Í nýlega birtri fundargerð frá fundum peningastefnunefndar fyrir vaxtaákvörðun í mars kemur fram að ekki var einhugur meðal nefndarmeðlima um ákvörðunina. Líkt og í febrúar var Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á annarri skoðun en aðrir meðlimir peningastefnunefndar og vildi lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Hinir fjórir nefndarmeðlimirnir kusu með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um óbreytta vexti.
Peningastefnunefnd: Ekki einhugur um óbreytta stýrivexti
Einn af fimm meðlimum peningastefnunefndar vildi lækka stýrivexti í mars líkt og í febrúar. Komandi vikur gætu orðið viðburðaríkar og ráðið úrslitum um hvort vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefst í maí. Vaxandi líkur eru þó á því að stýrivextir verði óbreyttir að minnsta kosti fram undir sumarlok.
Eins og sjá má af töflunni hafa skoðanir oftast verið skiptar meðal nefndarinnar við undanfarnar sex vaxtaákvarðanir. Aðeins í nóvember síðastliðnum voru allir nefndarmenn sammála um ákvörðunina en þá trompaði nýtilkomin rýming Grindavíkur og óvissa um framhald jarðhræringa á Reykjanesi aðra áhrifaþætti.
Helstu rök nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum í mars voru þessi:
- Verðbólga væri enn mikil og verðbólguvæntingar háar.
- Þótt hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar undanfarið væru vísbendingar um að nokkur kraftur væri enn fyrir hendi.
- Ráðningaráform fyrirtækja hefðu aukist á ný, hlutfall fyrirtækja sem búa við skort á starfsfólki væri enn hátt, spenna á vinnumarkaði væri því áfram nokkur og atvinnuleysi lítið.
- Umsvif á húsnæðismarkaði væru enn mikil og íbúðaverð hefði hækkað undanfarið.
- Nokkrar líkur væru á að hagvöxtur í fyrra væri vanmetinn í nýbirtum tölum miðað við töluverða endurskoðun fyrri talna og því þyrfti að túlka nýjustu tölur varlega.
- Þótt það væri jákvætt að langtímakjarasamningur hefði verið undirritaður þá væri nokkur hætta á að fyrirtæki fleyttu launahækkunum að miklu leyti út í verðlag líkt og gerðist í byrjun síðasta árs.
- Það ætti eftir að koma í ljós hvernig aðgerðir í ríkisfjármálum yrðu fjármagnaðar, hver áhrif þeirra á eftirspurn yrðu og hvort útlit væri fyrir að aðhald í ríkisfjármálum myndi minnka.
- Enn væri þörf á að hafa háa raunvexti svo að verðbólga yrði ekki þrálát um langt skeið.
- Áhættan af því að taumhald peningastefnunnar væri of laust til að ná verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma væri enn meiri en hættan af því að taumhaldið sé of þétt.
Rök Gunnars Jakobssonar fyrir lækkun vaxta:
- Staðan væri að mestu leyti svipuð og á síðasta fundi en að óvissan hefði minnkað vegna undirskriftar stefnumarkandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
- Raunvextir hefðu áfram hækkað hratt og þrengt frekar að heimilum og atvinnulífi.
- Áhrif fyrri vaxtahækkana ættu eftir að koma fram.
- Í ljósi stöðunnar og þeirra gagna sem lægju fyrir nefndinni væri rétt að hefja vaxtalækkunarferlið í smáum skrefum.
Athygli vekur sú skoðun meirihluta nefndarinnar, sem fram kemur í fundargerðinni, að:
„Skýrar vísbendingar þyrftu að koma fram um að verðbólga væri augljóslega á niðurleið til að hægt væri að lækka vexti og mikilvægt að vaxtalækkun hæfist á trúverðugum tímapunkti.“
Það er vissulega hægt að túlka þessa setningu með ýmsum hætti. Til að mynda er verðbólga (6,8% í mars) nú þriðjungi minni en hún varð hæst fyrir ári síðan og mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu hafa sömuleiðis þróast til betri vegar á tímabilinu. Hins vegar hefur hjöðnun hennar steytt á steini í bili eftir talsverða hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar og mars. Trúlega eru nefndarmenn fremur að horfa til þróunar allra síðustu mánaða í þessu samhengi sem og hvernig þróun næstu mánaða muni verða.
Hvað hefur gerst frá síðustu vaxtaákvörðun?
Þótt skammt sé um liðið frá vaxtaákvörðuninni og páskafrí hafi sett svip sinn á markaði og birtingu hagtalna hefur þó eitt og annað borið til tíðinda síðustu vikur:
- Verðbólgutölur í mars voru yfir væntingum, VNV hækkaði um 0,8% milli mánaða og verðbólga mælist nú 6,8%.
- Talsverð hækkun íbúðaverðs litaði VNV mælingu marsmánaðar og áhrif af eftirspurn frá Grindvíkingum á fasteignamarkaði virðast allnokkur.
- Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur hækkað og verðbólguálag til skemmri tíma aukist.
- Nýjar tölur frá Bílgreinasambandinu sýna áframhaldandi snarpan samdrátt í nýskráningu bifreiða, jafnt til einstaklinga sem fyrirtækja. Það gefur vísbendingu bæði um þróun einkaneyslu sem og fjárfestingu bílaleiga fyrir komandi háönn ferðaþjónustunnar.
- Seðlabankinn tilkynnti í morgun um hækkun fastrar bindiskyldu á bankana úr 2% í 3% af bindigrunni. Það ætti að öðru jöfnu að auka heldur peningalegt aðhald þegar fram í sækir.
Hvað gæti gerst fram að næstu vaxtaákvörðun?
Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er eftir rúman mánuð, þann 8. maí næstkomandi. Þróunin á komandi vikum mun væntanlega ráða úrslitum um hvort vaxtalækkunarferli verður ýtt úr vör þá. Meðal þess helsta sem við horfum til í þeim efnum:
- Verðbólgumæling aprílmánaðar gæti ráðið úrslitum. Með hliðsjón af ofangreindri skoðun meirihluta nefndarinnar þyrfti líklega hagfellda aprílmælingu og talsverða hjöðnun 12m verðbólgu í apríl til þess að meirihlutinn skipti um skoðun í maí. Í apríl 2023 hækkaði VNV um 1,3% milli mánaða. Bráðabirgðaspá okkar fyrir apríl hljóðar upp á 0,6% mánaðarhækkun sem myndi lækka 12 mánaða takt verðbólgunnar í 6,1%. Hvort það dugar til að meirihluti nefndarinnar skipti um skoðun í maí veltur á því hvort aðrir mælikvarðar á undirliggjandi og vænta verðbólgu þróast með svipuðum hætti og eins hvernig aðrir þættir hér að neðan þróast.
- Kjarasamningar gætu verið í höfn hjá flestum þeirra sem enn er ósamið við fyrir vaxtaákvörðunina í maí. Niðurstaða úr þeim í línu við þegar gerða samninga eykur líkur á vaxtalækkun.
- Fjármálaáætlun verður lögð fram á komandi vikum. Þar skiptir miklu máli hvort, og hvernig, brugðist er við útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna Grindavíkur og kjarasamninga svo aðhald ríkisfjármála á komandi misserum minnki ekki frá fyrri áætlunum og fjárlögum.
- Línur skýrast um ferðasumarið 2024. Stórir erlendir aðilar ganga margir hverjir frá endanlegum pöntunum sínum á gistingu, afþreyingu o.þ.h. í aprílmánuði og þá ætti að skýrast hvort áhyggjur af dvínandi eftirspurn eftir Íslandsferðum reynast á rökum reistar.
Bráðabirgðaspá okkar frá því eftir síðustu vaxtaákvörðun hljóðar upp á hægfara vaxtalækkunarferli sem hefjist í maí. Það verður þó að segjast að fundargerðin nýbirta eykur að okkar mati líkur á því að vaxtalækkun hefjist síðar á árinu. Langt hlé er á milli næstu vaxtaákvörðunar í maíbyrjun og þeirrar þarnæstu, sem er fyrirhuguð 21. ágúst. Það virðast því vera vaxandi líkur á því að landsmenn þurfi að þreyja þorrann að minnsta kosti fram í sumarlok við óbreytta stýrivexti.