Þetta er ein stærðarinnar neysluveisla. Hvort eitthvað sannleikskorn sé í þeirri fullyrðingu að leikurinn um Ofurskálina (Super Bowl) sé stærsti sjónvarpsviðburður ársins veit ég ekki en hann er sannarlega merkilegur fyrir margra hluta sakir.
Rándýrir miðar
Ólíklegt er að áhugasömum Íslendingum takist að krækja í miða á leikinn í fyrstu atrennu. Eftirmarkaðurinn er þó virkur en verðið slíkt að kaupum myndi sennilega fylgja símtal frá seðlabankastjóra. 1,4 milljónir króna kosta slíkir miðar að meðaltali nú í ár og hafa þeir aðeins einu sinni verið dýrari, þegar Patriots báru sigurorð af Seahawks árið 2015. Ef markmiðið er að eyða sem mestu kosta bestu sætin þó 6,4 milljónir króna.