Brún landsmanna virðist nokkuð vera að léttast í sumarbyrjun ef marka má nýlega birta Væntingavísitölu Gallup fyrir júnímánuð. Vísitalan hækkar um ríflega 16 stig á milli mánaða og mælist nú tæplega 78 stig. Er það vissulega nokkuð undir jafnvægisgildinu 100 sem markar skilin milli þess hvort bjartsýni eða svartsýni ræður ríkjum meðal almennings. Sérstaka athygli vekur hins vegar að fleiri telja að aðstæður í efnahags- og atvinnumálum verði betri en nú að sex mánuðum liðnum en að þær verði verri eftir hálft ár. Er það í fyrsta skipti í tvö og hálft ár sem undirvísitalan fyrir sex mánaða væntingar mælist yfir 100.
Lund landsmanna léttist eftir COVID-dýfu
Brún landsmanna er orðin nokkuð léttari í sumarbyrjun en hún var þegar COVID-faraldurinn var í hámarki í apríl. Meirihluti neytenda býst við því að aðstæður í hagkerfinu verði betri en nú að hálfu ári liðnu. Þá hyggja fleiri á húsnæðiskaup en undanfarið. Aldrei hafa færri hins vegar haft fyrirætlanir um utanlandsferð en nú um stundir.
Oft er fróðlegt að fylgjast með þróun í kjölfar þess að vísitölurnar fyrir mat á núverandi ástand annars vegar og væntingar til sex mánaða hins vegar skerast. Það gerðist síðast nú í apríl eftir að Covid-19 faraldurinn varð til þess að mat neytenda á núverandi aðstæðum snarlækkaði. Þar á undan skárust þessar línur snemma árs 2016 þegar mat á núverandi aðstæðum fór fram úr 6 mánaða væntingum eftir að síðarnefnda vísitalan hafði haft vinninginn samfellt frá vetrarlokum árið 2008 í aðdraganda fjármálahrunsins þá um haustið. Með öðrum orðum virðist þessi skurðpunktur á væntingum almennings hafa orðið hálfu ári fyrir síðasta samdráttarskeið en markað upphaf núverandi samdráttar.
Vísbending um minnkandi einkaneyslu í ár
Allsterkt samband er milli þróunar VVG og einkaneyslu enda ræður tilfinning almennings fyrir stöðu og horfum í efnahagsumhverfinu miklu um neysluákvarðanir til skemmri tíma litið. Miðað við þróun væntingavísitölunnar á fyrri helmingi þessa árs má þannig búast við því að einkaneysla láti undan síga á árinu. Rímar það við aðra hagvísa á borð við kortaveltutölur og er einnig í samræmi við nýlega þjóðhagsspá okkar sem hljóðar upp á 5,5% samdrátt einkaneyslu á árinu í heild.
Aldrei færri verið á utanferðarbuxunum...
Samhliða Væntingavísitölunni birti Gallup ársfjórðungslega mælingu á stórkaupavísitölu sinni, þar sem könnuð eru fyrirhuguð kaup á íbúðum og bílum ásamt áætlunum um utanlandsferðir. Stórkaupavísitalan lækkar um nærri þriðjung að þessu sinni frá marsmælingu hennar og er það nær alfarið vegna snarprar minnkunar á áætluðum utanlandsferðum landsmanna. COVID-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á bæði getu og vilja til ferðalaga milli landa og þótt farið sé að slaka á hömlum á slík ferðalög er líklegt að ferðaviljinn verði lengur að taka við sér.
Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða mælist nú í sínu lægsta gildi frá upphafi mælinga árið 2002. Alls telja ríflega 41% svarenda líklegt að þeir fari utan á næstunni en í mars var þetta hlutfall 66%. Athygli vekur einnig að mælingin nú er talsvert lægri en þegar verst lét eftir fjármálakreppuna 2008 þegar kaupmáttur landsmanna á erlendri grundu hafði helmingast á stuttum tíma og efnahagshorfur voru æði dökkar. Ef raunin er sú að almenningur í þeim löndum sem ferðamenn hafa helst komið hingað til lands frá deili þessum takmarkaða ferðavilja gæti það leitt til þess að bati ferðaþjónustunnar hér á landi verði hægari en ella. Hins vegar er rétt að halda til haga að ferðaviljinn gæti fljótt braggast á nýjan leik ef afgerandi merki koma fram um að COVID-19 faraldurinn sé genginn yfir að mestu leyti.
...en fleiri hyggja á íbúðakaup
Þá er einnig forvitnilegt að sjá að hugur almennings til annarra stórkaupa lætur lítt á sjá þrátt fyrir dökkar skammtímahorfur í efnahagslífinu. Vísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa hækkar raunar milli mælinga og telja nú 6,7% svarenda líklegt að þeir muni fara á stúfana á íbúðamarkaði innan tíðar. Má gera því skóna að sögulega lágir vextir á íbúðalánum ráði þar nokkru um. Ef marka má þessa þróun gæti eftirspurn á íbúðamarkaði reynst meiri á næstunni en margir áttu von á eftir að COVID-faraldurinn gaus upp, sem svo aftur styður við verð á markaðinum.
Þá eru einnig fremur litlar breytingar á fyrirhuguðum bifreiðakaupum frá síðustu mælingu. Telja tæplega 15% svarenda líkur á því að ráðist verði í slík viðskipti á næstunni. Þessi vísitala tók nokkra dýfu á lokafjórðungi síðasta árs en þrátt fyrir að veikari króna hafi orðið til þess að hækka bifreiðaverð hér á landi virðist stemmningin fyrir bílakaupum hafa náð sér á strik á nýjan leik.
Í sem stystu máli gefur hin nýja mæling Gallup að mati okkar vísbendingu um að landsmenn hyggist draga allnokkuð saman seglin í neyslu sinni á næstunni. Sér í lagi verður samdráttur í innfluttri neyslu á borð við utanlandsferðir þar til aðstæður batna og COVID fjarlægist í baksýnisspeglinum. Við deilum hins vegar þeirri skoðun landans að líklegt sé að betri tímar séu handan við hornið og spáum því að samdráttarskeiðið sem hófst fyrr á þessu ári verði að baki þegar kemur fram á næsta ár.