Myndarleg hjöðnun verðbólgu í apríl

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% í apríl. Fyrir vikið lækkar ársverðbólga úr 6,8% í 6,0%. Reiknuð húsaleiga og flugfargjöld vógu þyngst til hækkunar en liðir á borð við föt og skó, ökutæki, húsgögn og heimilisbúnað vógu til lækkunar. Hjöðnun verðbólgu mun halda áfram á næstu fjórðungum samkvæmt okkar spá.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,55% í apríl samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Ársverðbólga hjaðnar úr 6,8% í 6,0% og hefur verðbólgan ekki verið minni í rúm tvö ár. Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis mælist 3,9% undanfarna 12 mánuði. Mæling aprílmánaðar er í línu við flestar spár og við spáðum 0,6% hækkun. Hækkun flugfargjalda og reiknaðrar húsaleigu voru heldur meiri en við höfðum spáð en greinilegt er að árstíðabundin hækkun flugfargjalda hefur teygt sig yfir í apríl.

Húsnæðisliðurinn enn helsti hækkunarvaldur og páskahækkun flugfargjalda teygir sig yfir í apríl

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar og hækkaði milli mánaða um 1,21% (0,35% áhrif á VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem byggir að mestu á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, um 1,67% (0,32% áhrif á VNV). Við spáðum 1,3% hækkun (0,25% áhrif á VNV). Flugfargjöld hækkuðu um 10,45% (0,20% áhrif á VNV) sem er meira en þau 7% (0,12% áhrif á VNV) sem okkar spá kvað á um. Um er að ræða árvissa hækkun flugfargjalda sem tíðkast yfir páska en þetta árið voru páskar snemma á ferðinni svo áhrifin dreifðust yfir mars og apríl.

Nýlegar hækkanir á íbúðaverði sem komið hafa fram í mælingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar endurspeglast einnig í mælingu Hagstofunnar á reiknaðri húsaleigu. Af framangreindri 1,7% hækkun milli mánaða skýrast 1,2% af hækkun á mældu íbúðaverði en 0,5% af vaxtaþætti. Líkt og í síðasta mánuði mælist hækkun á íbúðaverði milli mælinga mun meiri utan höfuðborgarsvæðisins (2,1%) en á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjölbýli hækkaði um 0,9% og sérbýli um 0,6% milli mánaða. Þar eru vafalítið meðal annars á ferð áhrif af eftirspurn Grindvíkinga eftir húsnæði í nágrannabyggðum Grindavíkur. Tólf mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs mælist nú 6,4% en hann fór lægst í tæp 2% í ágúst síðastliðnum eftir mikla hækkunarhrinu misserin á undan.

Áhrif útsöluloka fjara út og bílar lækka áfram

Athygli vekur að föt og skór lækka um 0,44% (-0,02% áhrif á VNV) eftir hækkun síðustu tveggja mánaða. Það má túlka sem svo að áhrif útsöluloka hafi komið fram að fullu. Þá er einnig athyglisvert að liðurinn kaup ökutækja lækkar um 0,41% (-0,03% áhrif á VNV). Spurn eftir nýjum bílum hefur minnkað mikið fyrstu mánuði ársins í samanburði við sama tíma í fyrra sem hefur eflaust áhrif. Ýmsar aðrar innfluttar vörur lækka einnig milli mánaða, allt frá innfluttum matvælum yfir í húsbúnað. Gæti það bent til þess að hjaðnandi verðbólga erlendis ásamt harðnandi samkeppni og fyrirsjáanlega hægari hækkun launakostnaðar á komandi árum í verslun eftir nýgerða kjarasamninga sé farið að brjótast fram í verðþróun á innfluttum vörum.

Undirliggjandi verðbólga hjaðnar

Undirliggjandi verðbólga lækkar á alla mælikvarða sem verða að teljast jákvæðar fréttir. Seðlabankinn horfir m.a. talsvert til undirliggjandi verðbólgu í aðdraganda vaxtaákvarðana þar sem hún undanskilur ýmsa sveiflukennda liði. Vissulega er þó verðbólga enn talsverð á alla mælikvarða þótt verðbólguþrýstingurinn virðist almennt fara hjaðnandi.

Horfurnar á næstunni

Ástæða myndarlegrar hjöðnunar ársverðbólgu í apríl er m.a. hve stór hækkunarmánuður apríl í fyrra var í vísitölu neysluverðs, en sá mánuður dettur út úr tólf mánaða mælingunni nú. Næstu mánuði verða þeir hækkunarmánuðir sem detta út úr ársmælingu verðbólgunnar ekki eins stórir sem veldur því að hægari taktur verður á hjöðnun ársverðbólgu. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir:

  • Maí - 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 5,9 %)
  • Júní - 0,5% hækkun VNV (ársverðbólga 5,5 %)
  • Júlí - 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 5,7 %)

Helstu óvissuþættir næstu mánuði eru m.a. áhrif breyttrar aðferðafræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu og verðþróun á íbúðarmarkaði.

Áhrif íbúðakaupa Grindvíkinga eru að koma fram á íbúðamarkaði en íbúðaverð á Suðurnesjum hefur hækkað töluvert upp á síðkastið. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu virðist einnig hafa sótt í sig veðrið nýlega. Kemur einnig brátt í ljós hvernig sumar verður í ferðaþjónustu þetta árið. Frá og með júní hættir Hagstofan að horfa til markaðsverðs og verðtryggðra vaxta við útreikning á reiknuðu húsaleigunni og byggir þess í  stað á gögnum um leiguverð. Trúlega verður breytingin til að minnka talsvert mánaðarsveiflur í þessum lið en það ræðst svo af framboði og eftirspurn á leigumarkaði hvort breytingin verður til þess að verðbólga hjaðni hægar eða hraðar en ella.

Við teljum þó allgóðar líkur á að verðbólgan haldi áfram að hjaðna út árið þótt sú hjöðnun verði mun hægari en við höfum séð undanfarið ár eða svo. Gæti verðbólgan mælst í kring um 5% undir lok árs og þar með helmingi minni en hún fór hæst fyrir rúmu ári síðan.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Geiningu


Hafa samband