Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir og fáorð peningastefnunefnd

Stýrivextir Seðlabankans verða óbreyttir í 0,75% enn um sinn eftir vaxtaákvörðun bankans. Bankinn telur að hagvöxtur muni glæðast og verðbólga hjaðna hratt þegar lengra líður á þetta ár. „Ár peningaprentunar“ felst líklega frekar í því að Seðlabankinn prenti krónur til evrukaupa af ríkissjóði en að hann verði stórtækur á skuldabréfamarkaði.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innlánum, verða því áfram 0,75% eins og þeir hafa verið frá nóvember síðastliðnum.

Yfirlýsing peningastefnunefndar er býsna fáorð og er að mestu leyti samantekt á hagspá bankans sem birt var í Peningamálum í morgun. Þar kemur fram að innlend eftirspurn hafi verið meiri í fyrra og verði einnig meiri í ár en fyrr var talið. Á móti séu útflutningshorfur lakari fyrir árið en áður var spáð. Verðbólga er talin munu lækka hratt fram eftir ári og verða komin í 2,5% markmið bankans um næstu áramót, enda sé slaki í þjóðarbúinu og krónan hafi styrkst að nýju. Um spána er fjallað nánar hér að neðan.

Verður 2021 „ár peningaprentunar“?

Athygli vekur að sú breyting gerð á framsýnni leiðsögn yfirlýsingar peningastefnunefndar frá síðasta fundi að setningarhluti um að kaupum ríkisskuldabréfa verði beitt í því skyni að tryggja lausara taumhald peningastefnunnar hefur verið tekinn út.

Framsýna leiðsögnin hljómar svo:

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

Í nóvember var leiðsögnin hins vegar þessi (feitletrun er okkar):

Peningastefnunefnd mun áfram nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða, m.a. kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina benda einnig til þess að áhersla Seðlabankans hvað peningaprentun varðar hafi færst frá því að kaupa ríkisskuldabréf í miklum mæli til þess að halda niðri langtímavöxtum og auka peningamagn yfir til þess að kaupa evrur af ríkissjóði í þessu skyni. „Ár peningaprentunar“, eins og seðlabankastjóri kallaði árið 2021 á fundi síðasta haust, verður því ekki endilega ár umfangsmikilla ríkisbréfakaupa bankans.

Ríkissjóður gaf á dögunum út skuldabréf að fjárhæð 750 m. evra og er ætlunin að nota andvirði þeirra til fjármögnunar á rekstrarhalla ríkissjóðs að miklu eða öllu leyti. Væntanlega gengur það þannig fyrir sig að ríkissjóður leggur fjárhæðina inn á gjaldeyrisreikning sinn í Seðlabankanum. Seðlabankinn lækkar svo gjaldeyrisinnstæðuna en hækkar á móti innstæðu ríkissjóðs í krónum á fyrirframákveðnu gengi. Þegar ríkið dregur í kjölfarið á krónuinnstæður sínar til að greiða fyrir útgjöld sín fara þessar spánýju krónur í umferð.

Áhrifin á langtímavexti og hagkerfið allt ættu að vera sambærileg þar sem ríkissjóður mun sækja sér lægri fjárhæðir innanlands fyrir vikið.

Hröð verðbólguhjöðnun en þrálátt atvinnuleysi í nýrri spá

Í nýútkomnum Peningamálum er því spáð að hagvöxtur glæðist þegar lengra líður á þetta ár og verði myndarlegur á næstu árum. Spáir Seðlabankinn 2,5% hagvexti í ár, 5,1% á næsta ári og 4,1% hagvexti árið 2023. Bankinn tekur þó fram að efnahagsþróunin muni að miklu leyti ráðast af því hvernig til tekst við að ráða niðurlögum farsóttarinnar bæði hér á landi og alþjóðlega. Í samanburði við nýlega þjóðhagsspá okkar gerir Seðlabankinn ráð fyrir hægari vexti í ár en öllu myndarlegri vexti næstu tvö ár. Rétt er einnig að halda því til haga að áætlaður samdráttur landsframleiðslu í fyrra er minni í spá Seðlabankans en okkar spá.

