Við frekari skoðun á innlendri kortaveltu eftir útgjaldaliðum má sjá flesta flokka hækka töluvert bæði milli ára og mánaða, enda má segja að uppsöfnuð þörf hafi verið til staðar eftir neysluminni mánuði í samkomubanni. Þar má nefna áfengissölu sem jókst um 46% milli ára. Líklega má rekja þann vöxt til takmarkana á opnunartíma veitingastaða þar sem áfengisneyslan færðist yfir í heimahús. Einnig virðast Íslendingar hafa nýtt sér frítíma sinn í samkomubanni í allskyns framkvæmdir þar sem kortavelta í byggingavöruverslunum jókst þá mánuði sem samkomubann varði ásamt kaupum á raf- og heimilistækjum.
Íslendingar strauja kortin sín innanlands í sumar
Samkvæmt kortaveltutölum Seðlabankans skrapp heildarvelta erlendra greiðslukorta í maí saman um 96% milli ára. Það kemur ekki á óvart enda lítið um ferðamenn hér á landi og samkvæmt tölum Ferðamálastofu var fækkun ferðamanna 99% í maí milli ára.
Væntanlega eru flest heimili farin að skipuleggja sumarfrí sitt innanlands þetta árið þar sem enn er veruleg óvissa um hversu hratt ferðalög á milli landa færast í eðlilegt horf. Íslendingar eyddu í kringum 180 mö.kr. erlendis í fyrra og ætla má að töluverðum hluta af þessari upphæð muni Íslendingar eyða hérlendis í ár. Það mun vissulega duga skammt til að vega gegn skorti á erlendum ferðamönnum en gæti reynst ýmsum ferðaþjónustuaðilum mikil búbót til að komast í gegnum harðasta skellinn.
Gögn frá Rannsóknarsetri verslunarinnar um innlenda kortaveltu gististaða styðja þessa skoðun okkar. Hún jókst um nær helming á milli ára ásamt því að innlend kortavelta á bílaleigum tvöfaldaðist á sama tímabili. Mest var aukningin á netverslunum og má því ætla að landsmenn séu farnir að huga að sumarfríi og kaupa sér ferðir fyrir tímann.
Samdráttur í einkaneyslu á árinu
Þróun á kortaveltu er einn gagnlegasti hagvísirinn fyrir mat á þróun einkaneyslu. Þó maímánuður sé talsvert skárri neyslumánuður en mánuðirnir á undan er samdráttur milli ára þó töluverður. Þetta kemur ekki á óvart, atvinnuleysi stefnir í að verða meira hér á landi en við höfum vanist undanfarna áratugi auk þess sem fólk á það til að halda að sér höndum á óvissutímum sem þessum.