Varað er við tilraunum vefveiða. Sem fyrr er mikilvægt að vera á varðbergi þegar óskað er eftir kortaupplýsingum á vefnum. Í tilkynningu frá Póstinum segir:
Pósturinn vill aftur vara við því að óprúttnir aðilar eru að senda tölvupósta í nafni Póstsins í þeim tilgangi að komast yfir kortaupplýsingar.
Þetta hefur verið algengt síðasta árið og ekkert lát virðist vera á þessu. Pósturinn vill árétta að það er mikilvægt að smella ekki á hlekki sem fylgja þessum póstum og alls ekki ætti að gefa upp persónulega upplýsingar eða kortanúmer.
Mikilvægt er að fullvissa sig um að sending sé raunveruleg. Sendingarnúmer Póstinum eru 13 stafir, þar af tveir bókstafir fremst og tveir aftast með talnarunu á milli en margir svindlpóstar innihalda einmitt slík númer þannig það er enn mikilvægara að skoða vel. Til að fullvissa sig um að sending sé í kerfi Póstsins er hægt að fara á heimasíðu fyrirtækisins, smella á „Finna sendingu“ og leita þar að sendingarnúmeri eða skrá sig inn á Minn póst.
Fáir þú óvænt tilkynningu um tilraun til að skrá kortið þitt án þinnar vitundar, skaltu þegar í stað hafa samband við viðskiptabankann þinn.
- Íslandsbanki í síma 440-4000 eða í netspjalli
- Landsbankinn í síma 410-4000 eða í netspjalli á vef bankans
- Arion banki í síma 444-7000 eða í netspjalli á vef bankans
Sé um að ræða tilkynningu eftir lokunartíma bankanna skal hringja í neyðarnúmer greiðslumiðlunarfyrirtækja:
- Valitor – s. 525-2200
- Borgun – s. 533-1400
Jafnframt er bent á að tilkynna slík svik til lögreglunnar á netfangið cybercrime@lrh.is.
Nánari upplýsingar um vefveiðar og netöryggi má finna á upplýsingasíðu okkar.