Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir biðleikur peningastefnunefndar

Óbreyttir stýrivextir Seðlabankans í morgun komu nokkuð á óvart. Peningastefnunefnd bankans horfði meðal annars talsvert til aukningar innlána, lækkunar verðbólguvæntinga, hækkunar raunstýrivaxta og vísbendinga um að fyrri vaxtahækkanir væru að hafa vaxandi áhrif. Ákvörðunin nú virðist eins konar biðleikur þar til nýjar spár bankans líta dagsins ljós í nóvember en talsverðar líkur eru á að hækkunarferlinu sé lokið í bili.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun ákvörðun peningastefnunefndar bankans um að halda stýrivöxtum, þ.e. vöxtum á 7 daga bundnum innlánum, óbreyttum í 9,25%. Ákvörðunin var nokkuð á skjön við birtar spár. Við höfðum spáð 0,25 prósentu hækkun vaxta en aðrar birtar spár voru almennt á enn meiri vaxtahækkun. Rökstuðningur nefndarinnar fyrir óbreyttum vöxtum var hins vegar í takti við þau rök sem við töldum helst mæla gegn hækkun vaxta að þessu sinni. Augljóslega hafa þau rök vegið þyngra á metum nú en rök fyrir hækkun.

 

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Þróun efnahagsmála hefur almennt verið í samræmi við mat nefndarinnar í ágúst.
  • Verðbólga hefur aukist en undirliggjandi verðbólga hjaðnað lítillega.
  • Vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr tíðni verðhækkana og að þær séu ekki á eins breiðum grunni og áður.
  • Þótt verðbólguvæntingar séu áfram of háar hafa þær lækkað á suma mælikvarða.
  • Nokkuð hefur hægt á vexti efnahagsumsvifa á 1H m.v. síðasta ár og vísbendingar eru um að hægt hafi enn frekar á eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins.
  • Aftur á móti er enn nokkur spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild.
  • Raunvextir bankans hafa hins vegar hækkað það sem af er ári og áhrif vaxtahækkana bankans eru farin að koma fram í meira mæli.

Innlánaaukning og hækkandi raunvextir hjálpa..

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að nefndin horfði meðal annars til þess að innlán heimila hjá fjármálastofnunum hefði aukist umtalsvert á sama tíma og vísbendingar væru um hægari vöxt einkaneyslu en verið hefði. Aðspurður sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telja að samkeppni á innlánamarkaði væri að styðja við áhrifamátt peningastefnunnar í meiri mæli hérlendis en sums staðar erlendis. Nefndi hann að stjórnendur sumra helstu seðlabanka heims hefðu af því áhyggjur hversu hægt innlánavextir fjármálafyrirtækja fylgdu stýrivöxtum. Hér á landi væri hins vegar hægt að fá jákvæða raunávöxtun án verulegrar bindingar á sparifé.

Þá leggur nefndin greinilega talsverða áherslu á þá breytingu sem orðið hefur á raunstýrivöxtum undanfarna fjórðunga. Líkt og við bentum á í stýrivaxtaspá okkar í síðustu viku hefur orðið talsverð breyting til hækkunar raunvaxta á allflesta mælikvarða á undanförnum fjórðungum. Endurspegla vextirnir að okkar mati nokkurt aðhald peningastefnunnar á suma mælikvarða og að jafnaði benda þeir ekki lengur til slaka í peningastjórnun öfugt við það sem var framan af ári.

Seðlabankastjóri tók fram á kynningarfundinum að líklega þyrfti einhver frekari hækkun raunvaxta að koma til á næstu fjórðungum. Hann kvaðst hins vegar vona að sú hækkun gæti orðið með hjöðnun verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga fremur en frekari hækkun á stýrivöxtunum.

Það er raunar helst ef verðbólga síðustu 12 mánaða (8,0% í september) er borin saman við stýrivaxtastigið (9,25%) sem raunvaxtastigið virðist lágt. Við höfum hins vegar ítrekað bent á að sú aðferðafræði er ekki sérlega lýsandi fyrir raunvaxtastigið á hverjum tíma þar sem horft er í baksýnisspegilinn með öðru auganu en fram á veg með hinu. Til að mynda skrifast hækkun á 12 mánaða verðbólgutaktinum í september fremur á óvenjulega septembermælingu í fyrra (sem datt út úr 12 mánaða mælingunni nú) en að verðlag hafi verið að hækka umtalsvert nú í haust.

Til dæmis teiknast upp talsvert önnur mynd af nýlegri verðbólguþróun ef notast er við 3ja mánaða hækkun VNV á hverjum tíma og hún umreiknuð á ársgrundvelli. Eins og sjá má af myndinni hefur dregið verulega úr skammtíma verðbólgu á þann mælikvarða frá vordögum. Rétt er þó að hafa í huga að hann er talsvert sveiflukenndari en 12 mánaða taktur verðbólgu auk þess sem markmið Seðlabankans miðar við 12 mánaða taktinn.

..sem og lækkandi verðbólguvæntingar

Í yfirlýsingu nefndarinnar er bent á að verðbólguvæntingar hafi lækkað á suma mælikvarða undanfarið þótt þær séu áfram of háar. Þar er væntanlega vísað til nýrra mælinga á verðbólguvæntingum heimila og fyrirtækja sem birtust í Hagvísum Seðlabankans fyrir helgi. Væntingar þessara aðila lækkuðu talsvert frá síðustu könnun sem birt var snemmsumars og hefur það væntanlega orðið nefndinni talsverður léttur.

Á kynningarfundinum kom einnig fram að peningastefnunefndin túlkar hátt verðbólguálag á skuldabréfamarkaði ekki bókstaflega þessa dagana. Líkt og við fjölluðum nýlega um endurspeglar það álag að hluta til óvissu um verðbólguþróun á komandi misserum og því er ekki hægt að túlka það með beinum hætti sem mat markaðsaðila á verðbólguþróun til lengri tíma litið.

Biðleikur eða endalok vaxtahækkunarferlis ?

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er hlutlaus. Vert er að hafa í huga að hlutlaus leiðsögn jafngildir ekki því að nefndin gefi litla vísbendingu um framhaldið. Í henni felst einfaldlega að hún telur ekki afgerandi meiri líkur á því að vöxtum verði breytt en því hvort þeim verði haldið óbreyttum við næstu vaxtaákvarðanir. Orðalag framsýnu leiðsagnarinnar er hins vegar nokkuð óvenjulegt í samanburði við undanfarnar yfirlýsingarinnar (sjá feitletrun).

Hún hljóðar svo:

  • Á þessum tímapunkti er nokkur óvissa um efnahagsframvinduna og hvort núverandi taumhald sé nægjanlegt. Nefndin hefur því ákveðið að staldra við en á næsta fundi mun liggja fyrir ný þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Við túlkum þessi orð þannig að spár bankans sem birtast samhliða vaxtaákvörðuninni í nóvember gætu riðið baggamuninn um hvort vaxtahækkunarferlinu er lokið í bili eða hvort einhver frekari vaxtahækkun verður á þeim fundi. Hugsanlega hafa einhverjir nefndarmenn viljað hækka vexti að þessu sinni en sæst á þessa málamiðlun þar sem stutt er á milli funda peningastefnunefndar á haustdögum. Ef spár Seðlabankans verða í takti við nýlega þjóðhagsspá okkar eru góðar líkur á að vaxtahækkunarferlið sé á enda, að minnsta kosti í bili. Hins vegar má ekki mikið út af bregða svo ekki verði hnykkt eitthvað til viðbótar á vaxtaaðhaldinu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband