Vöruskiptahalli í ágúst var rúmlega 36 ma.kr. samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Frá aldamótum hefur hallinn aðeins einu sinni verið meiri í krónum talið, en það var í júní síðastliðnum. Í júní litaðist hallinn hins vegar af óvenju miklum flugvélainnflutningi en hallinn í ágúst á sér fleiri rætur á innflutningshliðinni.
Næstmesti vöruskiptahalli frá aldamótum
Vöruskiptahalli í ágúst var sá næstmesti frá aldamótum. Mikill innflutningsvöxtur vegna aukinnar neyslu og fjárfestingar skýrir mikinn halla þessa dagana. Óhagstæð utanríkisviðskipti undanfarna mánuði eru áhrifaþáttur í veikingu krónu frá miðju ári.
Innflutningsvöxtur á sér ýmsar rætur
Alls nam vöruinnflutningur í ágústmánuði ríflega 91 ma.kr. Var innflutningurinn nærri helmingi meiri í krónum talið en í sama mánuði í fyrra þrátt fyrir styrkingu krónu um nærri 8% í millitíðinni. Öfugt við júní, þegar flugvéla- og skipainnflutningur upp á ríflega 23 ma.kr. setti mikinn svip á tölurnar, á þessi mikli innflutningur sér rót í ýmsum undirliðum eins og sjá má á myndinni.
Má þar nefna að innflutningur almennra fjárfestingarvara (20,6 ma.kr.) hefur ekki verið meiri á öldinni. Þá hefur hrávöruinnflutningur vaxið umtalsvert í krónum talið og þar er skýringin líklega bæði aukið innflutningsmagn og veruleg verðhækkun á slíkum vörum á heimsmarkaði undanfarið.
Fólksbílainnflutningur nam 6,2 mö.kr. og kom fram í nýlegri fréttatilkynningu Bílgreinasambandsins að sala nýrra fólksbíla í mánuðinum var tæplega 45% meiri en á sama tíma í fyrra. Var þar sér í lagi nefnt að sala til bílaleigufyrirtækja hefði tvöfaldast á milli ára. Einnig hefur eldsneytisinnflutningur aukist verulega síðustu mánuði með vaxandi flugumferð og hærra heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Loks hefur innflutningur neysluvara sótt í sig veðrið og var á heildina litið 16% meiri í krónum talið í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Útflutningur hefur líka sótt í sig veðrið þótt sá vöxtur dugi skammt gegn innflutningsvexti þessa dagana. Vöruútflutningur nam alls tæpum 56 mö.kr. í ágústmánuði sem jafngildir nærri 27% aukningu í krónum talið á milli ára þrátt fyrir styrkingu krónu eins og áður er nefnt. Útflutningur álafurða hefur sótt í sig veðrið að undanförnu enda hefur heimsmarkaðsverð á áli hækkað um rúmlega 47% undanfarið ár vegna vaxandi eftirspurnar og hnökra á framboði. Verðið í dag er raunar það hæsta í áratug í kjölfar frétta af hertum regluramma kínverskra álvera og byltingu í Afríkuríkinu Gíneu þaðan sem báxít til álvinnslu kemur að hluta.
Myndin er blendnari þegar kemur að sjávarafurðum og hefur útflutningsverðmæti þeirra minnkað síðustu mánuði eftir allmyndarlegt vor í kjölfar loðnuvertíðar. Í ágústmánuði nam útflutningur sjávarafurða riflega 19 mö.kr. sem samvarar u.þ.b. 5% lækkun í krónum talið milli ára. Samkvæmt frétt Hagstofu skrifast sú lækkun á minna verðmæti frystra flaka og fiskimjöls en aukið verðmæti í ferskum fiski og frystum vó á móti. Verð á sjávarafurðum átti nokkuð undir högg að sækja á erlendum mörkuðum eftir að Kórónuveirufaraldurinn skall á en er heldur farið að taka við sér að nýju. Þá hefur verð á loðnu hækkað verulega sem veit á gott ef aftur næst þokkaleg vertíð í vetur.
Áhrifaþáttur í veikingu krónu
Við teljum óhagstæð vöru- og þjónustuviðskipti skýra gengisþróun krónu síðustu vikur að töluverðum hluta. Ljóst er að innlend eftirspurn hefur tekið betur við sér en flestir þorðu að vona upp á síðkastið. Því fylgir hins vegar vaxtarkippur í innflutningi og raunar virðist neysluaukningin að stórum hluta vera í innfluttum vörum og þjónustu. Innlend fjárfesting er einnig innflutningsfrek þessa dagana þar sem vöxtur hennar er að talsverðum hluta í auknum kaupum á farartækjum sem eðli máls samkvæmt endurspeglast að fullu í innflutningi. Á sama tíma hefur komið bakslag í þann bata ferðaþjónustunnar sem varð eftir tilslökun á landamærum og aukna bólusetningu hérlendis sem erlendis í sumarbyrjun.
Ris Delta-bylgju faraldursins í júlílok sló á eftirspurn erlendra ferðamanna og dempaði í kjölfarið væntingar um komandi styrkingu krónunnar til skemmri tíma litið. Á sama tíma dró úr innflæði gjaldeyris vegna verðbréfafjárfestinga erlendar aðila, en slík fjárfesting var býsna myndarleg á öðrum ársfjórðungi.
Þetta þrennt: Viðsnúningur í væntingum til þjónustuútflutnings, mikill vöruskiptahalli og lítið fjárfestingainnflæði, hefur trúlega lagst á eitt við að orsaka þá lækkun í gengi krónu sem orðin er frá miðju sumri. Þegar þetta er ritað kostar evran 150,6 krónur og Bandaríkjadollarinn 127,1 krónur. Í júnílok kostaði evran hins vegar 146,6 krónur og dollarinn 124 krónur. Krónan hefur því veikst um tæp 3% gagnvart evru og ríflega 2% gagnvart dollara það sem af er þriðja ársfjórðungi.
Ekki er víst að krónan taki við sér alveg á næstunni. Horfur um ferðamannastraum hingað til lands allra næstu mánuði hafa versnað og lítið lát virðist á vöruskiptahallanum enda neysla landsmanna í uppsveiflu og fjárfesting líkleg til að verða veruleg næsta kastið. Sem fyrr erum við þó þeirrar skoðunar að þegar ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný muni gjaldeyrisinnflæðið fljótt vega upp útflæði og krónan taka að styrkjast á nýjan leik. Þar spilar framgangur faraldursins á komandi vetri og í kjölfarið ferðavilji í þeim löndum sem ferðamenn til Íslands hafa helst komið frá stórt hlutverk.