Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir og kunnuglegur tónn

Peningastefnunefnd Seðlabankans sló svipaðan tón og síðast í tilkynningu sinni um óbreytta stýrivexti. Niðurstaða kjarasamninga á komandi vikum mun að mati okkar ráða miklu um hvort stýrivextir verði hækkaðir fyrir mitt ár. Verði samningum landað á tiltölulega hóflegum nótum er ekki útilokað að lækkun vaxta sé í kortunum fyrir árslok.


Peningastefnunefnd Seðlabankans sló svipaðan tón og síðast í tilkynningu sinni um óbreytta stýrivexti. Niðurstaða kjarasamninga á komandi vikum mun að mati okkar ráða miklu um hvort stýrivextir verði hækkaðir fyrir mitt ár. Verði samningum landað á tiltölulega hóflegum nótum er ekki útilokað að lækkun vaxta sé í kortunum fyrir árslok.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum verða því áfram 4,5% eins og þeir hafa verið frá nóvember síðastliðnum.

Peningastefnunefnd er örlítið bjartsýnni á skammtímaverðbólguhorfur í kjölfar lækkunar á 12 mánaða takti verðbólgunnar úr 3,7% í 3,0% og styrkingar krónu undanfarið. Þar vegur að mati nefndarinnar þyngst að dregið hefur úr innfluttum verðbólguþrýstingi frá haustdögum og áhrif hækkunar á íbúðaverði á verðbólguna hafa minnkað.

Einnig bendir nefndin réttilega á að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað. Álagið til lengri tíma var ríflega 4,0% við síðustu vaxtaákvörðun í febrúar en er nú í kring um 3,6%. Þessi lækkun á álaginu er til komin vegna lækkunar á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa í kjölfar afnáms bindiskyldu vegna skuldabréfafjárfestinga erlendra aðila. Að mati okkar endurspeglar álagið nú betur en áður verðbólguvæntingar markaðsaðila að viðbættu óvissuálagi. Að því gefnu að óvissuálagið sé a.m.k. 0,5%, sem er að mati okkar fremur varlega áætlað, virðast því verðbólguvæntingar á markaði ekki vera umtalsvert úr takti við verðbólgumarkmiðið.

Peningastefnunefndin hefur hins vegar áhyggjur af hækkun langtíma verðbólguvæntinga fyrirtækja og heimila. Telur hún að taumhald peningastefnunnar hafi lítið breyst vegna þessa þrátt fyrir hjöðnun mældrar verðbólgu og lækkun á verðbólguálaginu. Að okkar mati hafa verðbólguhorfur almennt heldur skánað og hefði nefndin ef til vill mátt vega þróun markaðsálags og verðbólgunnar sjálfrar öllu meiri vigt en framangreindum væntingum í mati sínu á taumhaldi peningastefnunnar.

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun kom fram að nýfjárfestingar og útflæði vegna losunar hafta á aflandskrónur hafa í grófum dráttum staðist á. Aflandskrónur á reikningum Seðlabankans hafa minnkað um 10 ma.kr. frá afnámi hafta á þær í byrjun þessa mánaðar. Þó hefur líklega ekki öll sú fjárhæð farið út um gjaldeyrismarkað. Sér í lagi hefur hin stóra staða sem fjallað var um í tengslum við lokagjalddaga RIKB19-ríkisbréfsins og Seðlabankinn hafði áhyggjur af í umsögn sinni til Alþingis ekki streymt um markaðinn í stórum stíl samkvæmt orðum Seðlabankastjóra. Innstreymi inn á hlutabréfamarkað og í ríkisskuldabréf á sinn þátt í styrkingu krónu undanfarið auk þess sem útflæði gjaldeyris vegna fjárfestinga lífeyrissjóða hefur sjatnað upp á síðkastið.

Kjarasamningar lykilatriði um vaxtaþróun

Framsýn leiðsögn yfirlýsingar peningastefnunefndar nú er orðrétt sú sama og við síðustu vaxtaákvörðun og hljóðar svo:

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið. Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.

Það virðist ljóst að niðurstaða yfirstandandi kjarasamninga mun ráða miklu um hvort stýrivextir verða hækkaðir fyrir mitt ár. Í nýjustu verðbólguspá okkar gerum við ráð fyrir því að launavísitala hækki um 6,5% á yfirstandandi ári. Er það áþekk spá og Seðlabankinn birti í febrúar síðastliðnum. Verði hækkun launa á vordögum að jafnaði umtalsvert meiri en samrýmist þeirri forsendu mun Seðlabankinn að mati okkar bregðast við með hækkun stýrivaxta í maí eða júní. Okkar skoðun er hins vegar óbreytt hvað það varðar að við teljum óbreytta stýrivexti út árið líklegasta, en við útilokum þó ekki vaxtalækkun á seinni hluta ársins að því gefnu að kjarasamningum verði lokað á tiltölulega hóflegum nótum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst