Getur verið að 2,6 milljóna manna þjóð ætli að eyða 20.000 milljörðum króna í að halda heimsmeistaramót í fótbolta? Þannig líta að minnsta kosti áætlanir Katara út við fyrstu sýn, en þeir hýsa næsta mót árið 2022. Standist þessi upphæð skoðun er um að ræða hærri upphæð en sem nemur samanlögðum kostnaði allra heimsmeistaramóta sögunnar. Svo við setjum umfangið í eitthvert samhengi hefði fyrir sömu upphæð verið hægt að halda Eurovision frá því á tímum Babýlons og eiga enn helminginn í afgang.
5% í leikvanga
En er þetta satt? Eins og faðir Lovejoy sagði eitt sinn er stutta svarið „já, ef“ og langa svarið „nei, en“. Þetta fer eftir því hvað við teljum beinan kostnað við mótið og hvaða framkvæmdir hefði verið ráðist í óháð því. Samþykki FIFA að einungis verði leikið á 8 völlum, eins og gestgjafarnir leggja til, er áætlaður kostnaður við leikvanga mótsins og æfingaaðstöðu um 1.000 milljarðar króna, sem er nokkuð undir framkvæmdakostnaði í Rússlandi, en þar er leikið á 12 leikvöngum.
Hinum 19.000 milljörðunum verður ráðstafað í hin ýmsu innviðaverkefni. Meðal annars verður úrslitaleikur mótsins haldinn í borginni Lusail, en sú borg er ekki til í dag. Sjúkrahús, neðanjarðarlestarkerfi, vegaframkvæmdir og fleira kosta sitt og segir fjármálaráðherra landsins útgjöldin þegar orðin um 50 milljarðar króna á viku vegna verkefna sem sögð eru tengjast heimsmeistaramótinu. Til viðbótar við fjárhagslegan kostnað áætlar Human rights watch að hundruð verkamanna frá Suður-Asíu hafi látist við byggingu leikvanga.
HM er ekki að fara að kosta 20.000 milljarða. 1.000 milljarðar er nær lagi, en það er heilmikið samt sem áður. Ef við færum þá upphæð sem hlutfall landsframleiðslu á mann yfir á okkur Íslendinga væri það sambærilegt og að hér væri haldið íþróttamót fyrir 130 milljarða króna. Þá yrði nú hugsanlega eitthvað sagt.
Greinin birtist fyrst í Markaðinum - fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál