forvera hans. Auk þess hafa þeir keypt umtalsverðan hluta af sértryggðum skuldabréfaútgáfum viðskiptabanka sem ætlað er að fjármagna íbúðalán bankanna. Alls nema útlán og skuldabréfaeign sjóðanna í framangreindum tegundum skuldabréfa ríflega 1.603 ma.kr. miðað við nýjustu tölur en til samanburðar voru heildarskuldir íslenskra heimila með veði í íbúðarhúsnæði 2.498 ma.kr. um mitt þetta ár. Sjóðirnir eru því í raun endanlegir lánardrottnar á nærri 2/3 íbúðaskulda heimila á Íslandi.

Óvissa um afskriftir á skuldabréfum íbúðalánasjóðs

Reyndar ber að halda því til haga að talsverð óvissa er um endanlegar heimtur sjóðanna á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið  fer með yfirstjórn ÍL-sjóðs sem til varð þegar regluleg starfsemi Íbúðalánasjóðs lagðist af. Eigið fé ÍL-sjóðs var neikvætt um 244 ma.kr. um mitt þetta ár en um tildrög þess má lesa hér. Ráðuneytið hefur leitast við að semja um uppgjör eigna og skulda sjóðsins, nokkuð sem óhjákvæmilega myndi fela í sér afskriftir á hluta eignar lífeyrissjóðanna í skuldabréfum útgefnum af Íbúðalánasjóði.

Sjóðirnir eru stærstu eigendur slíkra bréfa og nam bókfærð eign þeirra í svokölluðum HFF-bréfum 609 ma.kr. í septemberlok sem svarar til tæplega 9% af heildareignum þeirra. Lífeyrissjóðirnir hafa hafnað því að semja um niðurfærslu á virði þessara bréfa. Í október birti ráðuneytið drög að frumvarpi um slit ógjaldfærra opinberra aðila sem gera myndi því leyft að láta taka sjóðinn til gjaldþrotaskipta. Talsvert vatn virðist því munu renna til sjávar áður en ljóst verður hvort, og þá hversu mikið, uppgjör ÍL-Sjóðs hefur neikvæð áhrif á eignastöðu sjóðanna og getu til að standa undir núverandi skuldbindingum.

Veðrabrigði á verðbréfamörkuðum

Yfirvofandi afskriftir HFF-bréfa eru þó ekki eina spjótið sem stendur á lífeyrissjóðunum þessa dagana. Verðbréfamarkaðir innanlands sem utan hafa verið þeim heldur mótdrægir undanfarin misseri. Það sem af er þessu ári eru það þó fyrst og fremst innlendir markaðir sem hafa reynst sjóðunum erfiðir. Þannig lækkaði til að mynda OMXPI hlutabréfavísitalan íslenska um 12% á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs en alþjóðlega MSCI World Index hlutabréfavísitalan hækkaði hins vegar um tæp 10% á sama tímabili.

Þá hefur verð íslenskra skuldabréfa einnig gefið talsvert eftir frá ársbyrjun. Áhrif þeirrar þróunar á eignastöðu sjóðanna eru þó óljósari þar sem drjúgur hluti skuldabréfaeignar þeirra er bókfærður á upprunalegri kaupkröfu fremur en uppfærðu markaðsverði (e. mark-to-market). Skammtímasveiflur á skuldabréfamarkaði hafa því minni áhrif á bókfærðar eignir sem því nemur enda hyggjast sjóðirnir væntanlega halda bróðurparti þessara bréfa fram til lokagjalddaga.

Þetta ár líklega illskárra en árið 2022

Árið 2022 var versta ár lífeyrissjóðanna frá fjármálakreppunni 2008 hvað ávöxtun varðar. Samkvæmt gögnum á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða  var hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða að jafnaði neikvæð um 11,6% á síðasta ári. Árin þar á undan hafði raunávöxtunin hins vegar verið með ágætum og raunar var meðal raunávöxtun sjóðanna 4,6% árin 2013-2022 og þar með rúmlega prósentu yfir 3,5% tryggingafræðilegu viðmiði þeirra.

Ekki eru enn öll kurl komin til grafar hvað eignaþróun á árinu 2023 varðar. Á fyrstu 9 mánuðum ársins jukust eignir sjóðanna alls um tæp 4% í krónum talið. Vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkaði hins vegar um 6,5% á sama tímabili. Þegar tekið er tillit til þess að hreint innflæði vegna iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði var umtalsvert á tímabilinu telst okkur til að raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hafi líklega verið neikvæð á bilinu 3,5 – 4,0% á þessu tímabili.

Það er vissulega talsvert skárri þróun en á síðasta ári. Ef ekki verður viðsnúningur á innlendum markaði fyrir árslok mun tryggingafræðileg staða sjóðanna þó líklega rýrna allnokkuð að jafnaði í ár og gætu þeir því sumir hverjir orðið að grípa til einhverra skerðinga á lífeyrisréttindum til að rétta stöðuna af. Öll él birtir þó upp um síðir og með hagfelldari þróun á mörkuðum eru góðar líkur á að hagur lífeyrissjóðanna, og þar með væntanlegra og núverandi lífeyrisþega, muni vænkast á nýjan leik á komandi árum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband