Þá hafa hópuppsagnir sett nokkurn svip á undanfarna tvo mánuði eftir hlé í þeim efnum á fyrstu mánuðum ársins. Alls var 637 sagt upp í hópuppsögnum í maí og júní, til að mynda í ferðaþjónustu, fiskvinnslu og smásölu. Þær uppsagnir tengjast að verulegu leyti mótbyr í útflutningsgreinum, ekki síst ferðaþjónustunni. Eðli máls samkvæmt koma slíkar hópuppsagnir ekki strax fram í tölum um skráð atvinnuleysi þar sem flest þeirra sem sagt var upp hafa 3-6 mánaða uppsagnarfrest. Vonandi og væntanlega mun einnig stór hluti þeirra finna sér nýtt starf á komandi mánuðum og því staldra í mesta lagi staldra stutt við á atvinnuleysisskrá.
Atvinnuleysi þokast upp á við
Í júní sl. voru 6.722 skráðir atvinnulausir sem svarar til 3,1% atvinnuleysishlutfalls samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar. Til samanburðar var hlutfallið 2,9% í júní í fyrra. Talsverð breyting hefur einnig orðið á samsetningu atvinnuleysis eftir lengd atvinnuleysistímabils. Þannig fækkaði langtímaatvinnulausum, þ.e. þeim sem höfðu verið án vinnu í meira en 12 mánuði, um 45 milli ára. Hins vegar fjölgaði þeim sem höfðu verið atvinnulausir í 6-12 mánuði um ríflega 500 á sama tíma. Við túlkum þessa þróun sem svo að í fyrra hafi enn gætt einhverra áhrifa af fækkun starfa í faraldrinum. Hins vegar bendir veruleg fjölgun í 6-12 mánaða hópnum til þess að lengri tíma taki að jafnaði að finna vinnu eftir uppsögn á undanförnum fjórðungum en var fyrir ári síðan.
Fyrirtækin hyggja á aðhald í starfsmannafjölda
Nýlegar viðhorfskannanir meðal stjórnenda fyrirtækja varpa nokkru ljósi á hvaða stefnu vinnumarkaður gæti verið að taka á komandi fjórðungum. Í vor voru framkvæmdar tvær slíkar kannanir, annars vegar af Gallup fyrir Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, en hins vegar af Deloitte sem hluti af könnun fyrirtækisins meðal fjármálastjóra í 13 Evrópulöndum.
Gallup könnunin gefur vísbendingu um að spenna á vinnumarkaði muni áfram fara minnkandi. Þannig var hlutfall þeirra fyrirtækja sem hyggjast fjölga starfsfólki tæp 22% í vor samanborið við tæp 30% á fyrsta ársfjórðungi og 25% á sama tíma í fyrra. Fyrirtæki sem hyggjast fækka starfsfólki voru rúm 14% af heildinni í júní samanborið við tæp 13% á fyrsta fjórðungi og 13% í fyrravor. Mikill munur er á þróuninni eftir því hvort viðkomandi fyrirtæki stundaði útflutning á vöru/þjónustu eða ekki. Í útflutningstengdri starfsemi lækkaði hlutfall þeirra sem vildu fjölga starfsfólki umtalsvert bæði milli ára og fjórðunga og fyrirtækjum sem vildu draga úr starfsmannafjölda fjölgaði verulega á sama kvarða. Hins vegar fækkaði í hópi þeirra fyrirtækja sem sinna innlendri eftirspurn og ætla að fækka starfsfólki.