Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Niðurstöður aðalfundar Íslandsbanka 2018

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 22. mars kl 15:00 í höfuðstöðvum bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi.


Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 22. mars kl 15:00 í höfuðstöðvum bankans að Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Friðrik Sophusson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir uppgjör bankans og helstu þætti starfsemi hans á árinu 2017.

Árið 2017 greiddi bankinn 9,5 milljarða króna í skatta og þar af námu bankaskattur og aðrir sértækir skattar 4,5 milljörðum króna. Friðrik gagnrýndi stjórnvöld fyrir að hafa ekki afnumið bankaskatt eins og lagt hafði verið upp með þegar hann var settur á árið 2010. Skatturinn veiki samkeppnisstöðu íslenskra banka sem sé bagalegt nú þegar samkeppni hafi aldrei verið meiri frá íslenskum sem og erlendum fjártæknifyrirtækjum og öðrum skattlausum aðilum er stunda skuggabankastarfsemi á Íslandi.

Friðrik fór jafnframt yfir aðgerðir Íslandsbanka í kjölfar umræðu um kynbundna mismunun. Hann sagði frá „barbershop“ vinnustofum í bankanum og öðrum fundum þar sem bankastjóri og framkvæmdastjórar hefðu opnað umræðuna um kynbundna mismunun. Friðrik áréttaði að slík mismunun yrði ekki umborin með neinum hætti í Íslandsbanka og hvatti önnur fyrirtæki til að taka fast á þessum málum. Bankinn væri jafnframt staðráðinn í að uppfylla skilyrði laga um jafnlaunavottun til að tryggja jafna stöðu kynjanna.

Ár uppbyggingar en jafnframt góður vöxtur og arðsemi

Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir rekstur bankans á árinu 2017. Bankinn hafi skilað góðri afkomu með 13,2 milljarða króna hagnaði eftir skatta og arðsemi af reglulegri starfsemi hafi verið 10,3% sem sé í takt við væntingar bankans. Birna lýsti yfir ánægju með góðan vöxt á útlánahliðinni þar sem lánasafn bankans hafi vaxið um 9,8% auk þess að þóknanatekjur móðurfélags hafi aukist á milli ára. Birna nefndi að bankinn stæði fjárhagslega mjög vel og væru allir áhættumælikvarðar vel innan viðmiða, vanskilalán hafi lækkað í 1% auk þess sem lausa- og eiginfjárhlutföll bankans væru áfram sterk. 

Sagði Birna árið 2017 hafa verið tíma uppbyggingar hjá Íslandsbanka en bankinn hafi klárað flutning í nýjar höfuðstöðvar, breytt skipulagi, fækkað útibúum og unnið að nýju grunnkerfi fyrir greiðslumiðlun og innlán. Jafnframt hafi verið haldið áfram að undirbúa bankann fyrir breytt alþjóðlegt regluverk, tæknilegar áskoranir og að takast á við nýja keppinauta á markaði. Sterkar grunnstoðir muni tvímælalaust gefa bankanum aukinn kraft í að sækja fram á næstu árum og tækifæri til að veita viðskiptavinum bankans enn betri þjónustu með sérstaka áherslu á stafrænar lausnir. Íslandsbanki mældist fimmta árið í röð hæstur íslenskra banka í Íslensku ánægjuvoginni ásamt því að vera valinn besti bankinn á Íslandi árið 2017 að mati The Banker.

Greindi Birna einnig frá því að fjármögnun bankans hafi gengið mjög vel á árinu en bankinn hafi viðhaldið stöðu sinni sem leiðandi útgefandi sértryggðra skuldabréfa á Íslandi með 42 milljarða króna útgáfu. Á erlendum vettvangi hafi Íslandsbanki verið fyrstur íslenskra fjármálastofnana til að gefa út víkjandi skuldabréf erlendis frá árinu 2008 og stigið þar með stórt skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan. Mikil eftirspurn hafi verið frá erlendum fjárfestum sem undirstriki áhuga þeirra og traust á bankanum. Lánshæfismat bankans hafi einnig fengið hækkun á árinu í BBB+ / A-2 frá S&P Global Ratings og BBB / F3 frá Fitch Ratings en Íslandsbanki er eini bankinn á Íslandi með tvö alþjóðleg lánshæfismöt.

Niðurstöður aðalfundar

Tillögur þær sem lágu fyrir fundinum má finna á heimasíðu félagsins.

  1. Staðfesting ársreiknings fyrir árið 2017
    Aðalfundur samþykkti endurskoðaða ársreikninga samstæðu félagsins vegna ársins 2017.
  2. Ákvörðun um greiðslu arðs og ráðstöfun hagnaðar bankans á árinu 2017
    Samþykkt var að 13 milljarðar króna af hagnaði ársins 2017 yrðu greiddir í arð til hluthafa en bankinn hefur þá greitt um 76 milljarða króna til hluthafa í arð frá árinu 2013. Stjórn bankans var einnig fengin heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.
  3. Kosning stjórnar- og varamanna
    Í stjórn bankans voru endurkjörin: Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason, Heiðrún Jónsdóttir, Helga Valfellsdóttir og Friðrik Sophusson, sem einnig var endurkjörinn formaður stjórnar. Herdís Gunnarsdóttir og Pálmi Kristinsson voru kjörin til áframhaldandi setu í varastjórn bankans.
  4. Kosning endurskoðunarfélags
    Samþykkt var að Ernst & Young yrði áfram endurskoðunarfélag bankans til næsta aðalfundar.
  5. Ákvörðun um þóknun til stjórnar fyrir næsta kjörtímabil
    Samþykktar voru breytingar á launum stjórnarmanna og varamanna
  6. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu
    Starfskjarastefna bankans var samþykkt óbreytt.
  7. Önnur mál
    Engin önnur mál voru löglega borin upp á fundinum. 

Fundargerð aðalfundar

Önnur gögn frá aðalfundi má finna á www.islandsbanki.is/adalfundur og á vef fjárfestatengsla Íslandsbanka, www.islandsbanki.is/ir 

Hægt er að nálgast skýrslur Íslandsbanka fyrir árið 2017 á vef bankans.