Framsýna leiðsögn nefndarinnar í nóvember var hlutlaus en þó var þar nokkuð skýrt gefið í skyn að ekki væri frekari vaxtalækkunar að vænta í bili að öðru óbreyttu:
Vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og eiga áhrif þess enn eftir að koma fram að fullu. Lækkun vaxta hefur stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta.
Miðið við ofangreind orð, það hversu skammur tími er liðinn frá síðustu vaxtaákvörðun og þá staðreynd að hagtölur undanfarið hafa verið í ágætu samræmi við nóvemberspá Seðlabankans teljum við að talsvert þyrfti til þess að peningastefnunefndinni snerist hugur og ákvæði að ráðast í frekari vaxtalækkun nú. Það liti einfaldlega örlítið sérkennilega út og myndi ekki hjálpa til við að styrkja gegnsæi og fyrirsjáanleika peningastefnunnar.
Við ályktum því að rökin sem færð eru fyrir óbreyttum vöxtum hér í töflunni muni vega þyngra en rökin fyrir vaxtalækkun að þessu sinni.
Hagvöxtur stefnir á núllið í ár
Þótt hagkerfið virðist ætla að koma betur undan fyrstu áhrifum af skelli á útflutningsgreinar á fyrsta fjórðungi ársins sýna hagtölur greinilega kólnun. Þjóðhagsreikningar Hagstofunnar fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins hljóða upp á 0,2% hagvöxt á tímabilinu. Þjóðarútgjöld skruppu hins vegar saman um 0,9% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra og vó 23% samdráttur atvinnuvegafjárfestingar þar langþyngst. Útflutningur dróst raunar einnig umtalsvert saman og nam samdrátturinn tæplega 7% á tímabilinu. Hins vegar var samdráttur innflutnings enn skarpari, eða nærri 10% og reið það baggamuninn um að ekki varð samdráttur í niðurstöðutölu þjóðhagsreikninganna.