Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarlegur viðskiptaafgangur og batnandi erlend staða á 3. fjórðungi

Viðskiptaafgangur var rúmir 23 ma.kr. á 3. Ársfjórðungi þar sem myndarlegur þjónustuafgangur vó þyngra en halli á öllum öðrum undirliðum. Horfur eru þó á talsverðum viðskiptahalla á árinu í heild. Erlend staða batnaði að nýju á tímabilinu eftir talsverða rýrnun undanfarna fjórðunga og nam tæpum 24% af landsframleiðslu í septemberlok.


Viðskiptaafgangur á 3. ársfjórðungi var 23,1 ma.kr. Var fjórðungurinn sá fyrsti frá 3. fjórðungi í fyrra þar sem afgangur var af utanríkisviðskiptum en fyrir ári síðan var afgangurinn 29 ma.kr. Háönn ferðaþjónustunnar skiptir sköpum um hagfelldan viðskiptajöfnuð á þessum fjórðungi enda hefur hann ávallt staðið upp úr hvað viðskiptaafgang varðar undanfarinn áratug.

Þegar lá fyrir, eins og við fjölluðum nýlega um, að afgangur af þjónustujöfnuði nam 110 ma.kr. og vöruskiptahalli var 71 ma.kr. á 3. fjórðungi. Í tölum Seðlabankans bætast svo við jöfnuður frumþáttatekna (6,5 ma.kr. halli) og hrein rekstrarframlög milli landa (9,9 ma.kr. halli).

Álverin setja svip á þáttatekjujöfnuð

Jöfnuður frumþáttatekna endurspeglar launagreiðslur og fjármangstekjur/gjöld milli landa. Undanfarna fjórðunga hefur jöfnuðurinn litast af góðri afkomu álveranna vegna hás álverðs. Þar sem álverin eru alfarið í erlendri eigu færist hagnaður þeirra sem fjármagnsgjöld til útlanda í bókum Seðlabankans. Þó er vitaskuld ekki neikvætt fyrir þjóðarbúið að rekstur álvera gangi vel enda er til að mynda hluti tekna íslenskra orkufyrirtækja tengdur álverði og hátt álverð kemur fram á tekjuhlið vöruskiptajafnaðar.

Halli á jöfnuði frumþáttatekna var 6,5 ma.kr. sem fyrr segir. Verulega dró úr hallanum milli fjórðunga en hann var 23 ma.kr. á 2. fjórðungi og hafði þá aldrei verið meiri. Eins og sjá má af myndinni vegur þyngst halli á fjármagnsliðum vegna beinnar fjárfestingar, sem skrifast af stærstum hluta á fyrrgreindan hagnað álvera. Aftur á móti voru tekjur af verðbréfafjárfestingu 8,5 ma.kr. umfram gjöld og launagreiðslur erlendis frá voru liðlega 1,2 ma.kr. umfram launagreiðslur til aðila erlendis.

Gjaldeyrisforðinn aflar aukinna vaxtatekna

Þá skilaði gjaldeyrisforði Seðlabankans 1,4 ma.kr. vaxtatekjum. Forðinn er að stærstum hluta varðveittur í innstæðum og skuldaskjölum með mjög stuttan binditíma. Á tíma lágra alþjóðlegra vaxta voru vaxtatekjur af forðanum ansi rýrar en hækkandi vextir í helstu gjaldmiðlum skila sér í þessari búbót fyrir rekstrareikning bankans og sömuleiðis viðskiptajöfnuðinn.

Rekstrarframlög milli landa voru neikvæð um 9,9 ma.kr. á 3. fjórðungi. Þessi liður endurspeglar peningagjafir milli landa, greiðslur vegna þátttöku í alþjóðastofnunum og hjálparstarfi og fleira þessa háttar. Hann sveiflast fremur lítið milli tímabila og hefur nær ávallt verið neikvæður undanfarna áratugi eins og sjá má af myndinni.

Talsverður halli á árinu 2022 í heild

Það sem af er ári nemur viðskiptahalli tæplega 65 ma.kr. Er það þrefalt meiri halli en á sama tímabili í fyrra en af svipaðri stærðargráðu og á árinu 2021 í heild. Við spáðum í september að viðskiptahalli myndi nema u.þ.b. 57 ma.kr. í ár. Frá því sú spá var birt hafa birst vöruskiptatölur fyrir september og október sem sýna mun meiri vöruskiptahalla en við væntum. Ljóst virðist því að viðskiptahalli ársins verður nokkru meiri en við spáðum í september. Að sama skapi gæti orðið lengra í að afgangur mælist af viðskiptajöfnuði en við væntum í september þótt enn sem fyrr gerum við ráð fyrir að utanríkisviðskipti nái betra jafnvægi þegar frá líður en verið hefur.

Lítilsháttar bati á erlendri stöðu þjóðarbúsins

Seðlabankinn birti samhliða greiðslujafnaðartölunum yfirlit yfir erlenda stöðu þjóðarbúsins í septemberlok. Erlendar eignir umfram skuldir námu 863 ma.kr. sem samsvarar tæplega 24% af vergri landsframleiðslu (VLF). Erlendar eignir námu 4.875 ma.kr. og erlendar skuldir 4.011 ma.kr. í septemberlok.

Á fjórðungnum batnaði erlenda staðan um 60 ma.kr. þrátt fyrir mótvind á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Fjármagnsviðskipti bættu stöðuna um 62 ma.kr. á tímabilinu, en þau endurspegla fjárfestingarhreyfingar og breytingar á skuldum milli landa. Gengis- og verðbreytingar rýrðu hins vegar stöðuna um 7 ma.kr. á sama tíma. Skrifast það á fyrrnefnda ágjöf á erlendum mörkuðum, en verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um 6,5% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 7,1%. Þá lækkaði gengi krónu um 1,7% sem leiddi til samsvarandi hækkunar á virði eigna sem skulda í erlendum gjaldmiðlum, mælt í krónum.

Hlutabréf og gjaldeyrisforði vega þungt í erlendri eignastöðu

Líkt og myndin sýnir er verulegur munur á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Til að mynda var hrein hlutabréfaeign ríflega 2.000 ma.kr. í septemberlok. Sú staða endurspeglar bæði miklar eignir lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum, en einnig litla hlutdeild erlendra aðila í íslenskum hlutabréfamarkaði.

Á hinn bóginn voru hreinar erlendar skuldir í formi skuldaskjala og bankaskulda ríflega 1.400 ma.kr. í lok 3. fjórðungs. Góðu heilli var og er þó kúfurinn af þeim skuldbindingum í erlendir mynt og þar með á lægri vöxtum en krónuskuldirnar. Með hækkandi vaxtastigi erlendis er þó hætt við að fjármagnsgjöld vegna þessa skuldastabba muni hækka talsvert á næstunni. Bein fjárfesting erlendra aðila var svo 552 ma.kr. umfram slíka fjárfestingu innlendra aðila erlendis. Þar vega fyrrnefnd álver þungt ásamt annarri iðnaðarframleiðslu í erlendri eigu.

Síðast en ekki síst kemur svo gjaldeyrisforði Seðlabankans fram eignamegin í bókhaldi bankans fyrir erlendu stöðuna. Forðinn nam 886 ma.kr. í septemberlok og hafði sú fjárhæð lítið breyst á fjórðungnum. Með nokkurri einföldun má segja að efnahagsreikningur þjóðarbúsins standist nokkurn veginn á að Seðlabankanum frátöldum en að forðinn ríði baggamuninn um hreinu erlendu eignina. Bankinn skuldar þó nokkrar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum þótt megnið af forðanum sé í raun fjármagnað innanlands.

Mikilvægt að sækja ekki í gamla skuldafarið aftur

Sem fyrr segir hefur útlitið fyrir utanríkisviðskipti dökknað nokkuð undanfarna mánuði. Mikill kraftur í innlendri eftirspurn hefur þar sitt að segja en einnig hefur verðþróun á útflutningi og innflutningi innbyrðis, hin svonefndi viðskiptakjör, heldur verið óhagfelld undanfarið.

Við teljum enn sem fyrr að betra jafnvægi komist á utanríkisviðskiptin með tímanum og það, ásamt batnandi tíð á alþjóðlegum mörkuðum, ætti að stuðla að áframhaldandi sterkri erlendri stöðu þjóðarbúsins. Þar er þó ekki á vísan að róa á óvissutímum en miklu skiptir fyrir okkar opna hagkerfi með örmyntina krónu að ekki verði aftur farið í skuldasöfnun erlendis eins og tíðkaðist hér áður.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband