Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð funduðu í gegnum fjarfundarbúnað með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands og Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs. Fyrirtækin kynntu skuldbindingar sínar og aðgerðir í loftslagsmálum, jafnréttismálum og fjölbreytileika og ræddu tækifæri til samstarfs. Einnig voru ræddar tillögur fyrirtækjanna um hvað stjórnvöld geta gert til að flýta fyrir aukinni sjálfbærnivæðingu.
- Lestu meira um Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð hér
Viðræðurnar við forsætisráðherrana voru framhald af fyrri fundi hópsins með Norrænu ráðherranefndinni í ágúst síðastliðnum sem haldinn var á Íslandi. Þar var birt sameiginleg yfirlýsing um framtíðarsýn Norðurlandanna um hvernig megi ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (SDG). Áhersla er lögð á að efla aðgerðir í loftslagsmálum og stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í samræmi við heimsmarkmið númer 5, 12 og 13 með auknu samstarfi opinberra aðila og einkageirans.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á að aukin samvinna ólíkra aðila í samfélaginu er lykillinn að því að hægt sé að bregðast hratt við miklum og óvæntum áföllum. Við þurfum að sama skapi að nýta þessa samvinnu til að hraða innleiðingu grænna lausna í því skyni að berjast gegn loftslagsbreytingum og tryggja að tæknibreytingar nýtist samfélaginu öllu.“
Frumkvæði til að knýja fram breytingar í loftslagsmálum, jafnrétti og fjölbreytileika
„Við stöndum frammi fyrir nýjum og krefjandi verkefnum í kjölfar COVID-19 faraldursins en það hefur einungis styrkt ásetning okkar um að styðja enn frekar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þær meginreglur og skuldbindingar á sviði sjálfbærni sem við höfum samþykkt, verða héðan í frá leiðarljós okkar. Á sviði loftslagsmála og jafnréttis og fjölbreytileika leggjum við áherslu á sterkari upplýsingagjöf, markmiðasetningu og að hafa áhrif á virðiskeðjunar okkar“ segir Jens Henriksson, forstjóri Swedbank, og formaður Samtaka norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð.
En til þess að þessar aðgerðir verði árangursríkar hvetja forstjórarnir Norrænu ráðherranefndina til að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo flýta megi fyrir breytingum á sviði sjálfbærni.
„Í loftslagsmálum hvetjum við stjórnvöld til að auðvelda umbreytinguna í kolefnishlutlaust samfélag með því að innleiða nýja hvata og stefnur ásamt því að leggja grunn að betri og gegnsærri birtingu ófjárhagslegra upplýsinga. Hvað varðar jafnrétti og fjölbreytileika hvetjum við til sértækra aðgerða af hálfu stjórnvalda og hvata hvað varðar skýrslugerð, innkaup og jafnrétti, þar með talið jafnlaunavottun. Á næstu tveimur árum getum við gripið til aðgerða sem munu leiða til áþreifanlegra framfara í átt að sjálfbærara hagkerfi þar sem fólk, byggðir og umhverfi geta dafnað saman,“ segir Jens Henriksson.
Leiðin framundan
Hópurinn mun vinna að aðgerðaráætlun fyrir komandi fundi og sameiginlega starfsemi á svæðisbundnum og alþjóðlegum sviðum.
Til viðbótar við Jens Henriksson og forsætisráðherrana Katrínu Jakobsdóttir og Ernu Solberg, tóku eftirfarandi aðilar þátt í fundinum Árni Oddur Þórðarson, Marel, Odd Arild Grefstad, Storebrand, Birna Einarsdóttir, Íslandsbanka, Sigve Brekke, Telenor Group, Tone Wille, Posten, Rickard Gustafson, SAS, Kristin Skogen Lund, Schibsted, Allison Kirkby, Telia Company, Mats Granryd, GSMA, Topi Manner, Finnair, og Svein Tore Holsether, Yara.
„Samstarf fyrirtækja og hins opinbera við uppbyggingu sjálfbærs samfélags hefur aldrei verið mikilvægara. Það er því fagnaðarefni að atvinnulífið og stjórnvöld á Norðurlöndum sýni vilja í verki með því að stilla saman strengi sína til að stuðla að nýsköpun, grænni lausnum og auknu jafnrétti til náms og starfa. Sýn Marel er að umbreyta matvælavinnslu og við höfum sett skýr markmið um það hvernig fyrirtækið getur haft jákvæð áhrif á loftslagsmál, jafnrétti og fjölbreytileika með því að stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu á alþjóðavísu. Markmiðin eru háleit, en með samstilltu átaki með birgjum og viðskiptavinum mótum við bjarta framtíð. Ríkisstjórn Íslands undir forystu Katrínar Jakobsdóttur og aðrar ríkisstjórnir Norðurlanda hafa stigið mörg jákvæð skref og á fundinum ræddum við hvernig við getum enn frekar stillt saman strengina og verið norrænar fyrirmyndir þegar það kemur að skipulögðum fjárfestingum í grænni framtíð“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
„Það er mikilvægt fyrir okkur í Íslandsbanka að setja okkur skýr markmið í loftslagsmálum og útfrá jafnrétti og fjölbreytileika. Samstarfið við hin norrænu stórfyrirtækin hefur gefist mjög vel og hjálpað okkur að skerpa á áherslum með tilliti til okkar starfsemi auk þess sem það er mikilvægt að heyra frá forsætisráðherrunum um hvernig Norðurlöndin ætli sér að styðja við þessa þróun. Við hlökkum til að kynna frekar áherslur okkar í þessum málum á næstu mánuðum“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri.
Samtök norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð voru stofnuð árið 2018. Tilgangur þeirra er að hvetja til sameiginlegrar forystu og aðgerða í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum. Samtökin eiga virkt samtal við forsætisráðherra Norðurlanda um sjálfbærni og aðgerðir því tengt. Forstjórar þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum eru í forsvari fyrir fyrirtæki sem velta yfir 72 milljörðum evra. Hjá þeim starfa rúmlega 150 þúsund manns og hafa fyrirtækin um 260 milljónir viðskiptavina.
Forstjórarnir eru:
- Eldar Sætre, forstjóri, Equinor
- Mats Granryd, forstjóri, GSMA
- Kristin Skogen Lund, forstjóri, Schibsted
- Birna Einarsdóttir, bankastjóri, Íslandsbanki
- Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, Marel
- Tone Wille, forstjóri, Posten
- Rickard Gustafson, forstjóri, SAS
- Odd Arild Grefstad, forstjóri, Storebrand
- Jens Henriksson, forstjóri, Swedbank
- Sigve Brekke, forstjóri, Telenor Group
- Allison Kirkby, forstjóri, Telia Company
- Henrik Andersen, forstjóri, Vestas
- Svein Tore Holsether, forstjóri, Yara
- Topi Manner, forstjóri, Finnair