Kaupmáttur launa rýrnaði um 0,3% í júlímánuði frá mánuðinum á undan. Undanfarna 12 mánuði hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 3,4% á sama tíma og verðbólga mælist 4,3%. Seigt er í vexti kaupmáttar þó svo verðbólga mælist með mesta móti. Þó hefur hægst nokkuð á vextinum frá því hann var 6,2% í febrúar síðastliðnum.
Þessar launabreytingar undanfarið ár má helst rekja til launahækkana um áramót sem voru samkvæmt kjarasamningum og náðu til meirihluta launafólks á vinnumarkaði. Auk þess telst stytting vinnuvikunnar sem ígildi launabreytinga og hefur því talsverð áhrif til hækkunar á vísitölunum.
Opinberir starfsmenn hækka mest í launum
Frekara niðurbrot á launavísitölunni nær einungis til maímánaðar. Sé launavísitalan skoðuð eftir helstu launþegahópum hafa starfsmenn sveitarfélaga hækkað mest í launum frá maí 2020 til síðastliðins maímánaðar eða um 14,5%. Þar á eftir hafa starfsmenn ríkisins hækkað um 10,7% og starfsmenn á almennum vinnumarkaði um 5,8%. Stór hluti af hækkun á launavísitölunni er því á opinbera markaðnum en í maí var árstaktur vísitölunnar 7,5%. Rétt er að hafa í huga að vinnutímastytting á opinbera markaðinum var á heildina litið meiri en í einkageiranum og áhrif hennar á launavísitölu að sama skapi sterkari.
Kaupmáttur launa eykst hjá lágtekjuhópum
Áhugavert er að skoða hvaða starfstéttir það eru á almenna vinnumarkaðnum sem hækkað hafa mest í launum. Á almenna vinnumarkaðnum hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega mest frá maí 2020 til maí 2021 eða um 8,4%. Næst mest hækkuðu laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks eða um 7,3%. Á sama tíma hækkuðu laun sérmenntaðs starfsfólks minnst eða um 3,9% og sérfræðinga næst minnst eða um 4,2%. Þar sem verðbólga mældist 4,3% í maímánuði hefur kaupmáttur launa síðarnefndu hópanna því staðið í stað eða rýrnað lítillega á heildina litið undanfarið ár á meðan kaupmáttur launa fyrrnefndu hópanna tveggja hefur að jafnaði aukist um 3-4% á sama tíma.