Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir enn um sinn

Stýrivextir verða enn óbreyttir um sinn í 1,0%. Lakari efnahagshorfur og tímabundið aukinn verðbólguþrýstingur vegast á í mati peningastefnunefndar á skammtímahorfum. Líklegt er að vextir verði óbreyttir að minnsta kosti fram á mitt næsta ár.


Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 1,0%. Er það önnur ákvörðunin í röð þar sem vöxtum er haldið óbreyttum, en þeir voru síðast lækkaðir um 1 prósentu í maí síðastliðnum.

Í yfirlýsingu sinni bendir nefndin annars vegar á verri efnahagshorfur vegna aukinnar útbreiðslu COVID-19 undanfarið, en hins vegar á þróttmeiri hagvöxt á fyrri árshelmingi og heldur meiri verðbólgu undanfarið en útlit var fyrir við síðustu vaxtaákvörðun. Væntanlega vegast þessir þættir á um mat nefndarinnar á stöðu og horfum frá því hagspá Seðlabankans var birt í ágúst síðastliðnum.

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar er orðrétt sú sama og í ágústákvörðun peningastefnunefndar:

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga hefur gert peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans sem gripið var til á vormánuðum hafa stutt við innlenda eftirspurn. Áhrif þeirra eiga þó eftir að koma fram að fullu og munu þær áfram styðja við þjóðarbúskapinn og stuðla að því að efnahagsbatinn verði hraðari en ella.

Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Það bendir að okkar mati til þess að nefndin sé sátt við stöðuna í bili og muni líklega ekki hreyfa frekar við vaxtastiginu til skemmri tíma litið nema horfur breytist umtalsvert. Í því sambandi benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á það á kynningarfundi að áhrif af stýrivaxtalækkunum og fleiri aðgerðum væru enn að koma fram. Jafnvel komi áhrif þeirra ekki að fullu fram fyrr en hillir undir lok faraldursins, óvissa minnkar og fyrirtæki fara í auknum mæli að nýta lága vexti til fjárfestinga.

Árangursrík inngripastefna

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram í máli seðlabankastjóra að góð reynsla væri að þeirra mati af hinni breyttu inngripastefnu bankans á gjaldeyrismarkaði sem kynnt var fyrir mánuði síðan. Hún felst í því að bankinn selur daglega 3m. evra á millibankamarkaði auk þess að grípa inn í markaðinn með óreglulegum hætti ef þurfa þykir. Taldi Ásgeir að stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði hefði aukist eftir að nýja stefnan var tekin upp.

Þá vakti Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri athygli á því að stefnan væri í vissum skilningi tvíþætt: Alla jafna snerust inngrip Seðlabankans að mestu um að koma í veg fyrir spíralmyndun og dýpka markaðinn. Hins vegar væri brugðist við ef peningastefnunefndin teldi að krónan hefði vikið umtalsvert frá jafnvægi. Seðlabankastjóri nefndi í því sambandi að nefndin væri sammála um að sú staða væri uppi nú. Virtist Ásgeir að okkar mati nokkuð eindregið þeirrar skoðunar að krónan ætti inni styrkingu þegar frá liði, tekjur af þjónustuútflutningi glæddust að nýju og óvissa minnkaði. Vöruskiptahalli væri til dæmis að hverfa, enn mældist viðskiptaafgangur og gjaldeyrissala bankans næmi ekki tiltakanlega háum fjárhæðum í stóra samhenginu.

Fjármögnun fjárlagahalla erlendis frá eða úr Seðlabanka?

Aðspurður taldi seðlabankastjóri að útgáfa ríkisbréfa í erlendri mynt til þess að fjármagna halla ríkissjóðs að hluta gæti verið heppileg um þessar mundir. Kjör ríkissjóðs erlendis væru hagstæð og slík útgáfa gæti leitt til tímabundins innflæðis á gjaldeyrismarkaði þegar ríkissjóður skipti lánsfénu í krónur. Þá myndi hún draga úr fjármögnunarþörf innanlands.

Þá kom fram í máli bankastjóra að beðið væri eftir því af hálfu bankans að aukið framboð ríkisbréfa komi fram áður en ráðist yrði í stórtæk ríkisbréfakaup. Sem kunnugt er hefur bankinn lýst sig tilbúinn að kaupa slík bréf fyrir allt að 150 mö.kr. í því skyni að halda aftur af hækkun langtímavaxta samfara mikilli fjármögnunarþörf ríkissjóðs. Verkefnið sem ríkisfjármálin standa frammi fyrir er miklu lengra en COVID-faraldurinn að mati Ásgeirs. Bankinn er því þolinmóður og ekkert sem rekur á eftir honum með ríkisbréfakaupin. Það er að mati hans ekki óeðlilegt að krafan hækki eitthvað í ljósi verri horfa um ríkisfjármálin.

Einnig vildi seðlabankastjóri ekki gera of mikið úr því þótt verðbólga mældist nú heldur meiri en bankinn spáði í ágúst. Taldi hann það fyrst og fremst til marks um að gengisáhrif væru að koma af meiri krafti fram í verðþróuninni en áður hafði verið vænst. Horfur væru á að slaki yrði enn meiri í hagkerfinu á komandi fjórðungum en vænst var, sem myndi með tímanum leiða til hjöðnunar verðbólgu að markmiði.

Lágir vextir framundan

Í nýlegri stýrivaxtaspá okkar spáðum við óbreyttum vöxtum fram á mitt næsta ár. Er sá tónn sem sleginn er nú í Seðlabankanum í samræmi við þá spá. Óvissan er þó að okkar mati fremur á þá lund að vextirnir verði óbreyttir lengur. Þá eru horfur á að vaxtahækkunarferlið verði fremur hægt þegar að því kemur og gerum við ráð fyrir að vextir verði að jafnaði lægri til frambúðar en verið hefur undanfarna áratugi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband