Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Landsmenn leggja fyrir í hækkandi vaxtaumhverfi

Mikill vöxtur í innlánum heimila undanfarið er líklega merki um aukinn sparnað samhliða hækkandi raunvöxtum. Efnahagur flestra heimila er allsterkur og skuldsetning þeirra hófleg í samanburði við nágrannaþjóðir. Tíunda hvert heimili í eigin húsnæði bjó þó við íþyngjandi húsnæðiskostnað á síðasta ári og líklega hefur það hlutfall hækkað síðan.


Innlán  íslenskra heimila hjá innlendum innlánsstofnunum hafa aukist mikið undanfarna mánuði. Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans námu heildarinnlán íslenskra heimila 1.418 ma.kr. í septemberlok. Frá sama tíma í fyrra hafa slík innlán aukist um tæp 16% og sé leiðrétt fyrir verðlagsþróun nemur aukningin tæpum 8% frá september 2022.

Eins og sjá má af myndinni er bróðurparturinn af aukningunni í formi innstæðna á óbundnum, óverðtryggðum sparireikningum. Heildar innstæða á slíkum reikningum nam 657 ma.kr. um síðustu mánaðamót og hafði vaxið um þriðjung í krónum talið, eða sem nemur 166 ma.kr., frá september í fyrra. Stjórnendur Seðlabankans bentu á það við síðustu vaxtaákvörðun í októberbyrjun að aukning innlána heimila væri til marks um vaxandi áhrif peningastefnunnar á sparnaðarhneigð almennings.

Raunar ber að halda því til haga að hluti þessarar hröðu aukningar er líkast til spegilmynd af útflæði úr öðrum sparnaðarformum. Þar er nærtækt að líta til verðbréfasjóða en samkvæmt tölum Seðlabankans skruppu eignir heimila í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða saman um tæplega 30 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Þó virðist líklegt að talsverður hluti innlánavaxtarins endurspegli hreina aukningu í sparnaði almennings.

Peningastefnan ýtir undir sparnað

Fram kom á kynningarfundi eftir síðustu vaxtaákvörðun að innlánavextir hjá íslenskum fjármálastofnunum hefðu fylgt hækkun stýrivaxta betur eftir en raunin væri víðast hvar í nágrannalöndum. Taldi Seðlabankastjóri að líklega væri aukin samkeppni á innlánamarkaði hér á landi að styðja við áhrifamátt peningastefnunnar þar sem hægt væri að ná jákvæðri raunávöxtun á sparifé án verulegrar bindingar. Slíkt væri síður raunin í nágrannalöndunum. Átti þessi þróun þátt í því að ákveðið var að bíða átekta með vaxtahækkunarferli bankans í októbermánuði.

Hefur yfirdráttur heimila vaxið?

Það vakti nokkra athygli á dögunum að heildar fjárhæð yfirdráttarlána heimila fór yfir 100 ma.kr. í fyrsta sinn í ágústlok. Það reyndist hins vegar skammvinnt og í lok september hafði þessi fjárhæð lækkað að nýju í tæpa 93 ma.kr. Eins og myndin sýnir hefur þó leitnin í umfangi yfirdráttarlána í krónum talið verið upp á við frá ársbyrjun 2021 eftir að hafa haldist á tiltölulega þröngu bili árin á undan.

Önnur mynd kemur þó á daginn ef leiðrétt er fyrir verðlagsþróun. Á föstu verðlagi hefur jafnt og þétt dregið úr yfirdráttarlánum íslenskra heimila undanfarinn áratug eða svo. Uppreiknað miðað við verðlag í september sl. hafa yfirdráttarlánin þannig skroppið saman um fjórðung frá ársbyrjun 2015. Þar sem laun og ráðstöfunartekjur hafa hækkað allnokkuð meira en sem nemur verðbólgu á tímabilinu endurspeglar þessi þróun því talsverða lækkun í hlutfalli yfirdráttarlána af tekjum íslenskra heimila.

