Ferðamönnum fjölgaði um 24% á síðasta ári sem er töluvert minni hlutfallsleg fjölgun en á árinu 2016 þegar ferðamönnum fjölgaði um 40%. Fjölgun ferðamanna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs nam 56% sem var um 21 prósentustigi hraðari vöxtur en á sama tímabili árið 2016, og hófst því ferðamannaárið 2017 með látum. Síðan í maí á þessu ári hefur hinsvegar hægt verulega á fjölgun ferðamanna. Ferðamönnum fjölgaði þannig um 15% á tímabilinu maí-desember á þessu ári. Það er 26 prósentustigum hægari fjölgun en á sama tímabili árið 2016.
Fjölgun ferðamanna á Íslandi samt sem áður sú hraðasta í Evrópu
Þrátt fyrir áðurgreinda þróun þá er fjölgun ferðamanna á Íslandi sú hraðasta í Evrópu en fjölgun ferðamanna til þjóða í Evrópu nam að meðaltali um 8% á fyrri helmingi ársins 2017 m.v. sama tímabil árið 2016. Fjölgun ferðamanna á Íslandi er því ennþá hröð í alþjóðlegu samhengi.
Hægari fjölgun bandarískra og breskra ferðamanna vegur þyngst
Hægt hefur á fjölgun ferðamanna frá flestum þjóðum en hægari fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi vegur þyngst í þessari þróun, enda koma rúmlega 4 af hverjum 10 ferðamönnum sem hingað ferðast þaðan. Einnig hefur hægt talsvert á fjölgun ferðamanna hingað til lands frá Kanada.
Dregur úr utanlandsferðum Breta eftir veikingu pundsins
Bretum fjölgaði um 2% á síðasta ári og hefur þeim ekki fjölgað jafn hægt frá því að uppgangur ferðaþjónustunnar hófst í upphafi áratugarins. Þá hefur Bretum fækkað milli ára alla mánuði frá því í apríl. Er þessi þróun í takt við þróun í utanlandsferðum Breta almennt um þessar mundir. Skertur kaupmáttur Breta á erlendri grundu vegna gengisfalls pundsins hefur eflaust haft talsverð áhrif á þessa þróun.
Bandarískum ferðamönnum fjölgar engu að síður ennþá hratt
Þó að hægt hafi á fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum fjölgaði þeim engu að síður um 39% á síðasta ári. Fjölgun bandarískra ferðamanna hingað til lands er því ennþá hröð. Mikilvægi bandarískra ferðamanna hefur aukist umtalsvert hlutfallslega á síðastliðnum árum og eru nú um 26% allra ferðamanna sem hingað koma frá Bandaríkjunum. Á sama tíma hefur hlutfall Breta lækkað að undanförnu.
Bandarískir ferðamenn hafa sífellt meiri áhrif á íslenska ferðaþjónustu
Áðurgreind þróun hefur leitt til þess að Íslensk ferðaþjónusta er nú viðkvæmari fyrir áföllum vegna breytinga á ferðatilhögun bandarískra ferðamanna. Í ljósi þess hve stórt hlutverk ferðaþjónustan skipar í íslensku hagkerfi má í framhaldinu segja að ferðatilhögun bandarískra ferðamanna geti haft umtalsverð áhrif á skammtímaþróun í hérlendu hagkerfi. Í þessu samhengi er æskilegt að ferðaþjónustan byggi á fjölbreyttum grunni þannig að áfall í efnahag ákveðinnar þjóðar hafi ekki of veigamikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild.