Svipað má segja um aðrar tegundir jarðefnaeldsneytis og skyldra afurða enda nam innflutningur á þeim vöruflokkum alls tæplega 28 ma.kr. í október. Það samsvarar ríflega þriðjungi af öllum tekjum af vöruútflutningi í mánuðinum, svo dæmi sé tekið.
Veruleg aukning á innfluttum fjárfestingarvörum þarf ekki að vera umtalsvert áhyggjuefni enda auka slík aðföng væntanlega á endanum efnahagsstarfsemi í landinu, þar á meðal útflutning. Auknum kostnaði til skemmri tíma vegna þeirra kann því að vera vel varið. Hins vegar endurspeglar aukinn innflutningur einnig að hluta til bæði verðhækkanir á margvíslegum aðföngum en einnig að einhverju leyti umtalsverða neyslugleði landsmanna undanfarna fjórðunga. Má þar nefna að innflutningur á almennum neysluvörum var 13% meiri í krónum talið í október en í sama mánuði í fyrra.
Ólík verðþróun á áli og fiski
Líkt og við fjölluðum um nýverið hefur verð á okkar helstu útflutningsafurðum sveiflast mikið síðustu fjórðungana. Undanfarna mánuði hefur álverð þó gefið umtalsvert eftir á nýjan leik en verð á sjávarafurðum aftur á móti haldist tiltölulega hátt. Októbertölurnar endurspegla þessa þróun að hluta. Álútflutningur nam tæplega 25 ma.kr. og hefur ekki verið svo lítill í krónum talið í tæpt ár. Útflutningur sjávarafurða skilaði hins vegar jafnvirði tæplega 30 ma.kr. í tekjur í októbermánuði. Það jafngildir 12% tekjuvexti milli ára þrátt fyrir minnkaðan botnfiskkvóta og sterkari krónu á tímabilinu, en leiðrétt fyrir gengisbreytingum krónu var tekjuvöxturinn 17%.