Október hefur verið líflegur mánuður á skuldabréfamarkaði. Skoðanaskipti á markaðinum hafa verið umtalsverð, velta myndarleg á stundum og ýmsar fréttir hreyft verulega við verðlagningu á honum síðustu vikur. Raunar hefur einnig ýmislegt dregið til tíðinda á íslenskum skuldabréfamarkaði fyrr á árinu. Þar sem þróun á skuldabréfamarkaði endurspeglar skoðun markaðsaðila á ýmsum þáttum í efnahagsþróun er fróðlegt að kíkja aðeins undir vélarhlífina á þeim markaði og draga fram hvaða sögu hann hefur sagt af væntingum um þróun efnahags, vaxta og verðbólgu.
Sviptingar á verðtryggða markaðinum
Vaxtalækkun Seðlabankans í októberbyrjun hafði nokkur áhrif á kröfu óverðtryggðra ríkisbréfa, sem mynda grunninn fyrir verðlagningu á þeim hluta skuldabréfamarkaðar. Þó höfðu vaxandi væntingar um yfirvofandi vaxtalækkun, ásamt kaupum erlendra aðila á ríkisbréfum í allnokkru magni, raunar þegar leitt til lækkunar kröfunnar vikuna fyrir vaxtaákvörðun Seðlabankans. Í kjölfarið hefur hins vegar ríkt nokkur stöðugleiki í ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa, jafnvel þótt fréttir á borð við skyndileg stjórnarslit og heldur meiri hjöðnun verðbólgu en vænst var hafi komið fram.