Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem Finnur Árnason, stjórnarformaður, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir starfsemi og afkomu bankans á árinu 2022. Ársreikningur bankans var samþykktur sem og tillaga um greiðslu arðs að fjárhæð 6,15 krónur á hlut, sem jafngildir um 12,3 milljarða króna. Ákvað fundurinn að Ernst & Young ehf. gegni áfram hlutverki sínu sem endurskoðandi Íslandsbanka.
Sjálfkjörið var í stjórn bankans og stöður varamanna án sérstakrar atkvæðagreiðslu. Í stjórn Íslandsbanka sitja því nú eftirfarandi sjö stjórnarmenn:
- Agnar Tómas Möller
- Anna Þórðardóttir
- Ari Daníelsson
- Finnur Árnason
- Frosti Ólafsson
- Guðrún Þorgeirsdóttir
- Valgerður Hrund Skúladóttir
Finnur Árnason var endurkjörinn formaður stjórnar.
Varamenn í stjórn Íslandsbanka eru:
- Herdís Gunnarsdóttir
- Páll Grétar Steingrímsson
Samþykkt var tillaga stjórnar um þóknun stjórnarmanna og laun varamanna sem og tillögur stjórnar um breytingar á starfskjarastefnu bankans og starfsreglum tilnefningarnefndar. Jafnframt voru samþykktar tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum bankans sem endurspegla heimild skilavalds Seðlabanka Íslands til skilaaðgerða í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja nr. 70/2020.
Þá samþykkti aðalfundur tillögu stjórnar um heimild stjórnar til að kaupa fyrir hönd bankans allt að 10% af hlutafé hans. Heimild þessi skal nýtt í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum, t.d. með útboðsfyrirkomulagi, enda sé jafnræðis hluthafa gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum.
Í meðfylgjandi skjali er nánar greint frá niðurstöðum fundarins.