Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,7% í febrúar og var óbreytt frá mánuðinum á undan. Atvinnuleysi mælist yfirleitt meira yfir vetrarmánuðina og þá sérstaklega í janúar og febrúar, en hjaðnar svo alla jafna þegar líða tekur nær sumri.
Á flestum stöðum á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysi á milli mánaða. Mest mælist það á Suðurnesjum en þar dróst það þó saman úr 6,0% í 5,8% í febrúar. Næst mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu. Þar mælist það 3,8% og stóð í stað á milli mánaða. Atvinnuleysi hefur hjaðnað nokkuð hratt frá því það mældist hvað hæst í 11,6% í byrjun árs 2021. Fyrir ári síðan var það 5,2% en þá mældist það ríflega 9% á Suðurnesjum og yfir 5% á höfuðborgarsvæðinu.