Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Neysla eykst innanlands eftir samkomubann

Kortavelta í maí dróst saman að raungildi milli ára en jókst á milli mánaða. Tölurnar bera með sér að neysla landans er farin að glæðast á ný eftir samkomubannið í mars og apríl. Landsmenn nýttu sér aukið svigrúm eftir tilslakanir á samkomubanni og versluðu innlendar vörur og þjónustu í meira mæli. Þrátt fyrir að kortavelta sé að ná sér nokkuð á strik er ljóst að einkaneysla verður fyrir miklum skelli á árinu.


Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans nam velta innlendra greiðslukorta alls tæplega 86 mö.kr. í maí síðastliðnum. Það jafngildir 7% minni veltu en á sama tíma ári áður en 36% aukningu í veltu frá aprílmánuði. Velta debetkorta jókst um 0,7% milli ára en velta kreditkorta skrapp saman um ríflega 15% á sama tíma. Eftir að samkomubann stóð sem hæst í mars og apríl er ljóst að neysla landans er farin að aukast á ný en þó er samdráttur á milli ára og ljóst að áhrifa COVID-19 muni gæta í einkaneyslu á næstunni.

Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga skrapp velta greiðslukorta heimila saman um 9% í maímánuði frá sama mánuði árið 2019. Það er töluvert minni samdráttur milli ára en var í mars og apríl þegar samdrátturinn var að meðaltali ríflega 20% sem svipast til kreppuársins mikla 2009. Vöxtur í veltu innanlands var um 3% en samdráttur í veltu utan landsteinanna um 60%. Áhrifa COVID-19 gætir bersýnilega í tölunum og ferðabann víðsvegar um heiminn endurspeglast í gífurlegum samdrætti í erlendri kortaveltu.

Neysluglaðir landsmenn að loknu samkomubanni

Eins og áður kom fram var vöxtur í veltu innanlands ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga. Áhugavert er að skoða hvaða vörur landsmenn eyddu peningunum sínum í hérlendis í maímánuði eftir að tilslakanir urðu á samkomubanni. Samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar jókst innlend kortavelta sem tengist verslun og þjónustu um 13,6% í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og um 38% frá fyrri mánuði. Eftir frekar dapra neyslumánuði í mars og apríl þegar samkomubann stóð sem hæst og faraldur COVID-19 var í hámarki má sjá talsverða breytingu á neysluhegðun. Ýmis þjónusta líkt og snyrtistofur, sjúkraþjálfun og tannlækningar opnuðu á nýjan leik og er nokkuð augljós skýring á þessari breytingu. Það kemur því ekki á óvart að kortavelta snyrti- og heilsutengdrar þjónustu jókst um 86% á milli ára og lækna- og tannlæknaþjónustu um 64%.

Við frekari skoðun á innlendri kortaveltu eftir útgjaldaliðum má sjá flesta flokka hækka töluvert bæði milli ára og mánaða, enda má segja að uppsöfnuð þörf hafi verið til staðar eftir neysluminni mánuði í samkomubanni. Þar má nefna áfengissölu sem jókst um 46% milli ára. Líklega má rekja þann vöxt til takmarkana á opnunartíma veitingastaða þar sem áfengisneyslan færðist yfir í heimahús. Einnig virðast Íslendingar hafa nýtt sér frítíma sinn í samkomubanni í allskyns framkvæmdir þar sem kortavelta í byggingavöruverslunum jókst þá mánuði sem samkomubann varði ásamt kaupum á raf- og heimilistækjum.

Íslendingar strauja kortin sín innanlands í sumar

Samkvæmt kortaveltutölum Seðlabankans skrapp heildarvelta erlendra greiðslukorta í maí saman um 96% milli ára. Það kemur ekki á óvart enda lítið um ferðamenn hér á landi og samkvæmt tölum Ferðamálastofu var fækkun ferðamanna 99% í maí milli ára.

Væntanlega eru flest heimili farin að skipuleggja sumarfrí sitt innanlands þetta árið þar sem enn er veruleg óvissa um hversu hratt ferðalög á milli landa færast í eðlilegt horf. Íslendingar eyddu í kringum 180 mö.kr. erlendis í fyrra og ætla má að töluverðum hluta af þessari upphæð muni Íslendingar eyða hérlendis í ár. Það mun vissulega duga skammt til að vega gegn skorti á erlendum ferðamönnum en gæti reynst ýmsum ferðaþjónustuaðilum mikil búbót til að komast í gegnum harðasta skellinn.

Gögn frá Rannsóknarsetri verslunarinnar um innlenda kortaveltu gististaða styðja þessa skoðun okkar. Hún jókst um nær helming á milli ára ásamt því að innlend kortavelta á bílaleigum tvöfaldaðist á sama tímabili. Mest var aukningin á netverslunum og má því ætla að landsmenn séu farnir að huga að sumarfríi og kaupa sér ferðir fyrir tímann.

Samdráttur í einkaneyslu á árinu

Þróun á kortaveltu er einn gagnlegasti hagvísirinn fyrir mat á þróun einkaneyslu. Þó maímánuður sé talsvert skárri neyslumánuður en mánuðirnir á undan er samdráttur milli ára þó töluverður. Þetta kemur ekki á óvart, atvinnuleysi stefnir í að verða meira hér á landi en við höfum vanist undanfarna áratugi auk þess sem fólk á það til að halda að sér höndum á óvissutímum sem þessum.

Hagvísar næstu mánaða munu gefa okkur frekari vísbendingar um þróun einkaneyslunnar eftir faraldurinn en ljóst er að samkomubann, ferðatakmarkanir og dökkar efnahagshorfur til skemmri tíma muni hafa talsverð áhrif á einkaneysluna á þessu ári. Við í Greiningu gerum ráð fyrir 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári eftir myndarlegan vöxt undanfarin ár. Góðar líkur eru hins vegar að mati okkar á því að einkaneysla taki við sér á nýjan leik strax á næsta ári.

Skrá mig á póstlistann

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband