Neytendur ekki svartsýnni í 6 ár
Íslenskir neytendur hafa ekki mælst svartsýnni til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu í 6 ár. Óróleiki á vinnumarkaði og COVID-19 veiran virðast spila þar stórt hlutverk. Minnkandi væntingar benda til þess að draga muni úr einkaneysluvexti á komandi mánuðum.
Væntingavísitala Gallup (VVG), sem birt var í morgun, lækkaði um tæplega 20 stig í febrúarmánuði og mælist nú 75,3 stig. Vísitalan hefur ekki mælst lægri í rúm 6 ár, eða frá því í nóvember 2013. Auk þess hefur væntingavísitalan verið undir 100 stiga jafnvægisgildinu frá því í júlí 2018. Því má segja að íslenskir neytendur hafa ekki verið svartsýnni síðastliðin 6 ár og nú.
Órói á vinnumarkaði og COVID-19 lykilástæða aukinnar svartsýnni
Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækka umtalsvert á milli mánaða og eru undir 100 stiga jafnvægisgildinu. Sú undirvísitala sem mælist lægst er mat neytenda á efnahagslífinu og næst á eftir eru væntingar neytenda til næstu 6 mánaða.
Ætla má að helstu ástæður að svartsýnni neytenda tekur dýfu í mánuðinum eru vaxandi órói á íslenskum vinnumarkaði síðustu vikurnar sem ekki sér fyrir endann á auk COVID-19 veirunnar sem virðist vera að dreifa sér nokkuð ört um heimsbyggðina þessar vikurnar. Hlutabréfamarkaðir í öllum löndum Evrópu hríðlækkaði við opnun markaða í gær vegna frétta af útbreiðslu veirunnar.
Útlit fyrir hægari vöxt einkaneyslu
Væntingavísitalan hefur talsvert forspárgildi fyrir skammtímaþróun einkaneyslu. Eins og sjá má af myndinni hefur hægt á vexti einkaneyslu undanfarin misseri samhliða því að væntingar almennings hafa dökknað. Þótt ekki sé hægt að draga sterkar ályktanir af mánaðarsveiflum í VVG bendir þróunin það sem af er ári fremur til þess að vöxtur einkaneyslu verði hægur, ef nokkur, á fyrsta fjórðungi ársins. Það fer svo væntanlega eftir því hvort horfur um þróun COVID-19 batna og staðan á vinnumarkaði róast með hækkandi sól hvort einkaneysluvöxturinn glæðist að nýju þegar líður á þetta ár.