Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Metinnflutningur skýrir mikinn vöruskiptahalla í júní

Vöruskiptahalli í júní var sá mesti í tvö ár. Ástæðan er að stærstum hluta mesti vöruinnflutningur sem mælst hefur frá upphafi í krónum talið. Óhagstæð þróun vöruverðs, minni fiskútflutningur og aukin umsvif innanlands mun auka á vöruskiptahallann á næstunni en útlit er þó fyrir að utanríkisviðskipti verði í þokkalegu jafnvægi í ár.


Halli á vöruskiptum við útlönd var 30,2 ma.kr. í nýliðnum júnímánuði samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hallinn hefur ekki verið meiri í tvö ár og er ástæðan að stærstum hluta óvenju mikill vöruinnflutningur.

Aldrei meiri útgjöld vegna innflutnings

Alls voru fluttar inn vörur fyrir 88,9 ma.kr. í síðasta mánuði. Í krónum talið er þetta mesti vöruinnflutningur í einum mánuði frá upphafi. Reiknað á föstu gengi krónu hefur innflutningurinn aðeins verið meiri í maímánuði 2017. Mikið var flutt inn af hrá- og rekstrarvörum og eldsneyti auk þess sem innflutningur skipa nam 5,5 mö.kr. og hefur ekki verið meiri í rúm 4 ár. Ljóst er að innflutningur er að sækja talsvert í sig veðrið að nýju eftir því sem faraldurinn lætur undan síga og hagkerfið kemst á aukinn skrið á nýjan leik.

Útfluttar vörur námu alls 58,7 mö.kr. í júnímánuði. Er það svipað verðmæti útflutnings og verið hefur undanfarna mánuði ef leiðrétt er fyrir gengi krónu. Sjávarafurðir voru tæpur helmingur vöruútflutnings og nam verðmæti þeirra tæplega 27 mö.kr. í júní. Álútflutningur nam tæpum 17 mö.kr. og útflutningur annarra iðnaðarvara tæplega 10 mö.kr.

Ólík þróun útflutningsgreina

Þróun í útflutningi helstu vöruflokka hefur verið býsna ólík eftir að heimsfaraldurinn skall á. Framan af síðasta ári skrapp raunar vöruútflutningur almennt saman enda aðstæður með óhagstæðasta móti. Það sem af er þessu ári hefur útflutningur sjávarafurða hins vegar sótt í sig veðrið í magni mælt og sama má segja um afurðir fiskeldis þar sem magnaukningin nam nærri 50% á fyrstu 5 mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra. Verð þessara afurða hefur hins vegar gefið nokkuð eftir á tímabilinu.

Þessu er öfugt farið með afurðir stóriðju. Þar varð lítilsháttar samdráttur í útfluttu magni á fyrstu 5 mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra en verðið hefur hins vegar hækkað um tæplega 14% í krónum á tímabilinu. Þess má geta að miðað við gengisvísitölu var krónan að jafnaði 2% veikari á tímabilinu en á sama tíma í fyrra. Hér ræður miklu að álverð hefur sótt umtalsvert í sig veðrið undanfarið. Þannig var viðmiðunarverð á áltonninu ríflega 2.500 Bandaríkjadollarar í júnílok en var á síðasta ári að jafnaði u.þ.b. 1.730 dollarar.

Þótt álverðið hafi sótt verulega í sig veðrið undanfarið er verðþróun á heimsmarkaði þó almennt fremur óhagstæð fyrir vöruskiptin enn sem komið er. Verð sjávarafurða hefur enn ekki náð fyrri hæðum eftir faraldurinn en vonandi stendur það til bóta eftir því sem hömlur á starfsemi veitingahúsa og annarra stórra kaupenda íslenskra sjávarafurða hverfa með endatafli faraldursins. Hins vegar hafa hrávörur, matvörur og eldsneyti almennt hækkað verulega í verði síðustu fjórðunga. Heimsmarkaðsverð á eldsneyti er nú orðið heldur hærra en það var fyrir faraldur og ýmsar hrávörur, sem og matvörur, eru mun dýrari á heimsmarkaði en þær voru áður en faraldurinn skall á.

Horfur á vaxandi vöruskiptahalla

Útlit er fyrir talsvert meiri vöruskiptahalla í ár en í fyrra. Þar leggst margt á eitt:

  • Aukin umsvif í hagkerfinu kalla á meiri innflutning vara til innlendrar einkaneyslu auk meiri aðfanga fyrir fjárfestingu og ferðaþjónustu.
  • Þótt ýmsir spái því að hátt verð á hrávörum og ýmsum öðrum innfluttum vörum gangi til baka að hluta þegar framboðshnökrar erlendis vegna faraldursins minnka gæti nokkur tími liðið áður en það raungerist
  • 13% minni þorskkvóti á komandi fiskveiðiári segir til sín með haustinu og áfram fram eftir næsta ári.

Á móti vegur m.a. vöxtur í fiskeldi og hagfelld verðþróun á áli. Framangreindir þættir munu þó vega mun þyngra að mati okkar.

Vöruskiptahalli á fyrri árshelmingi var ríflega 6% af áætlaðri landsframleiðslu (VLF) á tímabilinu sem er nokkru meiri halli en var allt árið í fyrra. Miðað við framangreind rök verður vöruskiptahallinn líklega enn hærri í hlutfalli við VLF á árinu í heild.

Góðu heilli er hins vegar stærsta útflutningsgreinin, ferðaþjónustan, að taka við sér á nýjan leik. Útlit er fyrir að tekjur af þjónustuútflutningi muni stóraukast á komandi fjórðungum. Að mati okkar mun afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum líklega vega upp vöruskiptahallann í ár og hugsanlega skila lítilsháttar viðskiptaafgangi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband