Íslandssjóðir hafa stofnað sjóðinn IS Haf fjárfestingar slhf. sem fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni. Sjóðurinn er 10 milljarðar að stærð, að fullu fjármagnaður og hefur þegar tekið til starfa. Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brim hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum.
Fjölbreytt fjárfestingartækifæri í hröðum vexti lykilgreinar þjóðarinnar
Ísland spilar leiðandi hlutverk á heimsvísu í sjávarútvegi bæði út frá tækniþróun tengdri greininni, sjálfbærni og arðsemi fiskveiða sem skýrist meðal annars af fjárfestingu og nýsköpun í fiskveiðum og vinnslu síðastliðnu áratugi. Fullnýting sjávarafurða á Íslandi er einsdæmi og mikil tækifæri liggja í þeim rannsóknum og þekkingu sem býr að baki nýsköpunar í sjávarlíftækni.
Aðgengi að fjárfestingum í sjávarútvegi hefur í gegnum tíðina verið takmarkað. Sjóðurinn opnar aðgengi fyrir lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að hröðum vexti í haftengdri starfsemi. Sjóðurinn sem er 10 milljarðar að stærð er með aukinn slagkraft þar sem fjárfestum sjóðsins verður boðið að meðfjárfesta (co-invest) samhliða sjóðnum í einstökum fjárfestingarverkefnum. Samsetning fjárfestingarteymis sjóðsins, fjárfestingaráðs og hluthafahóps hans tryggir að greining fjárfestingatækifæra, öflun og úrvinnsla er unnin af kostgæfni.
Fjárfestingum verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.
Fjárfestingaráð sjóðsins er skipað fagaðilum úr greininni með breiðan bakgrunn og víðtæka reynslu úr rekstri útgerða, fiskeldis, haftengdri tækni og sjálfbærnismálum. Fjárfest verður að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland. Fjárfestingartímabil sjóðsins er 4 ár og heildarlíftími sjóðsins er 9-11 ár.
Slagkraftur í sameinaðri fjárfestingu í virðiskeðju sjávarútvegs
Sjóðurinn leitast við að vera áhrifafjárfestir og styðja við vöxt og framþróun þeirra félaga sem fjárfest verður í og leggur sjóðurinn sterka áherslu á að hafa mælanleg áhrif á þætti sem varða umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS þætti) fyrirtækjanna.
Ráðgjafasamningur er á milli Íslandssjóða, rekstraraðila sjóðsins og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem kemur að öflun fjárfestingatækifæra.