Tæplega 159 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í október sl. samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu. Ferðamannafjöldinn í október var nánast á pari við fjöldann í sama mánuði 2019 en um það bil 80% af fjöldanum í október 2018 sem var fjölmennasti októbermánuður að þessu leyti frá upphafi.
Mikil ferðagleði landsmanna vegur gegn góðu ferðaþjónustuhausti
Ferðamannahaustið í ár hefur verið svipað að stærð og síðasta haustið fyrir faraldur og hefur endurreisn ferðaþjónustunnar gengið vonum framar. Ferðagleði Íslendinga hefur hins vegar einnig náð sögulegum hæðum í haust. Aldrei hafa fleiri landsmenn brugðið sér út fyrir landsteinana í einum mánuði og í nýliðnum október.
Líkt og undanfarið voru Bandaríkjamenn fjölmennastir af þeim þjóðum sem landið sóttu heim. Rétt um þriðjungur heildarfjöldans í október kom frá Bandaríkjunum. Næstir þar á eftir voru Bretar (16%) og í kjölfarið komu Þjóðverjar (6%), Pólverjar (5%), Danir (4%) og Ítalir (3%).
Horfur á ríflega 1,7 milljón ferðamönnum í ár
Tæplega 1,5 milljón erlendra ferðamanna hefur sótt Ísland heim það sem af er ári og þarf vart að taka fram að fjölgunin er mikil miðað við faraldursárin 2020-2021. Til að mynda er fjöldinn á fyrstu 10 mánuðum ársins þrefaldur miðað við síðasta ár þrátt fyrir að tímabundin glufa hafi myndast í sóttvarnartakmörkunum milli landa í fyrrasumar og allnokkur fjöldi ferðafólks nýtt hana til Íslandsferðar.
Ísland hefur að þessu leytinu náð betri viðspyrnu í ferðaþjónustu en gengur og gerist á heimsvísu. Samkvæmt Ferðamálastofu sameinuðu þjóðanna (UNWTO) voru ferðalög frá ársbyrjun til júlíloka tæplega 60% af því sem hafði tíðkast fyrir faraldur. Hér á landi var þetta hlutfall hins vegar 77% á sama tímabili og séu fyrstu 10 mánuðir ársins bornir saman við sama tíma árið 2019 er þetta hlutfall 84%.
Við spáðum í þjóðhagsspá okkar sem birt var í septemberlok að 1,7 milljónir ferðafólks myndu sækja Ísland heim þetta árið. Eins og sjá má af myndinni hafa síðustu mánuðir verið í samræmi við spá okkar og ef eitthvað er heldur drýgri. Það eru því góðar líkur á að fjöldinn verði yfir 1,7 milljóna markinu fremur en undir. Þar er þó ekki alfarið á vísan að róa þar sem efnahagshorfur hafa versnað hratt í mörgum okkar helstu viðskiptalanda. Sér í lagi er umtalsverð óvissa um hvort Bretar, sem eru okkur býsna dýrmætir vetrarferðamenn, muni skila sér í sama takti út veturinn og verið hefur. Um þessa óvissu og mikilvægi Bretanna fyrir vetrartíð ferðaþjónustunnar fjölluðum við nýlega.
Metfjöldi landsmanna í utanferð í október
Það eru þó ekki einungis aðrar þjóðir sem hafa nýtt flugið til og frá landinu í vaxandi mæli undanfarið. Mikill ferðahugur hefur verið hjá landsmönnum eftir að faraldrinum slotaði og var októbermánuður þar engin undantekning. Nærri 72 þúsund Íslendingar fóru af landi brott um Keflavíkurflugvöll í októbermánuði. Hafa utanlandsferðir landsmanna aldrei verið fleiri í einum mánuði frá því Ferðamálastofa hóf að taka þessar tölur saman. Lætur nærri að fimmti hver borgari hafi brugðið sér út fyrir landsteinana í mánuðinum þótt auðvitað sé trúlega eitthvað um að fólk hafi farið fleiri en eina ferð í október.
Seðlabankinn birtir á næstu dögum gögn yfir kortaveltu landsmanna í októbermánuði. Fróðlegt verður að sjá hvernig veltan erlendis hefur þróast í síðasta mánuði en eins og sjá má af myndinni hefur hún verið í örum vexti undanfarið og var í krónum talið ríflega þriðjungi meiri á fyrstu þremur fjórðungum ársins en á sama tímabili árið 2019. Þar er vaxandi ferðagleði þó ekki alfarið skýringin heldur hefur verslun við erlendar netverslanir einnig verið í miklum vexti. Það veitir því ekki af myndarlegum komandi vetri hjá ferðaþjónustunni til að vega bæði á móti ferðagleði landsmanna og einnig óhagstæðri þróun í öðrum utanríkisviðskiptum líkt og við fjölluðum nýlega um.