Brún landsmanna virðist heldur vera að léttast þrátt fyrir talsverðan mótbyr og verulega óvissu um nærhorfur í efnahagslífinu. Áhugi á húsnæðiskaupum, utanlandsferðum og bifreiðakaupum hefur glæðst og gæti það verið vísbending um að heimilin telji sig hafa borð fyrir báru að auka við einkaneyslu þegar líður á árið í kjölfar þess að þau hertu neyslubeltið nokkuð á seinni hluta síðasta árs.
Dregið hefur úr svartsýni upp á síðkastið
Væntingavísitala Gallup (VVG), sem birt var í morgun, hækkaði um ríflega eitt stig í marsmánuði og mælist nú 91,6 stig. Vísitalan er því áfram nokkuð undir 100 stiga markinu sem skilur á milli bjartsýni og svartsýni á ástand og horfur hjá íslenskum neytendum. Þó hafa væntingar neytenda rétt nokkuð úr kútnum undanfarið frá því þær náðu lágmarki í nóvember síðastliðnum, en þá var gildi VVG 75,8. Vísitalan hefur því hækkað um 16 stig undanfarna fjóra mánuði.