Landsmenn stilltu jólagleðinni í hóf um nýliðnar hátíðir ef marka má þróun kortaveltu heimilanna. Íslensk heimili virðast nú vera að pakka í vörn í kjölfar gengislækkunar krónu og vaxandi óvissu um efnahagshorfur. Lokafjórðungur síðasta árs er fyrsti ársfjórðungur frá upphafsfjórðungi ársins 2013 þar sem samdráttur varð í kortaveltu einstaklinga á milli ára að raunvirði.
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam kortavelta íslenskra heimila í desember alls 86,5 mö.kr. Jafngildir það 4,5% aukningu í krónum talið frá jólamánuðinum 2017.
Hins vegar kemur nokkuð önnur mynd á daginn ef mánaðartölurnar eru raunvirtar miðað við þróun neysluverðs og gengis. Á þann mælikvarða var desember annar mánuðurinn í röð þar sem kortavelta dróst saman að raunvirði á milli ára. Fram að nóvember síðastliðnum hafði ekki orðið samdráttur á þennan mælikvarða frá febrúarmánuði árið 2014. Eins og sjá má af myndinni hér fyrir ofan skiptir sköpum um heildarþróunina að enginn raunvöxtur varð í erlendri kortaveltu á lokamánuðum síðasta árs eftir myndarlegan vöxt slíkrar veltu undanfarin ár. Þá snerist einnig þróun kortaveltu innanlands úr vexti í samdrátt eftir því sem nær dró árslokum.
Heimilin loksins að herða beltin?
Einkaneysluvöxtur hefur reynst lífseigari undanfarna fjórðunga en við bjuggumst við, þrátt fyrir lækkandi væntingar, hóflegri kaupmáttarvöxt og hægari fólksfjölgun en raunin var misserin á undan. Sér í lagi kom myndarlegur vöxtur einkaneyslu á 3. ársfjórðungi okkur á óvart enda kom í kjölfarið upp úr kafinu að skekkja var í kortaveltutölum Seðlabankans , sem gerði okkur og aðra greinendur svartsýnni á einkaneysluna en efni stóðu til.
Nú virðist hins vegar komið á daginn að heimilin eru að rifa seglin. Kortavelta dróst örlítið saman að raunvirði á lokafjórðungi síðasta árs eftir samfelldan vöxt í tæp fimm ár. Er það að mati okkar nokkuð skýrt merki um að einkaneysluvöxtur muni reynast lítill á fjórðungnum. Gengislækkun krónu frá septemberbyrjun og óvissa tengd skammtímaþróun í ferðaþjónustunni og komandi kjarasamningum er líklega farin að segja til sín í neysluhegðun landans og er viðbúið að heimilin vilji áfram hafa vaðið fyrir neðan sig hvað neysluútgjöld varðar á komandi mánuðum.