Greinin birtist fyrst á Vísi
Bandaríkin eru sennilega okkar mikilvægasta viðskiptaþjóð hvað ferðaþjónustu og þar með gjaldeyrisöflun varðar. Það eru því kærkomnar fréttir hve ljómandi vel bólusetningar þar í landi virðast ganga, en yfir helmingur allra fullorðinna Bandaríkjamanna hefur nú fengið í það minnsta eina gusu af bóluefni gegn COVID-19. Nemur það ríflega fimmtungi allra þeirra sem bólusettir hafa verið gegn veirunni á heimsvísu. Standist áætlanir þar í landi um að öllum fullorðnum hafi boðist bólusetning fyrir lok júnímánaðar má því búast við að ferðaþyrst þjóðin sé þegar farin að líta í kringum sig.
Af leitarvélagögnum að dæma hefur áhugi á Íslandi aukist til muna undanfarnar vikur og samkvæmt könnun Íslandsstofu var hlutfall Bandaríkjamanna sem líklegt taldi að landið yrði sótt heim innan sex mánaða mun hærra en meðal annarra þjóðerna sem spurð voru.