Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Nokkur hugur í neytendum þrátt fyrir mótbyr

Brún landsmanna virðist heldur vera að léttast þrátt fyrir talsverðan mótbyr og verulega óvissu um nærhorfur í efnahagslífinu.


Brún landsmanna virðist heldur vera að léttast þrátt fyrir talsverðan mótbyr og verulega óvissu um nærhorfur í efnahagslífinu. Áhugi á húsnæðiskaupum, utanlandsferðum og bifreiðakaupum hefur glæðst og gæti það verið vísbending um að heimilin telji sig hafa borð fyrir báru að auka við einkaneyslu þegar líður á árið í kjölfar þess að þau hertu neyslubeltið nokkuð á seinni hluta síðasta árs.

Dregið hefur úr svartsýni upp á síðkastið

Væntingavísitala Gallup (VVG), sem birt var í morgun, hækkaði um ríflega eitt stig í marsmánuði og mælist nú 91,6 stig. Vísitalan er því áfram nokkuð undir 100 stiga markinu sem skilur á milli bjartsýni og svartsýni á ástand og horfur hjá íslenskum neytendum. Þó hafa væntingar neytenda rétt nokkuð úr kútnum undanfarið frá því þær náðu lágmarki í  nóvember síðastliðnum, en þá var gildi VVG 75,8. Vísitalan hefur því hækkað um 16 stig undanfarna fjóra mánuði.

Fylgni einkaneyslu við VVG er talsverð enda hafa væntingar um efnahags- og atvinnuhorfur alla jafna talsverð áhrif á neysluhegðun heimila til skemmri tíma litið. Glöggt má sjá af myndinni að dregið hefur úr vexti einkaneyslu síðustu ársfjórðunga samhliða því að VVG hefur lækkað umtalsvert. Það gæti því hugsast að hækkun væntinga síðustu mánuði sé til marks um að botninum sé náð í svartsýni neytenda og að einkaneysla muni glæðast þegar lengra líður á árið.

Fleiri vilja ferðast, kaupa bifreið eða skipta um húsnæði

Gallup birti einnig í morgun niðurstöður úr ársfjórðungslegri mælingu á stórkaupavísitölu. Merkilegt nokk virðist öllu meiri hugur í íslenskum heimilum hvað fyrirhuguð stórkaup varðar en raunin hefur verið undanfarna fjórðunga. Stórkaupavísitalan mælist nú 69,2 stig sem er hæsta gildi hennar síðan á haustdögum 2017. Vísitalan mælir fyrirhuguð kaup landsmanna á utanlandsferðum, bifreiðum og íbúðarhúsnæði og hækka allir þessir liðir frá síðustu mælingu.

Hingað til hefur aukin svartsýni lítið bitið á ferðagleði landans. Utanlandsferðum landsmanna hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin 5 ár. Þrátt fyrir hækkun milli fjórðunga er þó vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða heldur lægri en hún var fyrir ári síðan. Tæplega 4 af hverjum 5 svarendum telja annað hvort mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir fari út fyrir landsteinana á næstunni.

Umtalsvert hefur dregið úr bifreiðakaupum landsmanna upp á síðkastið. Nýskráningar bifreiða voru til að mynda 37% færri á fyrstu tveimur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Ef marka má svör í könnun Gallup gæti þó brúnin farið að léttast eitthvað á bifreiðasölum þar sem vísitala fyrirhugaðra bifreiðakaupa hækkaði um ríflega 3 stig í nýjustu mælingunni og hefur ekki verið hærri frá lokafjórðungi ársins 2017.

Loks virðist sem meira líf gæti færst í húsnæðismarkað með hækkandi sól ef mið er tekið af svörum um fyrirhuguð húsnæðiskaup. Sú undirvísitala hækkaði um 2 stig nú í mars og hefur ekki verið hærri frá lokafjórðungi ársins 2016.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst