Engum blöðum er um það að fletta að þjónustutekjur frá útlöndum munu skreppa gífurlega saman á meðan tekjuöflun ferðaþjónustunnar er í lamasessi vegna COVID-19 og aðgerða gegn faraldrinum. Þegar eru greinileg merki um þá þróun í kortaveltutölum marsmánaðar. Samkvæmt tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) dróst kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi, að flugsamgöngum undanskildum, saman um 60% í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Alls nam veltan tæpum 7 mö.kr. og hefur ekki verið minni frá ársbyrjun 2015.
Minni innflutningur vegur gegn töpuðum útflutningstekjum
Þrátt fyrir þungt högg á útflutningstekjur Íslands er ekki víst að gjaldeyrisútflæði vegna utanríkisviðskipta verði verulegur dragbítur á gengi krónu næstu mánuðina. Vísbendingar eru um að útgjöld vegna vöruinnflutnings muni skreppa talsvert saman á næstunni auk þess sem kortavelta landans erlendis hefur minnkað mikið.
Jafnt og þétt harðnaði á dalnum eftir því sem leið á mánuðinn. Í marsbyrjun var kortavelta dag hvern í kring um 80% af veltunni ári fyrr, en undir lok mánaðar var þetta hlutfall komið niður í 4%. Væntanlega gefa þessir lokadagar marsmánaðar tóninn fyrir það sem koma skal í apríl og allra næstu mánuðum.
Landinn straujar minna út fyrir landsteinana
Það er þó ekki bara kortavelta erlendra aðila hér á landi sem hrapar skarpt þessa dagana. Tölur Seðlabankans yfir kortaveltu leiða í ljós að mikill samdráttur er að verða í erlendri kortaveltu Íslendinga eins og nærri má geta. Í marsmánuði skrapp slík velta saman um tæp 40% frá sama mánuði árið 2019 en alls nam veltan 9,1 ma.kr. í síðasta mánuði. Gjaldeyrisútflæði vegna kortaviðskipta var því væntanlega tæplega 3 ma.kr. í marsmánuði.
Samanburður á kortaviðskiptum milli landa, sem við höfum kosið að kalla kortaveltujöfnuð, getur verið gagnlegur til að átta sig á þróun þjónustujafnaðar við útlönd. Eins og sjá má af myndinni endurspeglar kortaveltujöfnuðurinn hreyfingar í þjónustujöfnuði vegna ferðalaga og farþegaflutninga ágætlega. Minna ris verður þó í kortaveltuafgangi en afgangi vegna ferðalaga á háannatíma þar sem slíkur tími er venjulega mesti útgjaldatími Íslendinga á erlendri grundu vegna sumarleyfa.
Fróðlegt verður að skoða kortaveltutölur milli landa í apríl þar sem þær munu gefa mynd af þeirri kortaveltu sem eftir stendur þegar ferðalög landa á milli liggja nánast alfarið niðri. Slík velta skýrist þá væntanlega af vefverslun, kortanotkun einstaklinga sem búa langdvölum í öðru landi en kort þeirra eru útgefin í og öðrum slíkum þáttum. Væntanlega munu þær tölur verða lágar í samanburði við síðustu ár. Þótt vefverslun Íslendinga sé að aukast verulega þessa dagana kemur á móti að gengisþróun hefur hækkað verð í erlendum vefverslunum um ríflega tug prósenta frá ársbyrjun. Auk þess eru póstsamgöngur milli landa mun stirðari en áður og margir halda líkast til við sig í kaupum á fatnaði og öðrum neysluvörum sem gjarnan eru keyptar í alþjóðlegum vefverslunum. Þar virðast innlendar vefverslanir aftur á móti njóta góðs af ástandinu ef marka má nýlega frétt RSV um ríflega tvöföldun innlendrar netverslunar í mars frá sama mánuði í fyrra.
Minni vöruskiptahalli í kortunum?
Sá mikli viðskiptaafgangur sem Ísland hefur notið síðustu ár hefur að langstærstum hluta verið borinn uppi af miklum þjónustutekjum tengdum ferðaþjónustu. Aðrir liðir þjónustujafnaðarins hafa á sama tíma á heildina litið skilað halla þótt sá halli hafi verið lítill í samanburði við hreinar þjónustutekjur ferðaþjónustu. Með minnkandi umsvifum ferðaþjónustunnar hefur þó ekki dregið úr þjónustuafganginum að sama skapi. Auk áhrifa krónu er þar um að ræða að liðir á borð við rekstrarleigu flugvéla hafa skroppið verulega saman eftir fall WOW air. Væntanlega verður sú þróun áfram einkennandi næsta kastið.
Í sem stystu máli má því segja að líklegt sé að þjónustujöfnuðurinn muni leika takmarkað hlutverk í gjaldeyrisflæði á meðan ferðatakmarkanir eru umfangsmiklar. Það eru breyttir tímar frá því fyrir fáeinum fjórðungum þar sem þjónustuafgangurinn vó á móti vöruskiptahalla og landaði hinum mikla viðskiptaafgangi sem við höfum átt að venjast síðustu árin.
Verður viðskiptahalli dragbítur á krónuna?
En leiðir þá ekki sjálfkrafa af þessari breyttu þróun að viðskiptahalli mun taka við af viðskiptaafgangi og mynda frekari þrýsting á gengi krónu? Við teljum það alls ekki víst. Staðreyndin er sú að upp á síðkastið hefur dregið verulega úr vöruskiptahalla. Í fyrsta lagi er talsvert minna flutt inn af aðföngum og fjárfestingarvörum fyrir ferðaþjónustuna. Einnig mun samdráttur í einkaneyslu og fjárfestingum einkageirans almennt endurspeglast í samdrætti innflutnings eftir því sem á árið líður. Reynslan sýnir til að mynda að þegar skóinn kreppir hjá heimilunum draga þau í meiri mæli úr neyslu innfluttra vara á borð við ökutæki, stærri innanstokksmuni og fatnað en úr neyslu á innlendum vörum og þjónustu. Á móti vegur vissulega að allnokkurt högg virðist ætla að verða á vöruútflutning, sér í lagi á stóriðjuafurðum. Slíkur útflutningur hefur hins vegar minni áhrif á gjaldeyrisflæði til skemmri tíma litið en útflutningur sjávarafurða og iðnaðarvara á borð við tæknibúnað og lyf.
Tölur fyrsta fjórðungs gefa að mati okkar vísbendingu um þessa þróun. Útlit er fyrir að þjónustuafgangur verði með minnsta móti á fjórðungnum en á móti vegur að vöruskiptahalli var líklega sá minnsti frá ársbyrjun 2015 ef 1F síðasta árs er undanskilinn en þar lék sala á flugvélum WOW air stórt hlutverk. Það eru því að okkar mati ágætar líkur á að utanríkisviðskipti verði í þokkalegu jafnvægi á næstunni þrátt fyrir þungt högg á útflutningstekjur þar sem snöggt um minni innflutningsútgjöld vega þá þróun upp að hluta.