Frá nóvemberspá Seðlabankans hafa horfur um útflutning heldur daprast að mati bankans en útlit er aftur á móti fyrir nokkru þróttmeiri vöxt eftirspurnar. Telur hann að bæði fjárfesting og einkaneysla vaxi hraðar í ár en áður leit út fyrir. Athygli vekur að bankinn gerir ráð fyrir hóflegum samdrætti í íbúðafjárfestingu í ár og nokkrum vexti á næsta ári, en mikil umræða hefur verið undanfarið um hvort nýbyggingum íbúðarhúsnæðis fari nú allhratt fækkandi og þar sé að myndast flöskuháls fyrir markaðinn. Minni vöxtur útflutnings er að hluta til vegna færri ferðamanna en bankinn gerði áður ráð fyrir að sæktu landið heim. Hann spáir nú u.þ.b. 700 þúsund ferðamönnum hingað til lands í ár sem er í samræmi við grunnspána í þjóðhagsspá okkar.

Verðbólguspá Seðlabankans er nánast samhljóða okkar spá og hljóðar upp á ört hjaðnandi verðbólgu í ár og verðbólgu rétt undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu næstu tvö ár. Bendir bankinn á að verðbólguvæntingar hafi haldist tiltölulega stöðugar og að verðbólguþrýstingur muni minnka hratt þar sem slaki sé umtalsverður í þjóðarbúinu og krónan muni fremur reynast verðbólgudempandi á næstunni en sá verðbólguvaldur sem hún hefur verið undanfarna fjórðunga.

Spá bankans um atvinnuleysi er hins vegar talsvert dekkri en okkar spá þótt hún sé raunar lítt breytt frá nóvemberspá bankans. Er nú gert fyrir að skráð atvinnuleysi verði að jafnaði 10,2% af mannaflanum í ár, 8,3% á næsta ári og 6,5% á árinu 2023. Ef þetta gengur eftir hlýtur það að verða eitt helsta verkefni hagstjórnar þegar frá líður að fjölga störfum á sama tíma og stjórnvöld gætu þurft að glíma við margvísleg vandamál tengd langtíma atvinnuleysi í talsvert meiri mæli en áður hefur þekkst. Við teljum þó sem fyrr segir að Seðlabankinn sé þarna full svartsýnn enda gæti atvinnulausum fækkað allhratt þegar jafn mannaflsfrekar atvinnugreinar og ferðaþjónusta og mannvirkjagerð komast á meiri skrið.

Fáorð framsýn leiðsögn en vextir líklega óbreyttir út árið

Aðspurður vildi seðlabankastjóri ekki meina að framsýna leiðsögn peningastefnunefndar ætti að vera skýrari. Þá vildi hann ekki útiloka að aðhald peningastefnunnar yrði aukið á komandi fjórðungum ef hagkerfið færi að rétta umtalsvert úr kútnum, sér í lagi ef ríkisfjármál yrðu þá enn verulega eftirspurnarhvetjandi.

Sem fyrr segir virðist peningastefnunefndinni óljúft að gefa sterk skilaboð um hvert stefni í stjórnun peningamála á komandi fjórðungum og raunar var yfirlýsing hennar býsna rýr í roðinu þegar samantekt á Peningamálum sleppir. Við teljum að heppilegra væri í núverandi óvissuástandi að fastar væri að orði kveðið hvað varðar tímasetningu á, eða skilyrði fyrir, hækkun stýrivaxta. Sama má reyndar segja um tilhögun mögulegrar peningaprentunar.

Samt sem áður stendur spá okkar um óbreytta stýrivexti út þetta ár óhögguð nema ferðaþjónustan og innlend eftirspurn nái þeim mun sterkari viðspyrnu á árinu. Slái verulega í bakseglin á efnahagsbatanum á sama tíma og verðbólga hjaðnar er heldur ekki útilokað að stýrivextir verði lækkaðir frekar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband