Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mötuneyti Íslandsbanka hlýtur Svansvottun

Starfsfólk Íslandsbanka hefur tekið virkan þátt í því að bæta og breyta verkferlum til hins betra.


Dalurinn, mötuneyti Íslandsbanka, hlaut í vikunni Svansvottun. Um er að ræða jákvætt skref sem er í samræmi við sjálfbærnistefnu Íslandsbanka. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.

Til að hljóta Svansvottun þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði sem taka til alls lífsferils vöru eða þjónustu. Svansvottun staðfestir þannig að þjónusta og starfsemi Dalsins uppfyllir strangar umhverfis- og gæðakröfur. 

Til að fá og viðhalda Svansvottun þarf að grípa til ýmissa úrræða í þeim tilgangi að bæta verklag, fyrirkomulag og vinnslu matvæla og annarra þátta í mötuneyti. Meðal þeirra verkefna sem starfsfólk Dalsins hefur ráðist í eru:

  • Eingöngu er notast við umhverfisvæn efni í eldhúsi og var gert sérstakt átak í þeim efnum meðal starfsmanna. 
  • Aukið var við innkaup á lífrænum vörum fyrir daglega notkun.
  • Ráðist var í átak til að minnka matarsóun. Engum matvælum er hent og með því fyrirkomulagi sem nú er unnið eftir hefur Íslandsbanki jafnframt stutt við Kaffistofu Samhjálpar sem gefur yfir 65.000 máltíðir á ári. 
  • Vandlega er farið yfir allt plast sem kemur inn í eldhúsið og það vandlega flokkað og endurunnið. Það sama á við um flokkun alls úrgangs sem fellur til við vinnslu í mötuneyti.
  • Breytingar til hins betra voru gerðar á fyrirkomulagi þvotta, s.s. á dúkum og fatnaði starfsmanna. 
  • Settir voru upp orku- og vatnsmælar í þeim tilgangi að fylgjast með og lágmarka notkun.

Undirbúningur að Svansvottun hefur staðið um nokkurt skeið og hafa starfsmenn tekið virkan þátt í því ferli. Starfsmenn eru þannig vel meðvitaðir um það hvaða matvæli eru notuð og hvaðan þau koma, hvaða efni eru notuð til þrifa og hvernig hugað er að frágangi og eftirvinnslu. 

Á meðfylgjandi mynd tóku Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Ríkharður Gústafsson, deildarstjóri Dalsins, við Svansvottun frá Elvu Rakel Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Svansins.