Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga innlánum, verða því áfram 0,75% eins og þeir hafa verið frá nóvember síðastliðnum.
Yfirlýsing peningastefnunefndar er býsna fáorð og er að mestu leyti samantekt á hagspá bankans sem birt var í Peningamálum í morgun. Þar kemur fram að innlend eftirspurn hafi verið meiri í fyrra og verði einnig meiri í ár en fyrr var talið. Á móti séu útflutningshorfur lakari fyrir árið en áður var spáð. Verðbólga er talin munu lækka hratt fram eftir ári og verða komin í 2,5% markmið bankans um næstu áramót, enda sé slaki í þjóðarbúinu og krónan hafi styrkst að nýju. Um spána er fjallað nánar hér að neðan.