Hlutabréf og gjaldeyrisforði vega þungt í erlendri eignastöðu
Líkt og myndin sýnir er verulegur munur á samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins. Til að mynda var hrein hlutabréfaeign ríflega 2.000 ma.kr. í septemberlok. Sú staða endurspeglar bæði miklar eignir lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum og hlutabréfasjóðum, en einnig litla hlutdeild erlendra aðila í íslenskum hlutabréfamarkaði.
Á hinn bóginn voru hreinar erlendar skuldir í formi skuldaskjala og bankaskulda ríflega 1.400 ma.kr. í lok 3. fjórðungs. Góðu heilli var og er þó kúfurinn af þeim skuldbindingum í erlendir mynt og þar með á lægri vöxtum en krónuskuldirnar. Með hækkandi vaxtastigi erlendis er þó hætt við að fjármagnsgjöld vegna þessa skuldastabba muni hækka talsvert á næstunni. Bein fjárfesting erlendra aðila var svo 552 ma.kr. umfram slíka fjárfestingu innlendra aðila erlendis. Þar vega fyrrnefnd álver þungt ásamt annarri iðnaðarframleiðslu í erlendri eigu.
Síðast en ekki síst kemur svo gjaldeyrisforði Seðlabankans fram eignamegin í bókhaldi bankans fyrir erlendu stöðuna. Forðinn nam 886 ma.kr. í septemberlok og hafði sú fjárhæð lítið breyst á fjórðungnum. Með nokkurri einföldun má segja að efnahagsreikningur þjóðarbúsins standist nokkurn veginn á að Seðlabankanum frátöldum en að forðinn ríði baggamuninn um hreinu erlendu eignina. Bankinn skuldar þó nokkrar fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum þótt megnið af forðanum sé í raun fjármagnað innanlands.