Óbreyttir stýrivextir út árið?

Stýrivextir verða óbreyttir í 9,25% eftir vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun. Meiri þróttur virðist í efnahagslífinu en vænst var og verðbólguþrýstingur virðist þrálátari. Þótt lækkun vaxta í nóvember virðist ekki útilokuð hafa líkur aukist á því að vaxtalækkunarferlið hefjist ekki fyrr en eftir næstu áramót.


Stýrivextir verða áfram óbreyttir um sinn eftir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt var í morgun. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25% eins og þeir hafa verið frá ágúst í fyrra. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár sem allar hljóðuðu upp á óbreytta vexti sem og almennar væntingar á markaði. Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar er þó ef eitthvað er heldur hvassari en í maí.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun:

  • Verðbólga hefur aukist lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar eftir að hafa hjaðnað fram eftir ári.
  • Undirliggjandi verðbólga er enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt.
  • Verðbólguvæntingar hafa einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði.
  • Hægt hefur á innlendri eftirspurn undanfarið ár í takt við aukið peningalegt taumhald.
  • Nokkur spenna er þó enn til staðar í þjóðarbúinu og hefur lítið dregið úr henni frá maífundi nefndarinnar.
  • Horfur eru því á að það geti tekið nokkurn tíma að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgu.

Þessi síðasta setning er athyglisverð og til marks um að nefndin sé að horfa fram yfir næstu mánuði hvað varðar byrjun á vaxtalækkunarferli.

Hægari hagvöxtur í kortum Seðlabankans

Ný hagspá sem birtist í Peningamálum samhliða vaxtaákvörðuninni hljóðar upp á öllu minni hagvöxt en síðasta spá sem birt var í maí síðastliðnum. Spáir bankinn nú 0,5% hagvexti í ár, 2,0% vexti árið 2025 og 2,6% árið 2026 samanborið við 1,1%, 2,3% og 2,9% þessi sömu ár í maíspánni. Fram kemur að lakari horfur um vöxt ferðaþjónustu hafi þar töluverð áhrif. Þá gerir bankinn ráð fyrir minni vexti fjárfestingar atvinnuvega í ár en áður, en á móti býst hann við meiri fjárfestingu í íbúðarhúsnæði þetta árið en í fyrri spá.

Benti seðlabankastjóri á kynningarfundi á það að umræða um um að háir vexti séu að hindra byggingargeirann væri að hans mati á nokkrum villigötum. Sagði hann að allir væru komnir í byggingargeirann sem geta haldið á hamri, byggingarfyrirtæki óskuðu flest hver eftir að ráða mannskap sem og taka mikið af lánum. Byggingargeirinn væri þar af leiðandi á fullri ferð og ekkert sem benti til þess að vextir væru að hindra framboð á nýju íbúðarhúsnæði.

Verðbólguhorfur svipaðar og í vor

Verðbólguspá bankans nú hljóðar upp á heldur meiri verðbólgu næstu fjórðunga en spá bankans í maí. Á það er þó bent að breytingin skýrist af lakari upphafsstöðu en verðbólguhorfur hafi í raun lítið breyst frá því sem áður var talið. Spáir Seðlabankinn að jafnaði ríflega 6% verðbólgu á seinni helmingi þessa árs, 4,2% verðbólgu á næsta ári en 2,9% árið 2026. Samkvæmt verðbólguspánni næst 2,5%verðbólgumarkmið bankans að tveimur árum liðnum.

Talsverðar bollaleggingar hafa verið um það á síðustu vikum með hvaða hætti breyting á skattlagningu á bensín- og díselknúnar bifreiðar, þar sem kílómetragjald tekur við af sértækri skattlagningu, muni koma fram í vísitölu neysluverðs um áramótin. Verði nýja gjaldtakan tekin inn í VNV með svipuðum hætti og t.d. gjaldtaka fyrir notkun jarðganga um Hvalfjörð á sínum tíma og eins Vaðlaheiðargöng verða áhrifin á VNV líklega lítil sem engin. Hins vegar gæti Hagstofan skilgreint þessa breytingu með sambærilegum hætti og var þegar nefskattur tók við af afnotagjaldi Ríkisútvarpsins. Verði það raunin gætu áhrifin á mælda ársverðbólgu orðið í námunda við 1% til lækkunar á árinu 2025 en þau áhrif hyrfu svo á ný í ársbyrjun 2026.

Seðlabankinn fjallar um þessar breytingar í Peningamálum og tekur þann pól í hæðina að fyrrnefnda leiðin verði líklega farin og áhrif á mælda verðbólgu á næsta ári verði því lítil sem engin.

Líkur á vaxtalækkun fyrir áramót hafa minnkað

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er nokkuð breytt frá maí og hljóðar svo (breytingar frá síðustu yfirlýsingu feitletraðar):

Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í maí þannig:

Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Í sem stystu máli túlkum við leiðsögnina þannig: Nefndin telur að líklega þurfi ekki að hækka stýrivexti meira en að nokkuð sé í að vaxtalækkunarferlið geti hafist.

Rímar það einnig við orð seðlabankastjóra á kynningarfundi um að núverandi raunvaxtastig, sem er í grennd við 4% miðað við meðaltal framsýnna mælikvarða, væri líklega hæfilegt. Það kom hins vegar einnig fram í máli stjórnenda bankans á kynningarfundi að þróun verðbólgu og efnahagslífs undanfarna 3 mánuði eða svo hefðu verið með nokkuð öðrum hætti en vænst var í vor, verðbólga verið meiri og kólnun hagkerfisins hægari. Fyrstu áhrif kjarasamninga hefðu til að mynda verið sterkari á eftirspurn, þótt samningarnir í heild hefðu verið jákvætt skref. Þá væri háönn ferðaþjónustunnar heldur hagfelldari en útlit var fyrir, eins og við fjölluðum um nýlega. Orðaði seðlabankastjóri þetta sem svo að við hefðum í raun tapað þremur og hálfum mánuði af kólnun hagkerfisins og hjöðnun verðbólgu yfir sumarið.

Við teljum því meiri líkur en áður að byrjun á vaxtalækkunarferlinu bíði fram á nýtt ár. Vaxtalækkun í október er líklega alveg út af borðinu en hugsanlega gæti vaxtalækkun hafist í nóvember ef verðbólga og verðbólguvæntingar þróast með hagfelldum hætti og skýrari merki um kólnun hagkerfisins koma fram á sama tíma.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband
Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband