Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir í skóinn í ár

Stýrivöxtum Seðlabankans var haldið óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun ársins 2019. Núverandi vaxtastig er hæfilegt að mati stjórnenda bankans en við teljum þó líklegt að frekari fjármálaleg slökun þurfi að koma til á komandi misserum.


Meginvextir Seðlabankans verða áfram 3,0%. samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar bankans sem kynnt var í morgun. Vextir á sjö daga bundnum innlánum, sem bankinn skilgreinir sem meginvexti sína, verða því áfram 3,0% og er þetta fyrsta vaxtaákvörðunin frá mars síðastliðnum þar sem vextir eru ekki lækkaðir. Frá maí hafa vextir Seðlabankans samtals verið lækkaðir um 1,5 prósentur en þeir voru 4,5% í ársbyrjun. Vextirnir hafa því verið lækkaðir um þriðjung á árinu sem nú er að renna sitt skeið.

Yfirlýsingin er fremur rýr í roðinu að þessu sinni, enda skammt um liðið frá síðustu vaxtaákvörðun og nýjar spár frá Seðlabankanum ekki kynntar í þetta skiptið. Greinilegt er að nefndarmönnum hefur ekki þótt nýlegar hagtölur breyta mikið þeirri sýn sem þeir höfðu á efnahags- og verðbólguhorfur í nóvember. Kemur fram í yfirlýsingunni að verðbólguhorfur hafi lítið breyst frá síðustu vaxtaákvörðun og efnahagsþróunin hafi í meginatriðum verið í samræmi við nóvemberspá Seðlabankans.

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingunni er hlutlaus líkt og undanfarið, og raunar orðrétt sú sama og í nóvember. Rétt er að minna á að í nóvember var það mat nefndarinnar að núverandi vaxtastig væri hæfilegt miðað við efnahags- og verðbólguhorfur. Töldum við einmitt í stýrivaxtaspá okkar að það mat nefndarinnar benti allsterkt til þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum nú.

Er meiri slökun í kortunum?

Aðspurð sögðu þau Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að sú vaxtalækkun sem orðin væri á árinu ætti enn eftir að koma fram að fullu í örvun hagkerfisins. Núverandi raunvextir væru talsvert undir metnum jafnvægisraunvöxtum Seðlabankans, sem um þessar mundir eru í kring um 2%. Því væri ekki rétt að lækka vexti bankans meira að sinni.

Þá benti seðlabankastjóri á að við núverandi vaxtastig væri hætta á að frekari vaxtalækkun hefði minni áhrif en ella á vaxtakjör í fjármálakerfinu þar sem innlánvextir væru þegar nærri núlli. Aðstoðarseðlabankastjóri taldi að miðlun stýrivaxta væri misgóð eftir geirum. Þannig væri miðlunin yfir í vaxtakjör heimila í íbúðalánum með ágætum en síðri þegar kæmi að fyrirtækjum. Þá benti seðlabankastjóri á að fleiri þættir en neikvæðir raunvextir væru áhrifaþættir á fjárfestingarstigið. Nefndi hann m.a. í því sambandi getu fjármálakerfisins til útlána.

Í því ljósi er rétt að ítreka þá skoðun okkar að slökun á fjármálalegu aðhaldi þarf á komandi misserum að koma víðar en frá lækkun stýrivaxta. Í því ljósi væri eðlilegt fyrsta skref að okkar mati að taka til baka áætlaða 0,25 prósentu hækkun á sveiflujöfnunarauka á eigið fé viðskiptabanka sem koma á til framkvæmda þann 1. febrúar næstkomandi, en vísbendingar eru um að sú hækkun sé þegar farin að hafa áhrif á útlánavilja þeirra.

Við nefndum í stýrivaxtaspá okkar í desemberbyrjun að líkur væru á frekari vaxtalækkun á næsta ári þegar kæmi á daginn að sú hækkun raunvaxta sem orðið hefur frá nóvemberbyrjun myndi að óbreyttum stýrivöxtum ekki ganga til baka. Sú skoðun okkar stendur óbreytt eftir vaxtaákvörðunina í dag.

„Vaxtahaukur“ kveður peningastefnunefndina

Breyting verður á skipan peningastefnunefndar um áramótin. Aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, hverfur úr nefndinni en í stað hans kemur væntanlegur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika. Skipunarferli í þá stöðu stendur nú yfir. Þórarinn hefur á stundum verið hallur undir heldur meira peningalegt aðhald en aðrir meðlimir peningastefnunefndar, en rétt að að halda því til haga að alger samhljómur hefur verið meðal nefndarmanna um fjögur af þeim fimm vaxtalækkunarskrefum sem stigin hafa verið frá vordögum. Vaxtalækkunarferlið hefur því verið ákveðið í ágætri sátt nefndarmanna eftir því sem næst verður komist.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband