Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óvæntur afgangur af vöruskiptum

Afgangur af vöruskiptum sem varla hefur þekkst síðastliðin fimm ár gæti komið til með að leggja meira til viðskiptajafnaðar á næstu mánuðum.


Á síðastliðnum 61 mánuði hefur Ísland í einungis fjórum þeirra verið með afgang af vöruskiptum en það átti sér þó stað í maí síðastliðnum. Þó svo afgangur hafi verið í maí var nokkur halli á vöruskiptum Íslands á fyrsta þriðjungi ársins en hallinn er þó minni en á sama tíma fyrir ári. Það má því segja að tölur varðandi utanríkisviðskipti Íslendinga halda áfram að gefa vísbendingar um að halli vöruskipta sé á hröðu undanhaldi, í það minnsta þessi misserin.

Enn halli á fyrsta þriðjungi ársins

Hagstofan birti í gærmorgun bráðabirgðatölur fyrir vöruskipti í maí síðastliðnum. Afgangur af vöruskiptum Íslendinga í maí reyndist vera 1,8 ma.kr. og vöruskiptin voru þar með ríflega 4,6 mö.kr. hagstæðari en í sama mánuði árið áður. Ástæður þess má að mestu rekja til snarps samdráttar í innflutningi en þar að auki hefur gengisbreyting krónunnar mildað þann skell sem hefur orðið vegna samdráttar í magni útfluttra vara. Verðmæti bæði inn- og útfluttra vara dróst saman á milli ára þar sem á útflutningshliðinni munaði mest um minni útflutning sjávarafurða og iðnaðarvara, en innflutningsmegin vógu minni kaup á eldsneyti og smurolíum þyngst. Vöruinnflutningur (fob) nam alls rúmlega 51 ma.kr. í maímánuði en vöruútflutningur (fob) nam tæpum 53 mö.kr. í maí.

Þrátt fyrir afgang af vöruskiptum í maí er enn til staðar halli á vöruskiptum fyrir fyrsta þriðjung ársins. Hallinn á fyrstu fjórum mánuðum ársins nemur tæplega 18,6 mö.kr. samanborið við rúmlega 18,9 ma.kr. árinu áður. Þar verður þó að taka með í reikninginn að sala á flugvélum Wow-air í upphafi síðasta árs lagaði vöruskiptin um tæpa 20 ma.kr. frá því sem ella hefði orðið. Alls hafa verið fluttar út vörur fyrir um 250 ma.kr. og fluttar inn fyrir um 268 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Óhætt er að segja að afgangurinn í maí komi skemmtilega á óvart því óljóst var hvort myndi vega þyngra á metrunum fyrir vöruskiptajöfnuð, samdráttur innflutnings eða útflutnings.

Innflutningur dregst saman

Engum blöðum er um það fletta að hér hefur COVID-19 haft mikil áhrif á innflutning. Í maí dró úr öllum innflutningi frá síðasta ári nema flokki hrá- og rekstrarvara, en þegar á heildina er litið minnkaði innflutningur að virði tæplega 15 ma.kr. á milli ára eða um 22,6%. Það er ekki að því að spyrja að veiking krónunnar hefur einnig áhrif á innflutning en gengi krónunnar var að jafnaði 15,2% veikara en í maí árinu áður. Veiking krónunnar hefur þau áhrif að innfluttar vörur verða dýrari og þ.a.l. dregur úr kaupum á erlendum vörum.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd munar mestu um samdrátt á innflutningi eldsneytis og flutningatækja. Flugsamgöngur lágu niðri allan maímánuð og því var eldsneytisþörf flugfélaga sama og engin en einnig lækkaði verð á olíu gríðarlega í þeim mánuði. Verðmæti eldsneytis og smurolíu í innflutningi dróst saman um tæplega 6 ma.kr. eða u.þ.b. 64% á milli ára.

Vöruútflutningur

Eins og sést á meðfylgjandi mynd munar mestu um samdrátt á innflutningi eldsneytis og flutningatækja. Flugsamgöngur lágu niðri allan maímánuð og því var eldsneytisþörf flugfélaga sama og engin en einnig lækkaði verð á olíu gríðarlega í þeim mánuði. Verðmæti eldsneytis og smurolíu í innflutningi dróst saman um tæplega 6 ma.kr. eða u.þ.b. 64% á milli ára.

Líkt og fyrri daginn var útflutningsverðmæti að langstærstum hluta borið uppi af sjávarafurðum og iðnaðarvörum í maímánuði en heildarverðmæti þessa flokka samsvarar um 93% útflutningsverðmæta Íslands í maí 2020. Hlutfallslega vó samdrátturinn mest í útflutningi landbúnaðarvara eða um 22,9% (600 m.kr.). Í krónum talið dró hins vegar mest úr útflutningsverðmæti iðnaðarvara, þar sem ál fer ávallt fremst í flokki. Þar nam samdrátturinn milli ára rúmlega 5 mö.kr. (-16,4%). Útflutningsverðmæti sjávarafurða dróst saman um 15,5% (4,3 ma.kr.)

Framhaldið

Seðlabankinn hefur síðastliðna mánuði unnið gegn spíralmyndun í gengisbreytingum krónunnar. Að mestu hafa inngrip hans verið með þeim hætti að selja erlendan gjaldeyri fyrir krónur og hægja þar með á gengisveikingu. Veiking krónunnar hefur hingað til ekki leitt til þess að verðbólgan hafi tekið verulegt stökk en á sama tíma fá Íslendingar meiri tekjur fyrir útflutning í krónum talið. Ætla má að Seðlabankinn sé búinn að ávinna sér aukinn trúverðugleika með peningastefnu sinni sem aukið hefur líkur á að verðbólgumarkmið bankans haldi næstu misserin.

Vænta má að næstu mánuðir verði líkir maí þ.e. að innflutningur verði minni en þekkst hefur undanfarin ár á meðan útflutningur gæti aukist í krónum talið á sama tíma. Afgangur af vöruskiptum sem varla hefur þekkst síðastliðin fimm ár gæti komið til með að leggja meira til viðskiptajafnaðar á næstu mánuðum. Í öllu falli teljum við ljóst að hagstæðari vöruskipti muni vega að talsverðu leyti gegn áhrifunum af gríðarlegu tekjutapi ferðaþjónustunnar á viðskiptajöfnuð komandi fjórðunga.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Senda tölvupóst