Efnahagur flestra heimila allsterkur

Sú þróun er hluti af almennari leitni til hins betra í  skuldastöðu heimila undanfarin ár. Samkvæmt Hagvísum Seðlabankans námu heildarskuldir íslenskra heimila við fjármálastofnanir tæpum 76% af vergri landsframleiðslu (VLF) um mitt þetta ár. Hafði þetta hlutfall þá lækkað um 25 prósentur frá ársbyrjun 2013 þegar það var nánast jafnt VLF. Jafnframt hafði hlutur verðtryggðra skulda af heildarskuldum heimila lækkað umtalsvert á tímabilinu. Slíkar skuldir voru ríflega 80% af VLF fyrir áratug síðan en námu 37% af landsframleiðslu um mitt þetta ár. Sú þróun helst í hendur við vaxandi hlut óverðtryggðra lána af íbúðalánum heimila undanfarin ár.

Í samanburði við nágrannaþjóðir eru landsmenn í skuldléttari kantinum. Samkvæmt Hagvísum námu skuldir íslenskra heimila 154% af ráðstöfunartekjum þeirra í árslok 2021. Á sama tíma var hlutfallið 206% í Danmörku, 205% í Noregi og 172% í Svíþjóð. Nýrri gögn liggja ekki fyrir um síðartöldu löndin tvö en í Danmörku lækkaði þetta hlutfall niður í 171% á síðasta ári. Nýjustu tölur fyrir Ísland eru frá miðju þessu ári og var hlutfallið þá tæplega 150%.

Vissulega þarf að halda til haga að vaxtastig á Íslandi hefur almennt verið hærra en í samanburðarlöndum síðustu áratugina. Á móti kemur að allt fram á síðustu ár voru verðtryggð lán uppistaðan í skuldum íslenskra heimila en í slíkum lánum er greiðslubyrðin léttari á kostnað hægari niðurgreiðslu höfuðstóls. Því er uppörvandi að sjá að skuldahlutfallið hefur lækkað talsvert hér á landi þrátt fyrir tilvist slíkra lána á innlendum lánamarkaði.

Tíunda hvert heimili með íþyngjandi húsnæðiskostnað 2022

Hér er vitaskuld mikilvægt að hafa í huga að um meðaltöl er að ræða. Fjárhagsleg staða íslenskra heimila er jafn mismunandi og þau eru mörg. Efalítið er allnokkur hluti þeirra að fást við verulega áskorun vegna íþyngjandi húsnæðiskostnaðar þessa dagana. Hagstofan hefur frá árinu 2010 gert athugun meðal heimila á byrði húsnæðiskostnaðar. Meðal þeirra heimila sem búa í eigin húsnæði töldu 10% þeirra á síðasta ári að húsnæðiskostnaður þeirra væri þung byrði. Þar er raunar einnig horft til annars kostnaðar en afborgana af lánum, s.s. viðhalds, trygginga og annarra reglulegra gjalda. Þótt hlutfallið virðist ekki ýkja hátt er hér um nærri 13 þúsund heimili að ræða.

Nýjar niðurstöður úr lífskjarakönnun Hagstofunnar fyrir þetta ár verða væntanlega birtar síðar í vetur. Í ljósi hækkandi vaxta kæmi ekki á óvart að þetta hlutfall myndi reynast hærra þetta árið en á síðasta ári. Það er þó óneitanlega viðráðanlegra viðfangsefni að bregðast við neikvæðri þróun að þessu leyti þegar hún snertir fyrst og fremst afmarkaðan hluta heimila fremur en hinn breiða fjölda. Því er mikilvægt að fylgst sé vel með þróun komandi mánaða hjá skuldsettum heimilum og stutt við bakið á þeim sem þess þurfa með einum eða öðrum hætti ef snarpar breytingar til hins verra verða á stöðunni.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband