Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Landsframleiðsla dróst saman á fyrsta ársfjórðungi

Landsframleiðsla dróst saman á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn skýrist af stærstum hluta af hruni í ferðaþjónustu sem og samdrætti í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og hjá atvinnuvegum. Horfur eru á að samdráttarskeiðið sé á enda og strax á yfirstandandi ársfjórðungi sé vöxtur í landsframleiðslu í vændum.


Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar dróst verg landsframleiðsla (VLF) saman um 1,7% á fyrsta fjórðungi þessa árs frá sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er að mestu vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta sem má að stærstum hluta rekja til mikils samdráttar í ferðaþjónustu. Útflutningur skrapp saman um 20% á fjórðungnum en á sama tíma dróst innflutningur saman um 11,3%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er því neikvætt þar sem útflutningur skrapp talsvert meira saman en innflutningur á fjórðungnum.

Þrátt fyrir samdrátt í landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi síðasta árs má þess geta að áhrifa Kórónukreppunnar fór ekki að gæta að fullu fyrr en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Samdrátturinn í fyrra mældist 6,6% að raunvirði og var hann mestur á öðrum og þriðja fjórðungi ársins. Tölur fyrir þennan ársfjórðung gefa því mjög líklega skakka mynd af árinu í heild. Við væntum að vöxtur glæðist í landsframleiðslu á nýjan leik á seinni hluta ársins og raunar eru horfur á einhverjum vexti strax á yfirstandandi ársfjórðungi. Í nýrri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir 2,7% hagvexti í ár.

Samdráttur í þjónustuútflutningi eins og vænta mátti

Líkt og áður sagði skrapp útflutningur saman um 20% milli ára á sama tíma og innflutningur dróst saman um 11,3%. Samdráttur mældist í flestum undirliðum utanríkisviðskipta en mestur var hann í þjónustuútflutningi eða um 52%. Hins vegar mældist 4,6% vöxtur í vöruútflutningi.

Ferðaþjónusta er helsta ástæða samdráttar í þjónustuútflutningi en eðli málsins samkvæmt hefur hún legið í dvala að mestu frá því að faraldurinn skall á. Allt árið í fyrra komu um 475 þúsund ferðamenn hingað til lands og langstærsti hluti þeirra kom á fyrsta fjórðungi ársins, eða um 330 þúsund, sem skýrir þennan mikla samdrátt milli ára.

Í þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir að 700 þúsund ferðamenn sæki landið heim á þessu ári. Þrátt fyrir að það sé einungis þriðjungur af þeim fjölda sem var hér árið 2019 mun það skipta sköpum um hvort og hversu hratt hagkerfið réttir úr kútnum.

Fjárfesting hins opinbera leiðir vagninn

Fjármunamyndun hefur gefið eftir samfleytt í tvö ár eftir allmyndarlegan vöxt síðasta áratug. Í fyrra mældist 6,8% samdráttur í liðnum í heild og var í takti við samdrátt í landsframleiðslu. Á fyrsta fjórðungi þessa árs dróst fjármunamyndun saman um 2,9% samanborið við sama tímabil í fyrra.

Íbúðafjárfesting dróst mest saman á fjórðungnum eða um 8,8% og atvinnuvegafjárfesting um 4,9%. Samkvæmt Hagstofu er áætlað að atvinnuvegafjárfesting hefði aukist um 5,3% ef fjárfesting hefði ekki dregist saman í skipum, flugvélum og stóriðju. Aftur á móti jókst fjárfesting hins opinbera á tímabilinu um 18,7%  og teljum við jafnframt að útlit sé fyrir að hið opinbera leiði fjárfestingavöxt á árinu í heild enda fjárfestingarátak stjórnvalda vegna faraldursins í hámarki. 

Líkt og áður sagði dróst íbúðafjárfesting sama um tæp 9% á fyrsta ársfjórðungi 2021, en á árinu 2020 kom metfjöldi fullgerðra íbúða inn á markaðinn. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins er útlit fyrir að dregið hafi verulega úr byggingu nýrra íbúða þegar faraldurinn skall á. Ef það reynist rétt er það ákveðið áhyggjuefni því mikil eftirspurn er á íbúðamarkaði um þessar mundir. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þróun í íbúðafjárfestingu verður á næstu fjórðungum.

Einkaneysla vex á nýjan leik

Þróun einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Vöxtur í einkaneyslu mældist 0,8% á fjórðungnum eftir samdrátt síðustu þrjá fjórðunga. Samkvæmt Hagstofu jókst einkaneysla innanlands en neysla Íslendinga erlendis dróst talsvert saman á milli ára. Þetta er í takti við þróun einkaneyslunnar í fyrra, þá dróst einkaneyslan saman um 3,3% sem var vegna mikils samdráttar í neyslu erlendis sem og í þeirri þjónustu sem sóttvarnaraðgerðir höfðu mest áhrif á. Neysla innanlands hélt þó velli í stórum dráttum.

 

Við teljum að samdráttur í einkaneyslu hafi verið bundinn við síðasta ár og neysla heimilanna muni vaxa jafnt og þétt á ný. Í fyrrnefndri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir 2,9% vexti í einkaneyslu á árinu. Vaxandi kaupmáttur launa, myndarlegur vöxtur í innlendri kortaveltu og aukin bjartsýni landsmanna styðja þessa skoðun okkar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband