Merki um betra jafnvægi á vinnumarkaði

Merki eru um minnkandi spennu á íslenskum vinnumarkaði samhliða hjaðnandi meðvindi í útflutningsgreinum og hægari vexti innlendrar eftirspurnar. Nýlegar viðhorfskannanir benda til þess að hlutfall starfandi gæti lækkað og atvinnuleysi aukist á komandi fjórðungum. Það myndi líklega leiða til hægari fólksfjölgunar og betra jafnvægis á íbúðamarkaði með tímanum.


Talsverð spenna hefur verið á íslenskum vinnumarkaði frá því þjóðarbúið fór að rétta úr kútnum á seinni stigum faraldursins. Þrátt fyrir hraða fólksfjölgun undanfarin ár hefur vinnumarkaðsþátttaka í hlutfalli við mannafla farið hækkandi á sama tíma og atvinnuleysi hefur haldist lítið. Hlutfall starfandi hefur því hækkað jafnt og þétt. Vitaskuld eru tengsl milli fólksfjölgunarinnar og hækkandi hlutfalls starfandi, en hvort tveggja skýrist af mikilli spurn eftir vinnuafli á snörpu vaxtarskeiði áranna 2021-2023.

Þótt dregið hafi úr vexti jafnt útflutningsgreina sem innlendrar eftirspurnar hefur spurn eftir vinnuafli haldist talsvert sterk það sem af er ári. Skráð atvinnuleysi hefur þó verið heldur meira en í fyrra. Á fyrri helmingi ársins var meðalhlutfall atvinnulausra af vinnuafli þannig 3,6% samanborið við 3,4% á sama tíma í fyrra.

Þá hafa hópuppsagnir sett nokkurn svip á undanfarna tvo mánuði eftir hlé í þeim efnum á fyrstu mánuðum ársins. Alls var 637 sagt upp í hópuppsögnum í maí og júní, til að mynda í ferðaþjónustu, fiskvinnslu og smásölu. Þær uppsagnir tengjast að verulegu leyti mótbyr í útflutningsgreinum, ekki síst ferðaþjónustunni. Eðli máls samkvæmt koma slíkar hópuppsagnir ekki strax fram í tölum um skráð atvinnuleysi þar sem flest þeirra sem sagt var upp hafa 3-6 mánaða uppsagnarfrest. Vonandi og væntanlega mun einnig stór hluti þeirra finna sér nýtt starf á komandi mánuðum og því staldra í mesta lagi staldra stutt við á atvinnuleysisskrá.

Atvinnuleysi þokast upp á við

Í júní sl. voru 6.722 skráðir atvinnulausir sem svarar til 3,1% atvinnuleysishlutfalls samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Til samanburðar var hlutfallið 2,9% í júní í fyrra. Talsverð breyting hefur einnig orðið á samsetningu atvinnuleysis eftir lengd atvinnuleysistímabils. Þannig fækkaði langtímaatvinnulausum, þ.e. þeim sem höfðu verið án vinnu í meira en 12 mánuði, um 45 milli ára. Hins vegar fjölgaði þeim sem höfðu verið atvinnulausir í 6-12 mánuði um ríflega 500 á sama tíma. Við túlkum þessa þróun sem svo að í fyrra hafi enn gætt einhverra áhrifa af fækkun starfa í faraldrinum. Hins vegar bendir veruleg fjölgun í 6-12 mánaða hópnum til þess að lengri tíma taki að jafnaði að finna vinnu eftir uppsögn á undanförnum fjórðungum en var fyrir ári síðan.

Fyrirtækin hyggja á aðhald í starfsmannafjölda

Nýlegar viðhorfskannanir meðal stjórnenda fyrirtækja varpa nokkru ljósi á hvaða stefnu vinnumarkaður gæti verið að taka á komandi fjórðungum. Í vor voru framkvæmdar tvær slíkar kannanir, annars vegar af Gallup fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, en hins vegar af Deloitte sem hluti af könnun fyrirtækisins meðal fjármálastjóra í 13 Evrópulöndum.

Gallup könnunin gefur vísbendingu um að spenna á vinnumarkaði muni áfram fara minnkandi.  Þannig var hlutfall þeirra fyrirtækja sem hyggjast fjölga starfsfólki tæp 22% í vor samanborið við tæp 30% á fyrsta ársfjórðungi og 25% á sama tíma í fyrra. Fyrirtæki sem hyggjast fækka starfsfólki voru rúm 14% af heildinni í júní samanborið við tæp 13% á fyrsta fjórðungi og 13% í fyrravor. Mikill munur er á þróuninni eftir því hvort viðkomandi fyrirtæki stundaði útflutning á vöru/þjónustu eða ekki. Í útflutningstengdri starfsemi lækkaði hlutfall þeirra sem vildu fjölga starfsfólki umtalsvert bæði milli ára og fjórðunga og fyrirtækjum sem vildu draga úr starfsmannafjölda fjölgaði verulega á sama kvarða. Hins vegar fækkaði í hópi þeirra fyrirtækja sem sinna innlendri eftirspurn og ætla að fækka starfsfólki.

Þróun á svörum við spurningu um hvort fyrirtæki svarenda búi við skort á starfsfólki segir svipaða sögu. Fyrir ári síðan sögðu tæp 43% svarenda fyrirtæki sitt búa við skort á starfsfólki og hæst fór þetta hlutfall í 54% í vetrarbyrjun 2022. Síðastliðið vor hafði þetta hlutfall hins vegar lækkað í rúm 29% og hefur það ekki verið lægra í þrjú ár.

Deloitte á Íslandi birti einnig fyrir skömmu síðan niðurstöður úr könnun fyrirtækisins og systurfyrirtækja þess í 13 Evrópulöndum meðal stjórnenda stærri fyrirtækja. Þar kemur fram talsverð breyting á viðhorfi stjórnendanna til tekjuvaxtar, fjárfestingaráforma og síðast en ekki síst starfsmannahalds á milli ára. Fór viðhorf íslenskra svarenda frá því að vera langt yfir meðaltali þjóðanna 13 yfir í að vera undir meðaltalinu eins og myndin sýnir. Könnunin var framkvæmd í apríl og endurspeglar því áform um starfsmannahald fram á vorið 2025.

Sagan geymir nýleg fordæmi um kólnandi vinnumarkað

Nærtækt er að bera horfurnar um þessar mundir saman við árið 2019. Það ár markaðist af gjaldþroti Wow air og fækkun ferðamanna um 15% milli ára, úr 2,3 milljónum í 2,0 sé miðað við gögn Isavia um brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. Atvinnuleysishlutfallið hækkaði það ár úr 3,1% í ársbyrjun upp í 4,8% í árslok. Faraldurinn kemur svo í veg fyrir frekari grundvöll til bollalegginga um hvernig þróunin gæti orðið núna enda rauk þá atvinnuleysi upp á skömmum tíma.

Haustið 2018 taldi fimmti hver svarandi í könnun Gallup sitt fyrirtæki skorta starfsfólk. Ári síðar var þetta hlutfall komið niður í rúm 14%. Þá hugðist ámóta hátt hlutfall svarenda, eða tæp 20%, fjölga og fækka starfsfólki á komandi fjórðungum haustið 2018. Ári síðar var hlutfall þeirra sem vildu fjölga niður í u.þ.b. 15% en hlutfall þeirra sem vildu fækka starfsfólki hafði vaxið í u.þ.b. 23%.

Góðu heilli er staða ferðaþjónustunnar að mörgu leyti sterkari nú en var sumarið 2019. Þótt ferðamönnum muni líklega ekki fjölga í ár bendir fátt til þess að þeim fækki jafn mikið milli ára og var í lok síðasta áratugar. Spurn ferðaþjónustu eftir starfsfólki mun því ekki dragast saman með sama hætti og þá var. Á móti má benda á að þættir á borð við hátt raunvaxtastig draga almennt nokkuð þróttinn úr íslensku atvinnulífi í ríkari mæli en þá var.

Eins og sjá má af myndunum fylgjast svör í viðhorfskönnun Gallup og niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar talsvert að. Nærtækt er því að draga þá ályktun að hlutfall starfandi muni gefa eftir og atvinnuleysi aukast á komandi fjórðungum í ljósi þeirrar leitni til minnkandi skorts á starfsfólki sem verið hefur í Gallup-könnuninni undanfarna fjórðunga. Þó er að mati okkar ólíklegt að atvinnuleysishlutfallið stigi jafn hratt á þessu ári og var árið 2019.

Áhrifa af breyttum vindum á vinnumarkaði mun væntanlega í meiri mæli gæta í lækkandi hlutfalli starfandi af mannfjölda sem og í hægari aðflutningi vinnuafls og þar með fólksfjölgun en verið hefur undanfarin misseri. Ýmsar mannaflsfrekar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu og mannvirkjagerð hafa undanfarin ár treyst í verulegum mæli á innflytjendur til að manna laus störf. Sögulega hröð fólksfjölgun hefur svo átt stóran þátt í þeim eftirspurnarþrýstingi á íbúða- og leigumarkaði sem verið hefur upp á síðkastið. Á komandi fjórðungum gæti því haldist í hendur minnkandi spenna á vinnumarkaði, hægari fólksfjölgun og hjaðnandi eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband