Greinin birtist fyrst á Vísi
Evrópumótið í fótbolta er að því leyti frábrugðið stórmótum undanfarinna ára að gríðarlegar fjárhagslegar byrðar eru ekki lagðar á gestgjafana með ströngum kröfum hvað leikvanga varðar. Kostnaður vegna leikvanga síðasta stórmóts karla, HM í Rússlandi, var um 150% umfram áætlanir og þurfti rússneska ríkið að grípa inn í með afgerandi hætti til að allt gengi upp. Með því að halda mótið víðsvegar um álfuna má hins vegar nýta þá glæsilegu velli sem þegar eru til staðar og er það hið besta mál. Við getum rétt ímyndað okkur hversu erfitt hefði verið fyrir eitt land að hýsa EM þetta árið. Áhyggjur af lítilli stemningu vegna fjarlægðar milli leikstaða eru auk þess ástæðulausar þar sem lítið er um áhorfendur vegna fjöldatakmarkana.
Ekki verður leikið í Dublin, Brussel og Bilbao eins og til stóð en þeir 11 leikvangar sem leikið verður á eru af öllum stærðum og gerðum, jafnt splúnkunýir sem börn síns tíma. Þegar litið er til kostnaðar við byggingu vallanna og síðustu umtalsverðu endurbóta er breiddin einnig mikil. Wembley er þeirra langdýrastur en svo virðist sem Parken í Danmörku sé ódýrastur.