Þrátt fyrir talsverða fækkun frá fyrri mánuði var september þriðji mánuðurinn á þessu ári þar sem fjöldi ferðamanna fór yfir 100 þúsund. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu sem byggja á talningu ISAVIA við brottför um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru brottfarir erlendra ferðamanna ríflega 108 þúsund. Eru þetta nokkru fleiri brottfarir en við höfðum vænst og því jákvæðar fréttir þrátt fyrir fækkunina milli mánaða.
Meiri ferðamannastraumur í september en vænst var
Brottfarir ferðamanna um Leifsstöð voru 108 þúsund í september og var mánuðurinn sá þriðji í röð með yfir 100 þúsund ferðamönnum. Ferðamenn hingað til lands voru álíka margir á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs og í fyrra. Horfur eru hins vegar á allnokkurri fjölgun fram til áramóta, borið saman við síðasta ár,og í kjölfarið er útlit fyrir allhraðan bata í greininni.
Líkt og undanfarna mánuði voru Bandaríkjamenn langfjölmennastir þeirra þjóðerna sem sóttu landið heim en þarlendir ferðamenn voru ríflega 30 þúsund í síðasta mánuði. Næstir þar á eftir komu Þjóðverjar (tæp 14 þúsund), Norðurlandabúar voru tæplega 7 þúsund, Bretar 6.600 talsins og Pólverjar tæplega 6 þúsund.
Útlit fyrir allnokkurn ferðamannastraum út árið
Ferðamenn til landsins voru álíka margir á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs og þeir voru í fyrra. Í septemberlok höfðu 445 þúsund erlendir ferðamenn sótt landið heim, en í fyrra var þessi tala 461 þúsund. Við eigum hins vegar von á mun jákvæðari þróun á síðasta fjórðungi ársins en raunin var í fyrra. Þá komu nánast engir ferðamenn hingað til lands enda reis COVID-19 faraldurinn hratt með haustinu bæði hérlendis og erlendis.
Nú eru hins vegar horfur á talsverðum fjölda til viðbótar fram til áramóta. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerðum við ráð fyrir því að ferðamenn hingað til lands yrðu um 600 þúsund í ár. Miðað við þá spá ættu u.þ.b. 50 þúsund manns að sækja landið heim í mánuði hverjum út árið. Þótt takmarkanir hafi verið hertar að áliðnu sumri virðist þó áhugi á heimsóknum hingað til lands talsverður, enda bólusetningar víða orðnar mjög útbreiddar og ferðavilji almennings bæði í Evrópu og Bandaríkjunum farinn að aukast á nýjan leik. Teljum við meiri líkur en minni á því að endanlegur fjöldi ferðamanna í ár gæti orðið heldur meiri en grunnspá okkar gerði ráð fyrir í ljósi þessara nýjustu talna.
Bandaríkjamenn flykkjast til landsins
Miklar breytingar hafa orðið á samsetningu ferðafólks hingað til lands eftir þjóðerni frá því COVID-19 faraldurinn skall á. Framan af voru Bandaríkjamenn býsna fámennir í þeim hópi enda strangar takmarkanir á ferðalög milli Bandaríkjanna og Evrópu, þar með talið Íslands. Eftir að reglum fyrir bólusett ferðafólk frá löndum utan Schengen var breytt síðastliðið vor jókst ferðavilji Bandaríkjamanna hingað til lands hins vegar hratt eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Er nú svo komið að hlutfall þeirra af heildafjölda ferðamann er komið í 38% og hefur aldrei verið hærra.
Þetta eru væntanlega góð tíðindi fyrir ferðaþjónustuna þar sem bandarískt ferðafólk hefur að jafnaði gert betur við sig í Íslandsferðum en gengur og gerist, dvalið hér lengur og eytt hærri fjárhæðum í ferð sinni en flestar aðrar þjóðir.
Samhliða fjölgun erlendra ferðamanna hefur lifnað nokkuð á ný yfir gistingum þeirra á íslenskum hótelum og gististöðum. Gistinætur útlendinga í ágústmánuði voru tæplega 640 þúsund og hafa ekki verið fleiri í einum mánuði í tæp tvö ár. Svo virðist sem dvalartími ferðamanna sé heldur lengri um þessar mundir en verið hefur. Á liðnu sumri voru slíkar gistinætur til að mynda 5,1 á hvern ferðamann en til samanburðar voru þær 4,3 sumarið 2019 og 3,7 sumarið 2018. Er hér enn ein vísbendingin um að hver ferðamaður skili hagkerfinu meiri virðisauka um þessar mundir en oft áður.
Útlitið bjart fyrir komandi ár
Líkt og áður er nefnt spáðum við nýlega 600 þúsund ferðamönnum hingað til lands á yfirstandandi ári. Útlit er fyrir að sú spá rætist, og hugsanlega gott betur, miðað við nýjustu tölur. Í þjóðhagsspá okkar gerðum við í kjölfarið ráð fyrir ríflega tvöfalt fleiri ferðamönnum hingað til lands á næsta ári, eða 1,3 milljónum, og tæpum 1,5 milljónum árið 2023.
Samhliða birtum við frávikssviðsmyndir. Annars vegar bjartsýna sviðsmynd þar sem spáð var 700 þúsund ferðamönnum á yfirstandandi ári, 1,5 milljónum á því næsta og 1,7 milljónum árið 2023 og hins vegar svartsýna sviðsmynd sem hljóðaði upp á 560 þúsund ferðamenn þetta árið, 900 þúsund á því næsta og 1,1 milljón ferðamanna á þarnæsta ári. Líklega verður niðurstaðan fyrir þetta ár rétt ofan við grunnspá okkar. Hvað í kjölfarið verður er svo gríðarlegri óvissu háð, en þó hafa að okkar mati líkur á að þróunin verði undir grunnspá okkar heldur minnkað undanfarið. Það eru því góðar líkur á verulegri fjölgun ferðamanna á komandi árum. Hins vegar er rétt að halda því til haga að stefnumótun geirans og stjórnvalda snýst fremur um hámörkun virðisauka af hverjum ferðamanni heldur en að fjölga þeim sem allra mest. Tökum við undir þá nálgun enda er framtíð ferðaþjónustulandsins Íslands líklega bjartari ef við mörkum landinu sess sem áfangastaðar þar sem gæði ráða eftirspurninni fremur en verð.