Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mikill vöruskiptahalli áhrifaþáttur í gengisveikingu krónu

Mikill vöruskiptahalli á haustdögum á væntanlega stóran þátt í veikingu krónu á tímabilinu. Þótt hluti vöruskiptahallans skýrist af vaxandi aðfangaþörf ferðaþjónustunnar leikur mikil innlend eftirspurn þar einnig stórt hlutverk. Versnandi horfur um viðskiptajöfnuð á komandi fjórðungum fela í sér að gengi krónu kann að verða lægra á næstunni en við væntum áður.


Gengi krónu er nú tæplega 3% lægra en það var í upphafi nóvembermánaðar eftir verulegar sveiflur innan nóvember. Allshröð veiking krónu einkenndi fyrri helming síðasta mánaðar og fór svo að Seðlabankinn greip þrívegis inn í gjaldeyrismarkaðinn og seldi samtals 33 m. evra til þess að koma betra jafnvægi á millibankamarkað og afstýra spíralmyndun. Voru það fyrstu inngrip bankans frá miðjum september.

Frá miðju ári hefur krónan veikst um 6% ef miðað er við viðskiptavegna gengisvísitölu. Sú þróun hefur komið mörgum, þar á meðal okkur, nokkuð í opna skjöldu enda hefur mikill kraftur færst í ferðaþjónustuna frá vordögum og tekjuöflun hennar verið myndarlegri ef eitthvað er en við væntum.

Mikill vöruskiptahalli í haust

Ýmsar ástæður má tína til fyrir þessari þróun en óneitanlega berast sjónir ekki síst að þætti vöruskipta í henni. Vöruskiptahalli hefur verið mikill frá miðju ári og talsvert meiri en við áætluðum í þjóðhagsspá okkar í septembermánuði.

Nýbirtar tölur Hagstofunnar sýna að lítið lát var á vöruskiptahallanum í nóvembermánuði. Miðað við bráðabirgðagögn Hagstofu var hallinn 42 ma.kr. í nóvember. Hefur hallinn einungis þrívegis verið meiri í krónum talið og tveir þeirra mánaða eru einmitt september og október sl. Samanlagt nemur vöruskiptahallinn þessa þrjá mánuði 145 ma.kr. en til samanburðar var samanlagður halli sömu mánaða í fyrra 59 ma.kr.

Alls voru fluttar inn vörur fyrir 121 ma.kr. í nóvember og nam aukningin milli ára 20%. Sér í lagi var vöxturinn milli ára í innflutningi á innfluttu eldsneyti (77% aukning í krónum), fólksbílum (65%) og fjárfestingarvörum að frátöldum flutningstækjum (38%). Hvað fólksbílainnflutninginn varðar má nefna að samkvæmt frétt Bílgreinasambandsins jukust nýskráningar bifreiða um ríflega þriðjung í nóvember frá sama mánuði í fyrra eftir lítilsháttar samdrátt í október.

Hvað eldsneyti varðar skýrir bæði hærra verð og meira magn krónutöluvöxtinn. Tíðari ferðir landa á milli og aukinn akstur innanlands kalla á meira innflutt eldsneyti og verð á olíu og olíuafurðum var almennt talsvert hærra á haustmánuðum en fyrir ári síðan. Til að mynda kostaði tunna af Brent-hráolíu 12% meira í dollurum talið í nóvember en í sama mánuði í fyrra þrátt fyrir að dollarinn hefði almennt styrkst allnokkuð gagnvart öðrum myntum, og þar með talið krónu, á tímabilinu.

Aukinn innflutningur á fjárfestingar- og neysluvörum á haustmánuðum endurspeglar vaxandi innlenda eftirspurn og rímar vel við aðrar vísbendingar um eftirspurnarþróun í hagkerfinu. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar jukust þjóðarútgjöld, sem endurspegla að mestu neyslu og fjárfestingu, um 4,8% milli ára á 3. ársfjórðungi og um 7,3% á fyrstu 9 mánuðum ársins. Virðist sem lokafjórðungur ársins verði lítill eftirbátur hinna fjórðunganna að þessu leyti.

Vöruútflutningur hefur gefið eftir

Þá hefur vöruútflutningur verið að rýrna nokkuð í roðinu síðustu mánuði samanborið við vorið og sumarið. Alls voru fluttar út vörur fyrir 79 ma.kr. í nóvember sem jafngildir 9,5% aukningu í krónum talið milli ára. Þar munaði mestu um 14% aukningu í útfluttum iðnaðarvörum að áli undanskildu og 11% aukningu álútflutnings. Útflutningsverðmæti sjávarafurða stóð aftur á móti nánast í stað á milli ára þrátt fyrir hátt verð á ýmsu sjófangi á heimsmarkaði og vegur samdráttur í útfluttu magni þar á móti. Þar ber raunar einnig að halda til haga að eldisfiskur fellur undir landbúnaðarafurðir í bókhaldi Hagstofunnar en útflutningstekjur af eldi námu 5,5 ma.kr. og ríflega tvöfölduðust milli ára.

Fleiri áhrifaþættir hafa vafalítið haft sitt að segja um gengislækkun krónu undanfarna mánuði. Í nýbirtu minnisblaði fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans er bent á að versnandi fjármálaleg skilyrði erlendis hafi þrengt að aðgengi íslenskra fjármálafyrirtækja að erlendri lánsfjármögnun. Þá er í nýlegum Peningamálum bent á að gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafi aukist samhliða því að svigrúm þeirra til fjárfestinga í gjaldeyriseignum hefur aukist í kjölfar verðlækkunar á erlendum hlutabréfamörkuðum. Auk þess hafði að sögn bankans dregið úr framvirkri gjaldeyrissölu og framvirk gjaldeyriskaup aukist í september.  

Á brattann að sækja fyrir krónu næsta kastið

Gengisstyrking krónu á fyrstu fimm mánuðum ársins hefur alfarið gengið til baka og er gengi krónu nú á svipuðum slóðum og var fyrir ári síðan. Utanríkisviðskipti munu vafalaust áfram leika stórt hlutverk í gengisþróun krónu á komandi ári. Þar hefur útlitið dökknað nokkuð frá því við gáfum út þjóðhagsspá okkar í septemberlok.

Þótt ferðaþjónustan og aðrar þjónustugreinar muni vissulega halda áfram að færa meiri björg í bú hafa líkur aukist á að viðskiptahalli verði nokkuð þrálátur, ekki síst vegna áframhaldandi verulegs halla á vöruskiptum. Það hefur því þyngst nokkuð róðurinn fyrir krónuna á komandi misserum enda á fljótandi gjaldmiðill að bregðast við verulegum breytingum á utanríkisviðskiptum og hjálpa til við að koma betra jafnvægi á slík viðskipti. Trúlega þarf veikari krónu en við spáðum í september til þess að það gangi eftir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband