Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Niðurstöður aðalfundar Íslandsbanka 2019

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 21. mars kl 15:00 í höfuðstöðvum bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Friðrik Sophusson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir uppgjör bankans og helstu þætti í starfsemi hans á árinu 2018.


Þung skattbyrði skekkir samkeppnisstöðu íslenskra banka

Í ávarpi sínu vísaði Friðrik til nýlegrar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem undirstrikaði hve miklar umbætur hafi átt sér stað í íslensku bankakerfi á undanförnum árum. Hvítbókin, að sögn Friðriks, staðfesti ennfremur þunga skattbyrði íslensks bankakerfis sem hafi fyrst og fremst bitnað á íslenskum neytendum og skekkt samkeppnisstöðu íslenskra banka sem etja m.a. kappi við erlenda banka, lífeyrissjóði og nýja aðila á fjármálamarkaði í formi fjártæknifyrirtækja. Þetta sé sérstaklega bagalegt í ljósi þess að ríkið eigi Íslandsbanka að fullu og nær allt hlutafé í Landsbankanum. En eignarhlutur íslenska ríkisins í íslenska fjármálakerfinu er margfalt meiri en tíðkast víðast hvar í Evrópu.

Í hvítbókinni er fjallað um kosti þess að selja Íslandsbanka og ljóst að til mikils væri að vinna fyrir íslenska skattgreiðendur að slík sala fari vel fram. Jafnframt væri erlent eignarhald eða skráning á erlendan og innlendan markað æskileg. Það sé hinsvegar í höndum eigandans, íslenska ríkisins, að ákveða slíkt og afar mikilvægt að söluferlið verði sanngjarnt og gagnsætt.

Friðrik bar upp tillögur til aðalfundar, sem m.a. fólu í sér greiðslu arðs að fjárhæð 5,3 milljörðum króna sem er í takt við arðgreiðslustefnu bankans, breytingu á starfskjarastefnu, samþykktum og stjórn bankans. Að lokum þakkaði Friðrik Helgu Valfells fyrir gott samstarf í stjórn, óskaði henni velfarnaðar og jafnframt bauð Tómas Má Sigurðsson velkominn í hennar stað.

Stafræn þróun í forgangi hjá bankanum á árinu

Birna Einarsdóttir, bankastjóri lýsti yfir ánægju með afkomu bankans á árinu 2018 sem skilaði hagnaði upp á 10,6 milljarða króna. Góður gangur hafi verið hjá móðurfélaginu og Íslandssjóðum þar sem þóknanatekjur hafi aukist um 6% á milli ára. Auk þess hafi bankinn stutt dyggilega við vöxt í hagkerfinu með útlánaaukningu upp á 12% á árinu.

Birna sagði fjárfestingu í grunnstoðum bankans hafa náð hámarki á árinu þegar innleiðingu lauk á nýju grunnkerfi fyrir greiðslumiðlun og innlán sem sé stærsta tækniverkefni bankans frá upphafi. Bankinn sé farinn að njóta góðs af uppbyggingu fyrri ára og hefur nýtt tæknilag og samstarf við fjártæknifyrirtæki nýst afar vel við þróun á nýjum stafrænum lausnum fyrir viðskiptavini. Fjölmargar stafrænar nýjungar hafi verið kynntar á árinu sem hlotið hafi góðar viðtökur viðskiptavina en Íslandsbanki mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu, sjötta árið í röð. Birna greindi ennfremur frá því að frekari viðbóta í stafrænni þjónustu væri að vænta enda sé þessi starfsemi í algjörum forgangi hjá bankanum.

Birna sagði stöðu bankans afar sterka og að farsæl fjármögnun á skuldabréfamörkuðum og hátt innlánahlutfall hafi skilað traustri lausafjárstöðu í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Eiginfjárstaðan sé sömuleiðis sterk í alþjóðlegum samanburði auk þess sem áhætta bankans hafi haldist hófleg og vanskilahlutfall lágt. Að lokum tilkynnti Birna um mótun á nýrri stefnu fyrir bankann sem taki mið af breyttum bankaheimi og stöðu Íslandsbanka í samfélaginu sem muni skila sér í enn betri banka fyrir viðskiptavini hans.

Niðurstöður aðalfundar

Tillögur þær sem lágu fyrir fundinum má finna á heimasíðu félagsins: https://www.islandsbanki.is/is/frett/adalfundur-islandsbanka

1.    Staðfesting ársreiknings fyrir árið 2018

Aðalfundur samþykkti endurskoðaða ársreikninga samstæðu félagsins vegna ársins 2018.

2.    Skýrsla stjórnar um starfsemi bankans árið 2018

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka flutti skýrslu stjórnar um starfsemi bankans árið 2018.

3.    Staðfesting ársreiknings fyrir árið 2018

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka kynnti uppgjör bankans og helstu þætti starfsemi hans á árinu 2018 og var ársreikningur staðfestur.

4.    Tillaga um greiðslu arðs og ráðstöfun hagnaðar bankans á árinu 2018

Samþykkt var að 5,3 milljarðar króna af hagnaði ársins 2018 yrðu greiddir í arð til hluthafa. Greiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2018 og er í samræmi við langtímastefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall. Stjórn bankans má kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.

5.    Kosning stjórnar- og varamanna

Í stjórn bankans voru endurkjörin: Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason, Heiðrún Jónsdóttir og Friðrik Sophusson, sem einnig var endurkjörinn formaður stjórnar. Tómas Már Sigurðsson var kjörinn nýr í stjórn í stað Helgu Valfells, sem óskaði ekki eftir endurkjöri. Herdís Gunnarsdóttir og Pálmi Kristinsson voru kjörin til áframhaldandi setu í varastjórn bankans.

6.    Kosning endurskoðunarfélags

Samþykkt var að Ernst & Young yrði áfram endurskoðunarfélag bankans til næsta aðalfundar.

7.    Tillaga um þóknun til stjórnar fyrir næsta kjörtímabil

Samþykkt var tillaga um laun stjórnarmanna og varamanna.

8.    Tillaga um starfskjarastefnu

Samþykkt var breytt starfskjarastefna fyrir bankann.

9.    Tillaga um breytingu á samþykktum bankans

Breytingartillaga á 8. grein samþykkta bankans var samþykkt og verður hún eftirleiðis svohljóðandi:

Hluthafafundi skal boða lengst fjórum vikum fyrir fund og skemmst viku fyrir fund, nema boða skal til aðalfundar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

Stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins skal alltaf boða á hluthafafundi félagsins, svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfundi félagsins.

10. Önnur mál

Engin önnur mál voru löglega borin upp á fundinum.

Önnur gögn frá aðalfundi má finna á https://gamli.islandsbanki.is/adalfundur og á vef fjárfestatengsla Íslandsbanka, www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl  

Hægt er að nálgast skýrslur Íslandsbanka fyrir árið 2018 á vef bankans, https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/arsskyrsla-islandsbanka-2018

Viðhengi

Dagskrá aðalfundar 2019

Ávarp stjórnarformanns aðalfundar 2019

Fundargerð aðalfundar 2019

Kynning bankastjóra aðalfundar 2019

Samþykktir aðalfundur 2019

Starfskjarastefna aðalfundur 2019

Tillögur til aðalfundar 2019

Ársreikningursamstaeðu aðalfundar

Ferilskrár framboð til stjórnar aðalfundur 2019

Nánari upplýsingar veita


Gunnar Magnússon

Fjárfestatengsl


Senda póst
440 4665

Edda Hermannsdóttir

Samskiptastjóri


Senda póst
440 4005